Yfirgengileg harka í innheimtu - Búið að finna leið framhjá banni við vanskilagjaldi

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 8.5.2009.

Ég get ekki orða bundist.  Inn um lúguna rann innheimtubréf frá símafyrirtæki í eigu landsmanna í gegnum ríkið sem á það í gegnum ónefndan banka.  Efni innheimtubréfsins eru vanskil á símreikningi sem var á eindag 2. maí.  Eins og alþjóð veit, þá eru laun almennt borguð út fyrsta virka dag mánaðar, þó í þessu tilfelli hafi þau líklegast komið síðasta virka dag apríl.  Daginn eftir var 1. maí, þ.e. frídagur og síðan voru 2. og 3. maí helgi.  5. maí hefur bankinn greinilega tekið út lista yfir þá sem ekki voru búnir að greiða og í snatri hent út innheimtubréfi og þar með var hægt að leggja á 590 kr. innheimtugjaldi.  (Tekið skal fram að krafan var greidd 5. maí ásamt smávægilegum dráttarvöxtum enda upphæðin ekki há.)

Mér finnst þetta með ólíkindum.  Á öðrum virkum degi eftir eindaga er 590 kr. bætt ofan á skuld með gjaldi sem heitir "innheimtugjald".  Það má nefnilega ekki lengur leggja á vanskilagjald samkvæmt nýjum innheimtulögum!  Hvað gengur mönnum eiginlega til?  Þurfa menn alltaf að finna leiðir framhjá lögunum í staðinn fyrir að sætta sig bara við að það eru komin lög sem banna þetta.

En þar með er ekki öll sagan sögð.  Lögfræðideild bankans hefur greinilega verið fengin til að semja þennan mergjaða texta:

Vinsamlegast greiðið sem fyrst til að forðast frekari innheimtuaðgerðir sem geta haft aukinn kostnað í för með sér.  (Með tilvísun í innheimtulög er vakin athygli á að vanskil geta leitt til innheimtuaðgerða á grundvelli réttarfarslaga.)

Að 10 dögum liðnum frá dagsetningu þessarar innheimtuviðvörunar getur greiðandi átt von á því að krafan til ...

Að liðnum 30 dögum frá dagsetningu þessarar innheimtuviðvörunar getur greiðandi átt von á því að kröfuhafi synji greiðanda um alla þjónustu, þar með talið talsímaþjónustu, þar til krafan er að fullu greidd.

Ég get ekki annað en furðað mig á þessari hörku bankans í þessu máli.  Nú segir einhver að þetta sé símafyrirtækið, en svo er ekki ef dæma má af reynslunni.  Þessi reikningur hefur gleymst áður og þá kom ekki ítrekun fyrr en eftir rúma 30 daga.  Henni fylgdi ekki hótun sem þessi heldur eingöngu tilmæli um að koma reikningnum í skil.  Og þar var ekkert talað um að loka fyrir viðskipti, enda hefur fallið dómur (mig minnir í Hæstarétti) þar sem veitufyrirtæki dæmt í órétti fyrir að hafa lokað fyrir viðskipti eftir að viðskiptaskuld fór í vanskil.  Í dómnum var tekið fram (og nú er ég ekki að hafa orðrétt eftir) að veitufyrirtækinu væri fullnægjandi að fá greidda dráttarvexti fyrir drátt á greiðslu, það væri of harkaleg aðgerð að loka fyrir viðskiptin.

Ég held að kröfuhafar séu engu bættari með svona hörku.  Ég veit aftur af hverju þetta er gert.  Þannig eru nefnilega mál með vexti að ný innheimtulög tóku gildi um áramótin.  Þeim var ætlað að slá á ofurháa innheimtukostnað sem fellur á skuldir án þess að nokkur vinna sé að baki.  Fyrsta skref var að gera sjálfvirkt vanskilagjald útlægt.  Nú er sem sagt búið að finna lausn á því.  Svona innheimtuaðvörun gefur kröfuhafa nefnilega rétt á því að leggja gjald á reikninginn.  Það heitir ekki vanskilagjald heldur "innheimtuviðvörun".  Hvað ætli það bankinn hafi borgað þeim sem fann þetta orð upp?  Í mínum huga er þetta ekkert annað en gróft brot á nýju innheimtulögunum.  Til dæmis þætti mér vænt um að sjá þá útreikninga, sem sýna að kostnaðurinn við innheimtuviðvörunina hafi verið 590 kr., sem fyrir algjöra tilviljun er nokkurn veginn sama upphæð og var á vanskilagjaldinu.

En það er ekki bara verið að fara framhjá vanskilagjaldinu.  Í lögum nr. 23/2009 var gerð breyting á lögum nr. 90/1989 um aðför, þar sem aðfararfrestur var lengdur úr 15 dögum í 40 daga.  Þessi innheimtuviðvörun er greinilega tilraun til að komast framhjá þessu ákvæði.  Það hefur verið venja í mörg ár, að kröfur séu ekki sendar til innheimtu fyrr en eftir 30 - 60 daga vanskil, þess vegna 90 daga.  Aðfararfresturinn hefur því lagst ofan á tíma innheimtuaðgerða. Með því að stytta þennan frest niður í 10 daga, er jafnframt verið að flýta öllum öðrum dagsetningum í ferlinu.  Í reynd þá styttist tíminn frá vanskilum og þar til aðför er gerð í staðinn að lengjast um 25 daga, eins og var vilji löggjafans.

Ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta með ólíkindum ósvífni.  Þjóðinni blæðir vegna gjörða bankans (hins gamla).  Sett eru lög til að slaka á innheimtukostnaði og innheimtuaðgerðum og hvað gerist.  Menn forherðast í vitleysunni.  Ég held að bankinn ætti að fara í djúpa naflaskoðun.  Innhverf íhugun í anda David Lynch gæti líka gagnast.  Bankinn ætti að skoða hvort honum finnst mikilvægara að koma fram af slíkri hörku við landsmenn á sama tíma og þeir eru að taka á sig gríðarlega hækkun lána og djúpa efnahagslega kreppu af hans völdum og hinna bankanna tveggja.  Ég skora á viðskiptaráðherra að taka fyrir þetta ekki seinna en strax.

Ég velti því fyrir mér hvað bankanum eða símafyrirtækinu þætti um að vera hótað innheimtuaðgerðum á öðrum virkum degi eftir eindaga og hvort þessi fyrirtæki hefðu hirt um að greiða "innheimtuviðvörunargjald".  Ég get alveg gert mér í hugalund að margir hefðu getað orðið ríkir, ef þessir aðilar (bankinn og símafyrirtækið) hefðu greitt dráttarvexti á allar viðskiptaskuldir sínar sem voru komnar fram yfir eindaga.  Þykist ég vita að þessi fyrirtæki hafi hagað sér eins og ríkið.  Ekki er borgað fyrr en kröfuhafi fer að ókyrrast og ýtir eftir greiðslu.