Það er til betri leið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.6.2009.

Ég tel mikla annmarka vera á leið Sjálfstæðismanna sem gerir hana ófæra.  Það er hvernig á að halda utan um af hvaða iðgjöldum á að greiða skatt og af hvaða iðgjöldum er ekki búið að greiða skatt.

Ég hef hér á blogginu mínu ýjað að annarri leið og raunar rætt hana við fólk í kringum mig.  Þessi leið felst í því að lækka í 3-4 ár mótframlag launagreiðenda í lífeyrissjóð og hækka tryggingagjald sem því nemur.  Hef ég nefnt að mótframlagið lækki til fyrra horfs, sem var 6% í stað 8% núna (samsvarandi lækkun yrði að verða hjá ríkinu).  Á almenna vinnumarkaðnum þýðir þetta að 1/6 af iðgjöldum 3-4 ára rynni til ríkisins í formi tryggingagjalds í staðinn fyrir að fara í ávöxtun hjá lífeyrissjóðunum.

Mun þetta hafa áhrif á lífeyrisgreiðslur til sjóðfélaga?  Ég efast stórlega um það.  Flestir sjóðfélagar greiða í lífeyrissjóði í 30 ár eða meira.  Gefum okkur að iðgjöld þeirra og mótframlag atvinnurekenda nemi 12% af upphæð launa á hverju ári, þá greitt fyrir hvern og einn 360% af árslaunum.  Við þá aðgerð, sem ég legg til, lækkar þessi upphæð í 352% sem er vissulega ríflega 2% lækkun en ég er sannfærður um að hún skiptir ekki máli.

Mun þetta hafa áhrif á lífeyrissjóðina?  Að sjálfsögðu hefur það áhrif.  Þeir missa 16,6% af iðgjöldum sínum (LSR tapar minna), en ef leið Sjálfstæðisflokksins er farin, þá tapast allt að 35%.  Áhrifin eru því minni á lífeyrissjóðina.  Ég er ekki með á hreinu upphæðina, en miðað við að Lífeyrissjóður verzlunarmanna tók inn eitthvað í kringum 15 milljarða í iðgjöld á síðasta ári (16,6% gerir þá um 2,5 milljarða).  LiVe var síðan með um 16% af öllum eignum lífeyrissjóða um síðustu áramót og ef við gefum okkur að sjóðurinn sé líka með 16% af öllum iðgjöldum, þá verða tekjurnar af þessu rúmlega 15 milljarðar á ári eða 60 milljarðar á 4 árum.  Með því að hækka skerðingu í 3%, þá yrðu tekjurnar 22,5 milljarðar á ári eða 90 milljarðar á 4 árum.

Hér er virðist örugglega einhverjum að deilan snúist um keisarans skegg, þ.e. mín útfærsla og útfærsla sjálfstæðismanna, en svo er ekki. Munurinn á aðferðunum er umtalsverður.  Vissulega leysir aðferð sjálfstæðismanna líka vanda sveitarfélaganna (ef við gefum okkur að þau fái útsvarshlutann til sín), en á móti kemur flókinn útreikningur á því hvernig gera á upp framtíðarskatt á iðgjöld.  Mikil hætta er á því að ómögulegt verði að reikna úr skatt af lífeyristekjum í framtíðinni og því verði einfaldasta leiðin valin, sem er tvísköttun.  Mín aðferð kemur alveg í veg fyrir tvísköttunina.  Aðferð sjálfstæðismanna kalla líka á að þessi aðferð við skattheimtu verði tekin upp um aldur og ævi, þ.e. að ekki verði breytt til fyrra horfs.  Mín aðferð felur svo sem þann möguleika í sér líka, þ.e. að tryggingagjald verði ekki lækkað aftur til fyrra horfs.  Málið er að hér væri að hluta til um kjarasamninga tengda aðgerð, þ.e. að hækka mótframlag launagreiðenda aftur í 8%, meðan aðferð sjálfstæðismanna er skattkerfisaðgerð.

Allt hefur sína kosti og sína galla.  Ég held að þessi hugmynd mín um að flytja hluta af lífeyrismótframlagi launagreiðenda yfir í tryggingagjald, sé einföld og ódýr aðferð sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd.  Hún hefur lítil framtíðaráhrif og skilur ekki eftir möguleikann á tvísköttun.  Ég legg til að hún verði skoðuð betur áður en henni verður ýtt út af borðinu.  Stærsti kosturinn við hana (líkt og tillögu sjálfstæðismanna) er að launafólk verður ekkert vör við hana í útborguðum launum sínum og hún hefur ekki áhrif á vísitölu neysluverðs og þar með fjárskuldbindingar landsmanna.

Ég geri mér grein fyrir að þetta falli ekki í góðan jarðveg hjá öllum, en ég held að þetta sé sársaukalítil aðgerð sem auðvelt er að hrinda í framkvæmd.


Greið leið gegnum vandann en dýrkeypt