Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.5.2009.
Um þessar mundir eru 8 mánuðir frá því að Seðlabankinn tók þá ákvörðun fyrir hönd ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar að taka yfir 75% hlut í Glitni. Afleiðingar þessarar ákvörðunar hafa verið geigvænlegar og er ekki séð fyrir endann á þeim enn. Þegar þáverandi formaður bankastjórnar, Davíð Oddsson, tók þessa ákvörðun í lok september á síðasta ári, þá voru hér starfandi fimm bankar (Glitnir, Kaupþing, Landsbankinn, Sparisjóðabankinn og Straumur) og öflugt sparisjóðakerfi. Nú 8 mánuðum síðar hafa allir bankarnir fimm verið teknir yfir af ríkinu, þar af verða tveir til þrír líklega settir í þrot, stærsti og öflugasti sparisjóður landsins er ekki lengur til og margir aðrir rétt tóra. Sem afleiðing af þessu og efnahagsóstjórn í aðdraganda hruns fjármálakerfisins eru fjölmörg heimili og fyrirtæki ýmist komin í þrot eða við það að komast í þrot. Hvernig skyldi nú standa á þessu öllu?
Þegar stórt er spurt, er oft fátt um svör, en mig langar að gera hér smá tilraun. Í mínum huga er ástæða númer eitt, tvö og þrjú algjör skortur á stefnumótun og markmiðssetningu. Fyrst virtist vanta skýra stefnu varðandi uppbyggingu fjármálakerfisins. Svo vantaði stefnu varðandi hvernig á átti að vinna sig út úr vandanum sem kom fyrst í ljós á vormánuðum 2006 og síðan aftur á haustmánuðum 2007. Þá vantaði skýr úrræði til að kljást við þau vandamál sem komu upp síðari hluta febrúar 2008 og að ég tali nú ekki um í mars það ár. Margar misgáfulegar ákvarðanir voru teknar í tilraun Seðlabankans til að bjarga Glitni, Kaupþingi og Landsbankanum, sem síðan felldu Straum, Sparisjóðabankann og SPRON og gerðu Seðlabankann í raun gjaldþrota. Í september voru mikilvægar ákvarðanir teknar af formanni bankastjórnar Seðlabankans í staðinn fyrir að reynt væri að leysa málin með samvinnu margra aðila. Datt engum í hug að spyrja sig hvað það þýddi að svipta eigendur hlutabréfa í Glitni 75% af eign sinni? Datt engum í hug að skoða tengsl eignarhalds í þessum hlutabréfum við ábyrgðir og veð vegna annarra skuldbindinga?
En í lok september var ballið rétt að byrja og skaðinn var ennþá ekki orðinn mikill. Skaðinn varð í sjálfu sér ekkert svo svakalegur við það að bankarnir féllu út frá starfsemi bankanna. Tjónið fólst fyrst og fremst í því að eignir manna í hlutabréfum urðu að engu. Það var bara eins og engum hafi dottið í hug að skoða afleiðingarnar af því. En jafnvel þá var tjónið ekki orðið alvarlegt. Það hefði mátt koma í veg fyrir margt af því sem síðar hefur átt sér stað með réttri stefnumótun og markmiðssetningu. Það var bara ekki gert. Við erum í dag að súpa seyðið af því slík vinna fór ekki í gang strax á fyrstu dögunum eftir að neyðarlögin voru sett (hún fór raunar í gang en lognaðist út af) og það sem meira er að allar aðgerðir stjórnvalda eru ennþá fálmkennd og stefnulaus.
Afleiðingin af þessu stefnuleysi er að setja þjóðfélagið á hausinn. Fyrirtækin eru að fara í þrot hvert af öðru, heimilin eru að fara í þrot hvert af öðru, skilanefndir gömlu bankanna toga hver í sína áttina, þar sem þær fengu enga línu frá stjórnvöldum. Krónan er sígur hægt og rólega til botns enda með allt of stutta akkerisfesti sem dregur hana í dýpið. Við getum beðið eftir því að þetta skrið niður á við hætti af sjálfu sér (sem er íslenska leiðin) eða við getum hafið markvissar aðgerðir til að stöðva það.
Í færslu hér 6. nóvember 2008 gerði ég eftirfarandi tillögu:
Nú þarf strax að grípa til aðgerða og fá færustu sérfræðinga landsins og þá erlendu aðila sem næst í til að mynda nokkur aðgerðaráð. Ég sé fyrir mér að þessi ráð verði um eftirfarandi málefni:
Fjármálaumhverfi: Verkefnið að fara yfir og endurskoða allt regluumhverfi fjármálamarkaðarins.Bankahrunið og afleiðingar þess: Verkefnið að fara yfir aðdraganda bankahrunsins svo hægt sé að læra af reynslunni og draga menn til ábyrgða. Atvinnumál: Verkefnið að tryggja eins hátt atvinnustig í landinu og hægt er á komandi mánuðum.Húsnæðismál: Verkefnið að finna leiðir til að koma veltu á fasteignamarkaði aftur á stað.Skuldir heimilanna: Verkefnið að finna leiðir til að koma í veg fyrir fjöldagjaldþrot heimilanna í landinu.Ímynd Íslands: Verkefnið að endurreisa ímynd Íslands á alþjóðavettvangi.Félagslegir þættir: Verkefnið að byggja upp félagslega innviði landsins.Ríkisfjármál: Verkefnið að móta hugmyndir um hvernig rétta má af stöðu ríkissjóðs.Peningamál: Verkefnið að fara ofan í peningamálastefnu Seðlabanka Íslands, endurskoða hana eftir þörfum og hrinda í framkvæmd breyttri stefnu með það að markmiði endurreisa traust umheimsins á Seðlabanka ÍslandsGengismál: Verkefnið að skoða möguleika í gengismálum og leggja fram tillögur um framtíðartilhögun. Verðbólga og verðbætur: Verkefnið að fara yfir fyrirkomulag þessara mála og leggja til umbætur sem gætu stuðlað að auknum stöðugleika.Framtíð Íslands - Á hverju ætlum við að lifa: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi nýja atvinnuvegi.Framtíð Íslands - Hvernig þjóðfélag viljum við: Verkefnið að móta framtíðarsýn fyrir Ísland varðandi inniviði þjóðfélagsins.
Þessir hópar þurfa að vera fleiri, en ég læt þessa upptalningu duga.
Hóparnir þurfa að vera ópólitískir. Fyrir hverjum hópi fari einstaklingar úr atvinnulífinu eða háskólasamfélaginu. Stærð hópa velti á umfangi vinnu og hversu brýn viðfangsefnin eru. Stærri hópar þurfa lengri tíma. Mikilvægt sé að allir geti komið skoðunum sínum að. Misjafnt er hve hratt hóparnir þurfa að vinna, en ljóst að "neyðarhóparnir" þurfa að vinna hratt og vel.
Nú sé ég fyrir mér að við þurfum fleiri hópa og hlutverk þeirra sé að móta stefnu og skilgreina markmið. Starfsvið þeirra sé að gera tillögu að aðgerðaáætlun til að vinna okkur út úr þeim vanda sem þjóðin er sífellt að sökkva dýpra og dýpra ofan í. Að stöðva hrunið sem ennþá er í gangi. Við höldum að sumarið verði gott vegna fjölda ferðamanna, en ég hef fyrir því heimildir að sum ferðaþjónustufyrirtæki standi frammi fyrir 60% samdrætti í pöntunum. Vona ég að það gangi ekki eftir.
Ég sagði um daginn, að ég væri tilbúinn að leiða svona vinnu og skila niðurstöðum í formi hvítbókar á innan við 8 vikum. Stend ég við þá yfirlýsingu mína. Ég er svo sem viss um að úti í þjóðfélaginu séu til hæfari einstaklingar til verksins, en hver það verður valinn til að stýra svona skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er að einhenda sér í verkið.
Viðbót sem ég setti í athugasemd:
Dæmi um markmiðssetningu sem ég mundi vilja sjá er t.d. eftirfarandi:
Draga markvisst út skuldsetningu heimilanna í landinu
Koma á skilvirkum markaði með íbúðarhúsnæði hvert sem búsetuformið er, þ.e. eignarhúsnæði, leiguhúsnæði eða búsetaform svo dæmi séu tekin
Tryggja að allir landsmenn 18 ára og eldri geti verið þátttakendur á þessum húsnæðismarkaði eftir efni og aðstæðum
Tryggja að núverandi íbúðareigendum verði gert kleift að halda húsnæði sínu hafi þeir á annað borð fjárhaglegar forsendur til slíks
Leitað verði leiða til að skapa eins mörgum og hægt er fjárhagslegar forsendur til að halda húsnæði sínu með því að laga til langs tíma greiðslubyrði að greiðslugetu
Skapa lánakerfi sem er réttlátt, sanngjarnt og að mestu laust við sveiflur eða öfgakenndar breytingar á höfuðstólum lánanna og greiðslubyrði
Tryggja betri neytendavernd
Skapa opnari og skilvirkari lánamarkað
Yfirfara og endurskoða útreikninga og forsendur verðtryggingar og verðbreytinga á núverandi lánasöfnum
Jafna ábyrgð lántakenda og lánveitenda við útlán, m.a. með því að takmarka veð við veðandlag