Hvað felst í aðgerðum/ greiðsluvandaúrræðum? - 29 atriði skoðuð

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.5.2009.

(Varúð, þetta er löng grein.  Í henni er m.a. farið yfir þau úrræði sem tvær ríkisstjórnir hafa gripið til vegna erfiðrar stöðu heimilanna.  Neðst í henni er hugsanlegt skúbb.)

Haft er eftir Hrannari B. Arnarsyni í Morgunblaðinu:

Greiðslubyrði lána fólks sem fer í gegnum þessar aðgerðir ætti í flestum tilvikum að verða svipuð eða jafnvel minni en fyrir bankahrunið síðastliðið haust. Þeir sem réðu við greiðslubyrðina þá ættu því að ráða við hana eftir þessar aðgerðir. Hafi tekjur hins vegar breyst mikið horfa málin öðruvísi við og þá gæti fleira þurft að koma til, þar á meðal hugsanlega greiðsluaðlögun.

Það getur vel verið að svo sé, en í orðum Hrannars kemur fram þessi ótrúlegi misskilningur að allt hafi verið í góðum málum í lok september.  Svo var alls ekki.  Hér var allt í rúst.  Verðbólgan var komin í 14,6% í ágúst og hún fór hæst í 17,9%.  Gengisvísitalan hafði hækkað um  63% frá áramótum til loka september (úr 120,5 stigum í 196,7 stig).  Frá hruni til dagsins í dag er hækkunin rétt um 13%. Hafi það eingöngu verið markmið ríkisstjórnarinnar að færa allt í það horf sem hlutirnir voru í við hrun bankanna, þá er von að þeim finnst nóg gert.  En þá var allt í steik.  Þess vegna hrundu bankarnir.

Íbúðalánasjóður bauð upp á aukin úrræði í ágúst.  Hvers vegna skildi það hafa verið?  Varla vegna þess að allt var í góðum málum?  Sjálfur lagði ég til í færslu 27.8. 2008 að bankarnir gerðu það líka (sjá Bankarnir bjóði upp á frystingu lána).  Ekki var ég að gera það vegna þess að allt var í lukkunnar velstandi.   Ég kom með tillögu í færslunni Fólk þarf leið út úr fjárhagsvandanum um setja hluta af höfuðstóli lána til hliðar 28. september (áður en Glitnir var tekinn yfir).  Varla var það vegna þess að mér fannst allt í fínu lagi.  Þó svo að bankarnir hefðu ekki fallið, þá var virkileg þörf á aðgerðum fyrir heimilin seinni hluta september.  Í bloggfærslunni Ó, vakna þú mín Þyrnirós frá 27.9. sagði ég m.a.:

Fjölmargar fjölskyldur í landinu eru komnar í alvarlega greiðslukreppu.  Afborganir og höfuðstólar lána hafa hækkað um tugi prósenta.

Varla var ég að minnast á þetta vegna þess að allt var í lagi?

Að mínu mati er samt mesti misskilningur í því, að fólki finnist vera nóg að létta greiðslubyrðina og lengja í lánunum.  Fólki finnst það vera óréttlátt og fáránlegt að þurfa taka á sig auknar byrðar vegna þess að stjórnvöld og Seðlabanki Íslands réðu ekki við stjórnun efnahagsmála og leyfðu bönkunum og nokkrum fjárglæframönnum að setja þjóðina á hausinn.  Um það snýst óánægja almennings og þess vegna duga aðgerðir ríkisstjórnarinnar ekki.

En ég vil ekki sína eintómt vanþakklæti yfir þeim aðgerðum sem tvær ríkisstjórnir hafa gripið til frá hruni bankanna. Þessar aðgerðir eru samt ekki nóg, þar sem ekki hefur verið tekið neitt að viti á undanfara bankahrunsins.  Síðan er kannski það sem er alvarlegast, er að fjármálafyrirtækin hafa ýmist ekki farið eftir þeim tilmælum sem tvær ríkisstjórnir hafa beint til þeirra eða ákveðið að finna leiðir framhjá þeim.

Við skulum skoða til hvaða aðgerða þessar tvær ríkisstjórnir hafa gripið.  Ég er svo sem nú búinn að skoða þetta áður og Morgunblaðið er með ágæta samantekt í sunnudagsblaðinu (sjá mynd), en þar sem ég hef verið beðinn um að fjalla um þetta efni á opnum fundi borgarafundanna á mánudag, þá hef ég verið að skoða málið betur vil greina frá því sem ég hef komist að. 

Byrjum á aðgerðum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar.  Þær voru kynntar 7. nóvember og má m.a. finna á vef Sjálfstæðisflokksins undir Öflugar aðgerðir ríkisstjórnarinnar til að verja stöðu heimilanna:

  1. Sveigjanleiki á vinnumarkaðiTil að sporna við vaxandi atvinnuleysi á að lengja þann tíma sem greiða má tekjutengdar atvinnuleysisbætur.  Ennfremur er gert ráð fyrir að greiðslur úr Ábyrgðarsjóði launa verði miðaðar við tekjur launamanns samkvæmt starfshlutfalli áður en til samdráttar kom. - Hvernig spornar það við atvinnuleysi að borga fólki hærri bætur?  Niðurstaða:  Efast eitthvað um að þetta hafi nokkuð spornað við vaxandi atvinnuleysi.  Gildir fyrir:  Nær til þeirra sem koma nýir á atvinnuleysisbætur.

  2. Komið til móts við námsmenn erlendisFallist hefur verið á tillögu stjórnar LÍN um breytingu á úthlutunarreglum sjóðsins fyrir yfirstandandi skólaár. Boðið verður upp á aukalán. Auðvelda á mönnum að hefja lánshæft nám á næsta ári. - Niðurstaðan af þessari aðgerð var ótrúleg. Mjög fáir námsmenn fengu þetta aukalán og það ekki fyrr en á þessu ári. Niðurstaða:  Þessi aðgerð virðist hafa þróast út í einn stórann brandara.  Gildir fyrir:  Nær til námsmanna erlendis.

  3. Almenn velferð nemenda: Tilmælum beint til skólastjórnenda að huga að almennri velferð nemenda. - Gott og blessað.  Göfug hugmynd.  En hvað lagði ríkið mikið í þetta? Hvaðan eiga skólarnir að fá þessa peninga?  Mér skilst að velunnarar sumra skóla séu farnir að greiða skólamáltíðir fyrir þá verst settu, en ekkert eða því sem næst ekkert hafi komið frá stjórnvöldum. Niðurstaða:  Veit ekki hvort þetta er að virka. Gildir fyrir:  Nær til nemenda í grunn- og framhaldsskólum.

  4. Mildaðar innheimtuaðgerðirÍbúðalánasjóður getur lengt tímann fyrir þá sem lent hafa í greiðsluerfiðleikum. - Pakki Íbúðalánasjóðs vegna greiðsluerfiðleika er líklegast sá besti af þeim sem lagðir hafa verið fram, en mildun innheimtuaðgerða hefði þurft að ná til allra.  Setja þarf lög sem breyta nokkrum grundvallaratriðum (sjá færsluna Yfirgengileg harka í innheimtu..) Niðurstaða:  Hér var engan veginn gengið nógu langt.  Harkan í innheimtuaðgerðum hefur aldrei verið meiri, bæði hjá aðilum í ríkiseigu og öðrum.  Hér þarf að grípa inn í með lögum, því tilmæli virðast ekki duga. Gildir fyrir:  Nær til allar sem skulda ríkinu.

  5. Afborganir myntkörfulána frystar: Tilmælum beint til hinna nýju ríkisbanka að þeir frysti tímabundið vexti og afborganir af myntkörfulánum, þar til eðlileg virkni kemst á gjaldeyrismarkaðinn. - Fín hugmynd sem virðist virka, en leiðir bankanna eru misjafnar.  Þetta hefur bara ekki reynst nóg.  Hvað á að gera ef "eðlileg virkni gjaldeyrismarkaðar" verður með gengisvísitölu í kringum 200 eða 240? Það er því miður víst ekki hægt að miða við gengisvísitölu lengur þar sem Seðlabankinn er hættur að skrá hana.  Niðurstaða:  Hið besta mál, en ennþá vantar framtíðarsýn.  Gildir fyrir:  Er ætlað þeim sem eru með gengisbundin lán.

  6. Breytingar á lánum auðveldaðar: Fella tímabundið niður stimpilgjöld af skilmálabreytingum og skuldbreytingum. - Besta mál, en þetta tók ekki gildi fyrr en seint í desember.  Einnig hefði verið gott að fella niður þinglýsingagjaldið líka.  Niðurstaða:  Gott framtak til að auðvelda skilmálabreytingar lána.  Gildir fyrir:  Nær til allra með veðlán.

  7. Lenging skuldbreytingalána: Nú verður hægt að skulda í 30 ár í stað 15 ára. - Hér er fólki gefinn lengri tími til að greiða niður lán sín, en hvað með vaxtabyrðina.  Niðurstaða: Þetta vissulega nýtist, en hefði verið betra að bjóða upp á önnur úrræði. Gildir fyrir:  Nær til allra með veðlán.

  8. Aukið námsframboð í háskólum og framhaldsskólum: Auka framboð hefðbundins náms og fjölga tækifærum til endurmenntunar. - Gott og blessað, en eru skólarnir tilbúnir að taka við 20 - 30 þúsund nýjum nemendum?  Þeir gera það ekki nema með háum framlögum úr ríkissjóði.  Er ríkið tilbúið að leggja þá peninga til?  Svo er það hitt:  Hvernig á fólk að framfleyta sér meðan það er í námi? Líklegast á að vísa fólki á LÍN, sem eykur á skuldirnar, sem eru nógar fyrir, og námlánin þarf að borga til baka.  Niðurstaða:  Ég á ennþá eftir að sjá þetta úrræði efnt.  Gildir fyrir:  Nær til þeirra sem eru skóla eða ætla í skóla.

Þessi úrræði ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar snúast um að lengja í lánum, bæta við lánum og fjölga þeim sem missa vinnuna. 

Skoðum þá það sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri hreyfingarinnar grænt framboð.  Upplýsingar um það má finna á síðunni Ísland.is undir IV. Aðgerðir í þágu heimila - velferðin varin:

  1. Velferðarvakt sett á fót:  Líklegast best heppnaða leið ríkisstjórnarinnar.  Hún fær stóran plús fyrir þetta.  Niðurstaða:  Gott framtak. 

  2. Greiðslujöfnunarvísitala/greiðslujöfnun verðtryggðra lána:  Hún var sett á og hefur vissulega tímabundin áhrif til að létta mánaðarlegri greiðslubyrði af heimilunum.  Vandinn við þetta er að það tekur lengri tíma að greiða lánin og því mun heildargreiðslubyrði lánanna þyngjast.  Þegar upp er staðið mun fólk greiða hærri upphæð vegna lánanna sinna, en samkvæmt gamla kerfinu.  Niðurstaða:  Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.  Gildir fyrir:  Tekur til þeirra sem eru með verðtryggð lán.

  3. Fjölgun úrræða Íbúðarlánasjóðs (ÍLS):  Þetta er hið besta mál, en aftur er verið að líta til þess að lengja í lánum sem að lokum gerir það að verkum að fólk borgar meira.  Niðurstaða:  Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.  Gildir fyrir:  Lántakendur hjá ÍLS geta nýtt sér úrræðin í samræmi við stöðu sína.

  4. Leigumarkaður ÍLS:  ÍLS má leigja fólki húsnæði sem það missir.  Væri ekki miklu nær að afskrifa strax nægilega mikið af skuldunum, til þess að fólk hafi efni á að greiða af afganginum? ÍLS hlýtur að vera með eitthvað viðmið varðandi leigugreiðslu.  Ef það er nóg fyrir ÍLS að fá þá upphæð upp í kostnað sinn, er þá ekki einfaldast að stilla höfuðstól lánanna þannig að árleg leigugreiðsla jafngildi árlegri afborgun og vöxtum lána og öðrum föstum kostnaði vegna húsnæðisins, sem annars mun falla á ÍLS.  Niðurstaða:  Rangur kostur valinn.  Gildir fyrir:  Þeir sem misst hafa íbúð sína til ÍLS geta óskað eftir þessu.

  5. Fellt úr gildi að skuldajafna megi barnabótum og vaxtabótum:  Bara hið besta mál.  Niðurstaða: Gott framtak, en vegur ekki þungt, þar sem skuldirnar verða ennþá til innheimtu.  (Skilst að fólk þurfi að óska eftir þessu miðað við ábendingar sem mér hafa borist.) Gildir fyrir:  Nær til allra.  Hugsanlega þarf að óska eftir þessu.

  6. Tímabundin heimild til niðurfellingar dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda:  Líklegast sú aðgerð sem gæti nýst fólki sem komið er í alvarleg vanskil hvað best af þeim aðgerðum sem hér er rætt um.  Spurningin er:  Hve lengi er "tímabundið"?  Einnig væri frábært, ef þetta ákvæði næði til fleiri kröfuhafa en bara hins opinbera.  Síðan væri ennþá betra, ef opinberir aðilar færu eftir þessu, hafi það verið ætlunin að þetta næði til þeirra á annað borð.  Niðurstaða:  Hið besta mál, en ekki nógu víðtækt.  Gildir fyrir:  Nær til krafna innheimtumanna ríkissjóðs.

  7. Dráttarvextir lækkaðir:  Gott mál, en þeir eru ennþá við okurmörk og það eru yfirdráttarvextir líka.  Hvers vegna í ósköpunum eru dráttarvextir 24% á sama tíma og verðbólga er 0,5%?  Niðurstaða:  Jákvætt skref, en með þessu áframhaldi komast þeir í viðundandi horf um aldamót.  Gildir fyrir:  Nær til allra dráttarvaxta.

  8. Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar:  Reglugerðin kom til framkvæmda um áramót um leið og ný innheimtulög tóku gildi.  Ég vil spyrja að leikslokum varðandi þetta.  Eða eins og segir:  Dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni.  Niðurstaða:  Hugmyndin er góð, en í ljós hefur komið að fyrirtæki eru búin að finna leið framhjá þessu.  Gildir fyrir:  Nær til allra innheimtukrafna.

  9. Endurgreiðsla vörugjalda og VSK af bifreiðum:  Þetta er nú varla aðgerð sem kemur heimilunum vel.  Hún hefði betur verið í flokknum með aðgerðum fyrir fyrirtækin.  Niðurstaða:  Hefur óveruleg áhrif fyrir heimilin.  Gildir fyrir:  Nær til þeirra sem selja bíla úr landi.

  10. Frysting gengisbundinna lána:  Sama aðgerð og nr. 5 úr aðgerðalista fyrri ríkisstjórnar.  Niðurstaða:  Hið besta mál, en ennþá vantar framtíðarsýn.  Gildir fyrir:  Nær til allra með gengisbundin lán.

  11. Greiðslujöfnun gengisbundinna lána: Þetta kom til framkvæmda 5 mínútum fyrir kosningar.  Íslandsbanki var byrjaður eitthvað fyrr og uppskar mikla gagnrýni fyrir að flýta sér of mikið. Ólíkt öðrum aðgerðum, þá getur þetta leitt af sér lægri heildargreiðslubyrði, þar sem styrking krónunnar skilar sér á seinni gjalddögum.  Niðurstaða:  Hið besta mál.  Gildir fyrir:  Nær til allra með gengisbundin lán.

  12. Hækkun vaxtabóta: Vaxtabætur voru hækkaðar um allt að 30% hjá tekjulágum og um allt að 500% hjá fólki í næsta tekjuhópi fyrir ofan.  (Ég veit ekki hvernig Morgunblaðið fær 66% út.)  Peningurinn sem notaður er í þetta er fenginn af skatttekjum af útgreiddum séreignasparnaði (sjá næsta lið).  Niðurstaða:  Hið besta mál, en nær hefði verið að fjórfalda vaxtabæturnar.  Sjá einnig næsta lið.  Gildir fyrir:  Nær til þeirra sem voru með vaxtagjöld á síðasta ári vegna húsnæðislána og tekjur heimilisins voru upp að 12 milljónum.

  13. Útgreiðsla séreignasparnaðar: Þetta var vissulega gert, en tæp 40% fóru í skatta sem notaðir voru til að hækka vaxtabætur.  Mun betri lausn hefði verið að leyfa fólki að taka út séreignasparnaðinn skattfrjálst og sleppa hækkun vaxtabótanna.  Þá hefðu mun fleiri nýtt sér þennan möguleika.  Ríkið hefði vissulega tapað einhverjum skatttekjum, en sparað sér á móti hækkun vaxtabótanna.  Niðurstaða:  Röng útfærsla notuð.  Gildir fyrir:  Alla sem eiga séreignasparnað

  14. Bankar og sparisjóðir bjóða sömu greiðsluvandaúrræði og Íbúðalánasjóður: Þetta kom til framkvæmda daginn fyrir kosningar. Ég hvatti til þess í ágúst að þetta yrði gert. Í ágúst og jafnvel október hefði þetta nýst mjög stórum hópi sem hafa tapað stórum upphæðum vegna þessara tafa. Síðustu daga hef ég svo komist að því að bankarnir eru ekki tilbúnir sem þessi úrræði.  Annars er mjög gagnlegt að hafa það á hreinu hvað bankarnir hafa lofað að gera og sést það fyrir neðan.  Niðurstaða:  Þessi úrræði eru góðra gjalda verð.  Sum munu lækka heildargreiðslu og önnur gefa fólki svigrúm án þess að lækka heildargreiðslu.  Ekkert af þessu eru varanleg úrræði.  

    1. Samningar um uppgjör vanskila: Unnt verður að semja um dreifingu á vanskilum í allt að 18 mánuði.  Gildir fyrir:  Nær til allra í vanskilum.

    2. Heimildir til greiðslufrestunar vegna sölutregðu: Með frystingu greiðslna verður komið til móts við lántakendur sem hafa keypt fasteign, en ekki getað selt fyrri eign vegna aðstæðna á fasteignamarkaði.  Gildir fyrir:  Nær til allra sem eru í þeim sporum að geta ekki selt og eru annað hvort búnir að kaupa eða eru að byggja.

    3. Skuldbreyting vanskila: Boðið verði upp á skuldbreytingu vanskila með því að bæta þeim við höfuðstól eða með því að gefa út nýtt skuldabréf eftir ákvörðun kröfuhafa.  Gildir fyrir:  Nær til allra í vanskilum.

    4. Frestun á greiðslum: Lántakandi getur óskað eftir frestun á greiðslu afborgana, að hluta eða fullu, og vaxta og verðbóta eftir atvikum, í allt að eitt ár í senn og með möguleika á framlengingu í samtals þrjú ár.  Gildir fyrir:  Nær til allra.

    5. Lenging  lánstíma: Mögulegt verður að lengja lánstíma lána að því marki sem það getur gagnast lántakanda enda rúmist lenging lánstíma innan lánareglna viðkomandi lánveitanda.  Gildir fyrir:  Nær til allra.

  15. Greiðsluaðlögun samningskrafna: - Gildir bara fyrir suma, þ.e. er ekki fyrir einyrkja og aðra sem bera ábyrgð á atvinnurekstri.  Staða umsjónarmanns í þessu ferli virkar svona eins og "stóri bróðir". Niðurstaða:  Ákaflega takmörkuð aðgerð.  Gildir fyrir:  Gildir ekki fyrir þá sem undanfarin þrjú ár á undan hafa borið ábyrgð á atvinnurekstri.

  16. Frestun nauðungaruppboða fram til loka október:  Var ein af fyrstu kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur féllst á.  Ganga hefði mátt lengra og fresta öllum aðfaramálum líka.  Fólk þarf að óska eftir þessari frestun.  Hún kemur ekki sjálfkrafa.  Niðurstaða:  Hið besta mál.  Vissulega er engu létt af heimilunum og það á eftir að koma í ljós hvort ríkisstjórnin nýti tímann til að koma með varanlega lausn.  Gildir fyrir:  Er fyrir alla, en skuldari þarf að sækja sérstaklega um frest.

  17. Lenging aðfararfresta úr 15 dögum í 40: Eins og ég nefni að ofan, þá hefði verið nær að lengja þennan tíma enn frekar.  Niðurstaða: Besta mál, en í ljós hefur komið að fyrirtæki hafa bara stytt alla aðra fresti til að vinna þennan upp.  Gildir fyrir:  Nær til allra sem lent hafa í slíku máli.

  18. Aukin stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota: Á eftir að sjá þetta í framkvæmd.  Þætti einnig gott að sjá ítarlegri leiðbeiningar í tengslum við nauðungarsölur og meiri réttarvernd fyrir þá sem missa eignir sínar í slíka sölu.  T.d. virðast fulltrúar sýslumann hunsa algjörlega ákvæði laga um að ógilda nauðungarsölur, þegar óraunhæf boð berast í eignir.  Þá er ég að nefna 1 milljón kr. tilboð í einbýlishús.  Niðurstaða: Jákvætt framtak, en hverju á þetta eftir að skila?  Gildir fyrir:  Nær til allra sem eru að fara í gjaldþrotameðferð.

  19. Dregið úr vægi ábyrgðarmanna:  Hér er verið að draga úr vægi ábyrgðarmanns.  Einnig eru sett inn ákvæði sem gera það að verkum að getur í vissum kringumstæðum losnað undan ábyrgð.  Þannig er ekki hægt að ganga að ábyrgðarmanni fyrr en gengið hefur verið að þeim tryggingu sem eru fyrir láni.  Niðurstaða:  Hið besta mál, en eftir er að sjá hver framkvæmdin verður.  Gildir fyrir:  Alla ábyrgðarmenn, þar sem veð er fyrir skuld.

  20. Greiðsluaðlögun veðlána (fasteignaveðkrafna):  Þessi lög taka gildi 15. maí.  Þeim er ætlað að gera skuldurum fært að setja veðkröfur í greiðsluaðlögun.  Takmörk eru sett á stærð húsnæðis og talað um "hóflegt húsnæði". Hver á að meta hvað telst "hóflegt húsnæði" er aftur ekki sagt. Heldur er ekki skilgreint við hvað umsjónarmaður á að miða, þegar hann ákvarðar hvað telst "hæfileg húsaleiga á almennum markaði". Loks hvað þýðir "skuldari hafi svo máli skiptir látið hjá líða að standa í skilum við veðkröfuhafa þótt honum hafi verið það kleift að einhverju leiti eða öllu"? (Ég gæti skrifað langa grein um þessi lög, þar sem í þeim eru svo mörg túlkunaratriði og þau skortir svo víða marktæk viðmið, t.d. "hóflegt húsnæði", "hæfielg húsaleiga", "framfærslukostnaður og önnur eðlileg útgjöld").  Hér hefði verið miklu betra að ákvarða  að 1/3 ráðstöfunartekna færi í greiðslu lána sem falla undir greiðsluaðlögun og skuldari hefði annað til ráðstöfunar upp að einhverju skynsamlegu marki miðað við fjölskyldustærð. Niðurstaða: Besta mál, en betra hefði verið að hafa ein lög um greiðsluaðlögun í stað þess að fjallað sé um hana í tvennum lögum.  Ýmislegt er óskýrt og því gæti orðið mikið ósamræmi í framkvæmd laganna.  Gildir fyrir:  Nær til allra með "hóflegt húsnæði miðað við fjölskyldustærð", sem ekki ráða við greiðslubyrðina, hafa ekki "hagað  gerðum sínum svo sem raun varð á með ráðnum hug m að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna" (þ.e. ef fólk fer í greiðsluverkfall, þá fær það ekki greiðsluaðlögun), hagað sér glæfralega í fjármálum (þannig að allir með stóru bílana, hjólhýsin, sumarbústaðina, vélsleðana, fjórhjólin o.s.frv. fá hugsanlega ekki greiðsluaðlögun), voru í reynd ófærir frá upphafi að standa í skilum (þ.e. þeir sem beittu blekkingum eða var hleypt í gegnum greiðslumat án þess að uppfylla kröfur).

  21. Lánareglur LÍN aðlagaðar:  Aðlaga á lánareglur LÍN breyttu efnahagsumhverfi þannig að atvinnulausir geti byggt upp þekkingu sína og færni með því að stunda lánshæft nám í stað þess að þiggja atvinnuleysisbætur.  Niðurstaða:  Það er ekki komin niðurstaða í þetta, ef marka má vefinn Island.is.  Gildir fyrir:  Atvinnulausa sem hyggja byggja upp "þekkingu sína og færni".

Hér hef ég nefnt 29 úrræði sem tvær ríkisstjórnir hafa gripið til á um 6 mánuðum til að koma til móts við heimili í greiðsluerfiðleikum.  Nokkur þessara úrræða munu hafa fjárhagslegan sparnað fyrir heimilin, einhver munu hafa fjárhagslegan ávinning umfram það að þau væru ekki til staðar, en flest gera ekkert annað en að festa í sessi eða auka við það fjárhagslega tjón heimilanna, sem þau hafa þurft að taka á sig undanfarna rúmlega 14 mánuði.  Í þessum úrræðum er ekkert sem

  • bætir atvinnuástandið eða er hin minnsta tilraun til að verja störf fólks. 

  • miðar að því að örva fasteignamarkaðinn. 

  • leitar við að jafna ábyrgð á hækkun lána milli lántakenda og lánveitenda

  • er hin minnsta tilraun til að leiðrétta það misgengi sem hér varð

Nú skilst mér að eitthvað mikið standi til á morgun (sunnudag).  Mínar heimildir greina frá svo stórtækum aðgerðum að ég á bágt með að trúa því.  Ef þetta verður að veruleika, þá er óhætt að segja að jólin hafi komið snemma í ár.  Það sem ég segi hér er því birt með fyrirvara um áreiðanleika heimildarinnar.

  • Gengisbundnum lánum verði breytt í almenn verðtryggð krónulán og öll lán verða færð aftur til stöðunnar eins og hún var 1. janúar 2008.

  • Skipuð verður ópólitísk nefnd, nokkurs konar gerðardómur, sem fari yfir grundvöll allra vísitöluútreikninga, reiknijöfnur sem notaðar eru og hafa verið við útreikning vaxta, verðbóta og uppfærslu höfuðstóls gildandi lánasamninga sem og kanna lögmæti samninga með tilliti til neytendasjónarmiða.

  • Allar aðfarir, svo sem innheimtuferli, fjárnám, nauðungarsölur og gjaldþrotaferli (þ.m.t. greiðsluaðlögun) verði fryst þar til niðurstöður nefndarinnar/gerðardómsins liggja fyrir og hægt verður að endurmeta eftirstöðvar lána til raungildis.

Nú er bara að sjá hvort jólin komi á morgun.



Aðgerðirnar eru taldar duga flestum