Hvernig væri að sýna skilning?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.5.2009.

Sem stjórnarmaður í Hagsmunasamtökum heimilanna, þá fæ ég alls konar símhringingar frá fólki sem er komið í þrot, hefur misst greiðsluviljann eða er bara reitt.  Ég verð bara að viðurkenna að sumar sögurnar eru svo fáránlegar, að maður er bara hlessa.  T.d. talaði við mig um daginn kona, sem lent í vandræðum 2003.  Hún gerði samning við bankann sinn og hefur borgað í samræmi við það samkomulag.  Nú vildi hún fá sér debetkort hjá bankanum (hvernig hún komst af án debetkorts í allan þennan tíma er mér ráðgáta), en viti menn.  Bankinn sagði nei.  Hún væri á vanskilalista og þess vegna fær hún ekki DEBETKORT!!!  Hún var ekki að biðja um heimild og hún er búin að vera í skilum í þau 5 ár síðan að samkomulagið var gert, en hún væri ennþá á vanskilalista og þess vegna sagði bankinn NEI.

Er það þetta sem býður 30% þjóðarinnar, ef ekki fleiri?  Er það þetta sem við viljum láta bjóða okkur?  Bankarnir sem settu þjóðina á hausinn þykjast yfir okkur hafnir vegna þess að við skuldum þeim pening sem við fengum ekki lánaðan heldur varð til vegna fjárglæfrastarfsemi bankanna.  Hvar er auðmýktin?  Hvar er iðrunin?

Í annað sinn hringdi í mig aðili utan af landi.  Þau hjónin eru í svipaðri stöðu og margir landsmenn, tekjurnar hafa haldist óbreyttar eða lækkað lítillega, en útgjöldin, þá sérstaklega afborganir lána, hafa hækkað umtalsvert.  Leitað var til bankans, en hann telur sig ekkert geta gert, vegna þess að þau uppfylltu ekki skilyrðið í samkomulagi fjármálafyrirtækja og stjórnvalda um greiðsluerfiðleikaúrræði um "að greiðsluerfiðleikar stafi af óvæntum tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, slysa, minni atvinnu, atvinnuleysi eða af öðrum ófyrirséðum atvikum", eins og segir í samkomulaginu.  Þetta er greinilega túlkað þannig, að viðkomandi verði að hafa orðið fyrir tekjumissi.  Skjalið sem á að vera útfærsla á greiðsluerfiðleikaúrræðum Íbúðalánasjóðs er nefnilega samið fyrir lánastofnanirnar, ekki lántakendur.  Það virðist eiga að tryggja að bankarnir fái örugglega sitt, en ekki að leggja til eins mörg úrræði og hugsast getur fyrir þá sem eru fórnarlömb fjárhættuspils bankanna.  (Meira um þessar reglur í færslu hér síðar.)

Aftur að hjónunum.  Þau eru búin að þrauka og standa í skilum alveg þar til núna í maí.  Þá var allt lausafé búið og varasjóðurinn tæmdur.  Rætt var við bankann um að frysta fasteignalánin, en svarið var nei.  "Þið hafið ekki orðið fyrir tekjumissi."  Mér finnst þetta alveg dásamleg röksemdarfærsla.  Sjáið sko, bankinn verður fyrir tekjumissi, ef hann fær ekki verðbæturnar sínar, en launamaðurinn verður ekki fyrir tekjumissi, ef launin hans standa í stað.  merkilegt nokk.  En það er kannski ekki það sem skiptir máli í þessu tilfelli:  Hækkun útgjalda er það sem skiptir máli.  Hjón sem höfðu, segjum, 270.000 kr. til ráðstöfunar í upphafi síðasta árs og hafa 270.000 kr. núna, vantar 54.000 til að vera með sömu greiðslugetu og í janúar í fyrra.  Kr. 54.000 er pláss fyrir tvö börn á leikskóla (a.m.k. sums staðar), það er áskrift að Stöð2 í heilt ár eða mánaðarleg borgun af 8.000.000 kr. láni.  Hvernig er hægt að segja, að ef einhvern vantar 54.000 kr. inn í ráðstöfunartekjur sínar, hafi sá aðili ekki orðið fyrir "óvæntum tímabundnum erfiðleikum...af öðrum ófyrirséðum atvikum"?

Tilfinning okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna er að núna sé að koma önnur bylgja vandræða.  Fólkið sem nýtti sér öll úrræðin í haust og vetur, er að koma aftur og biðja um framlengingu frystinga eða frekari úrræði.  Einnig er fólkið, sem átti varasjóði til, að sækja til bankans síns um úrræði þar sem peningurinn er uppurinn.  Málið er að nú þurfa bankarnir ekki að samþykkja frystingu, það eru nefnilega komin "úrræði".  Þessi úrræði heita "greiðsluaðlögun", "greiðslujöfnun" og öðrum svona framandi heitum.  Bara þeir sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi geta nýtt sér hin sértæku "greiðsluerfiðleikaúrræði".  Hinum, sem hafa verið svo heppnir að halda óbreyttum tekjum, er sniðinn þröngur stakkur.  Vissulega eru úrræði fyrir þennan hóp, en þau eru ekki í neinu samræmi við breytingu á fjárhagsstöðu fólks.  Greiðslujöfnunarvísitalan slær ekki á nema hluta þeirrar hækkunar sem hefur orðið undanfarið eitt og hálft ár.  Sama á við um greiðslujöfnun gengisbundinna lána.  Viðmiðið upp á gengisvísitölu 152 er 32 punktum eða 26,5% yfir gengi í árslok 2007.  Það eru ekki allir sem ráða við það sem umfram stendur.  Vissulega er hópur fólks ennþá vel settur, en jafnvel það er að missa viljann til að greiða.  Hvað gerist þá? 

Mér finnst sem lánastofnanir og stjórnvöld átti sig ekki á því hversu alvarlegt ástandið er orðið.  A.m.k. viðurkenna þessir aðilar það ekki út á við.  Í tveggja manna tali eru áhyggjurnar kannski viðraðar og möguleikar, en um leið og þriðji maður bætist við, þá er dregið í land.  Átta menn sig ekki á því að verðgildi lánasafnanna lækkar dag frá degi.  Það skiptir engu máli hvort um er að ræða útlán bankanna eða Íbúðalánasjóðs verðmætin rýrna hratt.  Eina leiðin til að snúa þessari þróun við, er að koma veltunni á fasteignamarkaðnum af stað aftur.  Það verður ekki gert nema áhvílandi lán verði stillt af og miðuð við greiðslugetu lántakenda.  Hugsanlega er hægt að setja hluta lánanna til hliðar og sjá svo síðar hvort meira verði innheimt, en lausnin er ekki að lengja í lánunum.  Lausnin er heldur ekki að setja stóran hóp fólks í greiðsluaðlögun eða gjaldþrot.  Það getur verið að það sé eina lausnin fyrir suma, en þá verður að breyta fyrningareglum eða að taka upp reglur Íbúðalánasjóðs um meðhöndlun lána umfram veð, þannig að fólk sé ekki að draga eftirstöðvar á eftir sér um aldur og ævi. 

Lánastofnanir verða að sætta sig við að ákveðinn hluti útlána þeirra til heimilanna er tapaður og verður aldrei innheimtur.  Stærsti hluti lánanna er í góðum málum og munu innheimtast að fullu. Og loks eru þau lán sem óljóst er hvort innheimtast.  Markmið kröfuhafa, hvort heldur innlendra lánveitenda heimilanna eða erlendra kröfuhafa bankanna, er að hámarka það sem fæst út úr þessu vafahluta.  Að mínu áliti verður það ekki gert með því að ganga hart fram núna. Þetta verða lánastofnanir að skilja.  Þær verða að sýna þolinmæði og skilning.  Þær verða að hjálpa til við að rétta þjóðfélagið af eftir það áfall sem hér gekk yfir á síðasta ári.