Samið var með fyrirvara um samþykki Alþingis

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.8.2009.

Við skulum alveg hafa það á hreinu, að samið var með fyrirvara um samþykki Alþingis.  Undirritun íslenskra ráðmanna/samningamann tekur ekki gildi fyrr en samþykki Alþingis liggur fyrir.  Ekki ganga í þá gildru Breta að búið sé að semja.  Það er vissulega rétt, en var gert með fyrirvara.

Alþingi hefur samkvæmt samningnum síðasta orðið að hálfu Íslands.  Þetta vita viðsemjendur okkar.  Vissulega eru allir fyrirvarar í reynd höfnun á einstökum hlutum samningsins, en þeir þurfa ekki að vera höfnun á þeirri megin hugsun í samningnum að Tryggingasjóður innistæðueigenda sé ætlað að standa við skuldbindingar í samræmi við íslensk lög þar að lútandi og tilskipun ESB.  Það er útfærslan sem er verið að hafna.

Steingrímur J. óttaðist afleiðingar í Kastljósviðtalinu í gær og sagði að skuldbindingarnar falli á Tryggingasjóðinn núna 1. september.  Við skulum hafa í huga, að Landsbankanum hefur, vegna ofbeldis breskra stjórnvalda, ekki verið ennþá gefið færi á að greiða út innistæðurnar.  Bretar geta ekki komið í veg fyrir svo mánuðum skiptir að málið fari í eðlilegt ferli og síðan öskrað stuttu eftir að Landsbankinn öðlast svigrúm til að borga: "Þið eruð ekki búin að borga. Vanskila fólk, vanskila fólk."

Sé uppi ágreiningur í máli og annar aðilinn gerir hinum ókleift að sinna lögboðnu hlutverki sínu, þá um leið breytast allar tímasetningar.  T.d. ef banki á Íslandi er með kröfu á viðskiptavin og kröfunni er vísað til dómstóls vegna ágreinings um réttmæti kröfunnar, þá getur bankinn EKKI skráð viðkomandi á vanskilaskrá Creditinfo eða sambærilegra aðila.  Meðan réttarfarslegur ágreiningur er í meðför dómstóla eða í samningaferli milli deiluaðila, þá er ekki um eiginleg vanskil að ræða.  Það sama á við um þetta ferli.  Bretar frystu eigur Landsbankans.  Það þýddi í reynd að fyrsti kostur, þ.e. að bankinn greiði út innistæðurnar, hefur ekki verið fullreyndur.  Landsbankinn var búinn að vera að greiða út innistæður, þegar eignir hans voru frystar.  Það höfðu verið að fluttir peninga frá Íslandi til Bretlands svo hægt væri greiða út.  Það voru ofbeldisaðgerðir Breta sem komu í veg fyrir að þessu væri framhaldið.  Hvers vegna það gerir samningsstöðu okkar veikari og þeirra sterkari hef ég aldrei geta skilið.  Það ætti að vera öfugt.


„Það er búið að semja!“