Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.5.2009.
Ég get ekki á mér setið og verð að svara orðum Stefáns Ólafssonar, prófessors í félagsfræði, sem koma fram í helgarblaði DV. Í frétt DV, sem birt er á Pressunni segir:
Stefán Ólafsson, prófessor í félagsfræði, segir niðurfærslu skulda dæmigerða frjálshyggjukenningu ættaða frá Bandaríkjunum.
Mig langar að svar þessu þannig til, að ég kom fyrstur fram með þessa tillögu í færslu hérna 28. september 2008. Þar segi ég:
[Ríkið] getur gert það með því að stofna einhvers konar afskriftarsjóð lána, þar sem bankar geta sótt pening til að afskrifa/lækka höfuðstóla húsnæðislána og bílalána.
Þetta var áður en Glitnir féll og hugmyndin byggir ekki á neinni kenningu frá einum eða neinum. Mér fannst þetta þá og finnst þetta nú vera skynsamlegt. Ég hef aldrei kynnt mér "frjálshyggjukenningar ættaðar frá Bandaríkjunum" og á ekki von á því að ég sæki kenningar þangað. Það vil bara svo til að þessar kenningar fara saman við mína skoðun. Auk þess hefði ég haldið að þetta ætti skylt við eitthvað allt annað en frjálshyggju og hef alltaf haldið að þetta væri félagshyggja. Sýnir það hvað ég veit lítið um þessar "hyggjur".
(Það skal tekið fram að í þessari sömu færslu setti ég fram hugmynd um "breytingu á vaxtabótakerfinu, þar sem vaxtabætur verða þre- til fjórfaldaðar næstu 10 árin eða svo".)
Talsmaður neytenda, Gísli Tryggvason, hafði samband við mig og óskaði eftir leyfi að fá að nota þessa hugmynd í tillögum sem hann ætlaði að senda félagsmálaráðherra nokkrum dögum síðar. Gaf ég honum góðfúslegt leyfi til þess. Auk þess bað hann mig um að vera tilbúinn, því hann átti von á því að félagsmálaráðherra myndi óska eftir fundi. Þetta var 1. október. Tillögur Gísla fóru inn í ráðuneyti 7. október og voru þær sem hér segir:
Gengi erlendra lána verði fest varanlega í tiltekinni gengisvísitölu sem samrýmist meðallangtímagengi sem neytendur hefðu mátt vænta við lántöku.Þau lán sem um ræðir verði tekin inn í Íbúðalánasjóð sem samkvæmt heimild muni lækka þau til samræmis við það gengi sem var þegar lánið var tekið, sbr. ummæli viðskiptaráðherra á www.dv.is þann morgun.Gengistryggð lán verði yfirtekin á tilteknu gengi til bráðabirgða en hinn hluti lánsins frystur þar til betur árar.Greiðslubyrði lána verði fastsett tímabundið í tiltekinni krónutölu miðað við ákveðna gengisvísitölu.
Það er lítill vandi og líklega skynsamlegt að annað hvort tengja gengisvísitöluna á einhvern hátt við vísitöluneysluverðs eða klippa af vísitöluuppfærslu verðtryggðra lána.
Þar sem mér fannst Gísli ekki útfæra tillögu mína nægilega vel, þá setti ég mína útfærslu fram í bloggi 9. október. Þar segir:
Í fullri lengd (en þó ekki að fullu útfærð) þá gengur tillaga mín út á eftirfarandi:
Íbúðalánasjóður yfirtekur lán að fullu hjá banka, sparisjóði eða lífeyrissjóði samkvæmt nánari ákvörðun ríkisstjórnar.Fundið er viðmiðunargengi/vísitala, sem láni er stillt í, fyrir lántakanda að greiða.Upphæð sem verður afgangs er sett til hliðar og geymd.Lántakandi greiðir af sínum hluta lánsins eins og áður og tekur þaðan í frá á sig vísitölu- eða gengishækkanir eða nýtur vísitölu- eða gengislækkana.Verði annað hvort mjög mikil styrking á krónunni/verðhjöðnun eða mikil kaupmáttaraukning, þá tekur lántakandi á sig stærri hluta lánsins.Stofnaður verði sjóður sem renna í einhverjir X milljarðar á ári, t.d. af fjármagnstekjuskatti eða söluandvirði bankanna þegar þeir verða seldir, og hann notaður til að afskrifa þann hluta lánanna sem er geymdur.Auðvitað er þetta ekkert annað en niðurfærsla höfuðstóls, en þó með þeim formerkjum að ekki er um endanlega niðurfærslu að ræða.
Í færslu 4. nóvember skýri ég mína hugmynd svo nánar:
Verðtryggðalán eru stillt af þannig að höfuðstóllinn þeirra er færður í það horf sem hann var þegar vísitalaneysluverðs var 281,8, sem er vísitalan um síðustu áramót. Þessum höfuðstól er haldið óbreyttum þar til verðbólga milli mánaða er komin niður fyrir efri vikmörk Seðlabankans, en við það hefst aftur tenging höfuðstólsins við vísitöluna.
Gengistryggð lán eru stillt af þannig að höfuðstóll þeirra sé miðaður við gengi um síðustu áramót. Það má annað hvort gera með því að færa lánið yfir í íslenska mynt á þessu gengi og láta lánið eftir það breytast eins og um innlent lán sé að ræða eða með því að færa niður höfuðstól lánsins sem því nemur. Verði farin sú leið að færa lánið yfir í íslenskar krónur, þá byrjar lánið strax að breytast í samræmi við skilmála nýs láns. Verði farin sú leið að halda gengistengingunni, þá helst lánið í áramótagenginu, þar til nýtt ásættanlegt og fyrirfram ákveðið jafnvægi er komið á krónuna. Þar sem algjörlega er óvíst hvert jafnvægisgengi krónunnar er, þá gæti þurft að endurskoða endanlega stöðu höfuðstóls þegar því jafnvægi er náð.
Sá hluti höfuðsstólsins, sem settur var til hliðar vegna þessa, er settur á sérstakan "afskriftarreikning". Þessi reikningur getur lækkað með þrennu móti: 1. a) Verðtryggt lán: Ef breyting á vísitölu neysluverð fer niður fyrir verðbólguviðmið Seðlabankans, þá greiðir skuldarinn hærra hlutfall af skuldinni. 1. b) Gengistryggt lán: Ef gengisvísitala fer niður fyrir ákveðið gildi, þá lækkar höfuðstólsgreiðslan ekki, en skuldarinn greiðir í staðinn hærri hluta skuldarinnar. 2. Stofnaður er sérstakur afskriftarsjóður sem greiðir árlega niður lán á "afskriftarreikninginum". Afskriftarsjóður hefur tekjur sínar af hagnaði ríkisbankanna, fjármagnstekjuskatti lögaðila og söluandvirði eins eða fleiri af ríkisbönkunum, þegar bankarnir verða seldir aftur. 3. Við fyrstu sölu eignar rennur ákveðinn hluti andvirðis húsnæðisins í afskriftarsjóðinn.
Auðvitað þarfnast þetta allt nánari útfærslu, en markmiðið er að vera með sanngjarnar reglur.
Ég held ennþá að þetta sé ein af fáu raunhæfu leiðum út úr þeirri klemmu sem við erum í. Auðvitað þarf að skoða útfærsluna nánar og brjóta hana frekar upp. Forsendur breytast algjörlega, ef dómstólar komast að því að gengisbundin lán eru ólögleg eða að forsendubrestur hafi orðið varðandi verðtryggðu lánin. Spurningin sem lánveitendur hljóta að vilja spyrja sig er: Hvort er betra að bíða eftir dómsniðurstöðu og tapa málinu hugsanlega eða að setjast niður með lántakendum og finna lausn á þessu?
Í þeirri fræðigrein, sem ég lagði stund á, þ.e. aðgerðarannsóknir, þá er tekið á þessu í undirgrein sem heitir leikjafræði (Game Theory). Klassískt dæmi í henni heitir Valklemma fangans (Prisoner's Dilemma). Hún gengur út á að tveir fangar eru í yfirheyrslu. Báðir frömdu glæp en lögreglu gengur illa að fá fram játningu. Hún heldur þeim aðskildum og býður hvorum um sig sama samninginn: Greina frá staðreyndum og sleppa með vægari dóm eða taka sjensinn á að hinn kjafti frá og fá þá þyngri dóm. Það eru tveir möguleikar í viðbót. Annar er að báðir kjafti og fá þeir sama þunga dóminn eða að hvorugur kjafti, þá geta þeir hugsanlega sloppið. Hvað á hvor fangi um sig að gera?
Ef við stillum stöðu bankanna upp í slíkt líkan, þá eru bankarnir öðru megin en dómstólar hinum megin. Dómstólamegin eru tveir kostir dæmt er með eða á móti bönkunum. Bankamegin eru tveir kostir, að semja eða ekki. Versta niðurstaðan fyrir bankana er að þeir semji ekki og dómstólar dæmi þeim í óhag. Besta niðurstaðan er að semja ekki og dómstólar dæmi þeim í hag. Hinir kostirnir liggja á milli. Þó er ljóst að verði samið, þá þarf ekki dóm, en það er samt hægt að gera tölulegan samanburð. Í leikjafræði byggir lausnin á að finna það sem er kallað besta versta lausn. Þá er kostnaðurinn við allar leiðir reiknaður út og tekin sú sem gefur bestu útkomu, ef mótaðilinn velur verstu útkomu. Í þessu tilfelli er verra valið sem dómstólar geta tekið, er að dæma bönkunum í óhag. Betri kosturinn fyrir bankana í því tilfelli er líklegast að semja. Leikjafræðin segir því að bankarnir tapi minna á því að semja strax! Síðan má einnig setja þetta upp í ákvörðunartré og meta líkur á að hvert atvik eigi sér stað. Ég stilli því kannski upp síðar.
Í athugasemd bætti ég við:
Við höfum tvær leiðir:
A. Sú leið sem við erum á. Þ.e. leið samdráttar, minnkandi einkaneyslu, atvinnuleysis, minnkandi tekna ríkissjóðs og fjöldagjaldþrota. Ástæðan fyrir þessu er að sífellt stærri hluti tekna heimilanna og atvinnulífsins fara í fjármagnskostnað og afborganir lána sem eru komin út úr öllu samhengi við þær forsendur sem menn skrifuðu upp á þegar lánin voru tekin. Þessi leið endar með þjóðargjaldþroti á haustmánuðum, ef ekki fyrr.
B. Leið aukinnar neyslu heimilanna, veltu aukningu hjá atvinnulífinu, meiri atvinnu, hærri skatttekna. Við getum valið að fara þessa leið, en þá verður að leggja til hliðar alla þá hækkun sem hefur orðið á höfuðstóli lán heimila og framleiðslu- og þjónustufyrirtækja sem orðið hefur frá áramótum 2008. Það verður líka að lækka vextir um 1/2 - 2/3. Stýrivextir verða að fara niður fyrir 5%. Við höfum u.þ.b. 1 mánuð til að gera það, því eftir það er ég hræddur um að ekki verði aftur snúið (point of no return eins og það heitir).