Hvað getur verið verra en..

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 9.8.2009.

Það hafa dunið á okkur ýmsar slæmar fréttir á síðustu mánuðum.  Svo ég fari á hundavaði yfir þetta, þá eru þessar helstar:

  • Fall bankanna

  • Greiðsluþrot Seðlabanka Íslands

  • Að því virðist ótrúleg svikamylla í tengslum við viðskipti með hlutabréf í Kaupþingi

  • Afskriftir til elítunnar

  • Sjálftaka eigenda bankanna á hundruðum milljörðum, ef ekki þúsundum

  • Ótrygg útlán til elítunnar upp á hundruð milljarða, ef ekki þúsundir

  • Icesave, Icesavesamningurinn og Icesavehótanir

  • AGS, AGS-samningurinn og AGS hótanir

  • Yfir 40% heimila í reynd gjaldþrota

  • Yfir 30% heimila með neikvætt eigið fé

  • Erlendar skuldir þjóðarinnar, þ.e. þessar sem við komumst ekki hjá að greiða, óbærilegar (líklegast yfir 6.000 milljarðar) og jafngilda þjóðargjaldþroti

  • Svik og prettir einstaklinga og fyrirtækja

  • Uppgjöf og/eða úrræðaleysi þriggja ríkisstjórna

  • Lygar, lygar og aftur lygar stjórnvalda, stjórnmálamanna, embættismanna, bankamanna og fjárfesta

Hvað getur verið svo vont, að það er verra en þetta?  Þó nefndi ég bara örfá áberandi atriði.  Ég hefði líka getað nefnt:

  • Atvinnuleysi

  • Landflótti

  • Aðför að velferðarkerfinu

  • Bandorminn

  • Gríðarlega hækkun lána

  • 216 milljarða halla ríkissjóðs

  • Skattahækkanir

  • Skjaldborgina sem aldrei kom

  • Hroka ráðherra í garð þjóðarinnar

  • Siðrof

  • Skort á iðrun

Ef Páll býður betur, þá hlýtur það að vera verra en vont, verra en afleitt.   En ég vil fá að vita hvað það er sem verra en allt vont.  Svartara en allar svartskýrslur hingað til.  Ég vil fá að vita hvað það er og svo vil ég að menn verði teknir í kippum og dregnir til ábyrgðar.  Líka stjórnmálamenn.  Og ráðherrar fyrrverandi og núverandi.  Páll gefur það í skyn að einhverjir ráðherrar hafi gert slík afglöp að horfa þurfi til ráðherraábyrgðar.  Mér koma strax til hugar Geir, Ingibjörg, Björgvin og Árni, en hugsanlega þarf að fara bæði fram og aftur í tímann.  En þessi fjögur stóðu í eldlínunni í 15 mánuði fyrir hrun bankanna, annað hvort fávís eða lugu að okkur.  Ég veit ekki hvort er verra.  Kannski var betra að þau vissu en gátu ekki sagt sannleikann, en að vita ekki sannleikann.  Bankastjórnendur, eigendur bankanna og sérstaklega starfsmenn greiningadeildanna geta ekki borið fyrir sig fávísi.  Kannski vanhæfi, yfirlæti, sjúklegu sjálföryggi, vanmáttarkennd, en líklegast tóku þessir aðilar bara þátt í sjónarspilinu að blekkja allt og alla.  Sjálfa sig þó mest.  Íslandi var fórnað á altari græðginnar.  Hvers vegna?  Jú, vegna þess að það var hægt.  Það var enginn sem sagði hingað og ekki lengra.  Það var enginn sem vildi hinkra við og skoða málið betur.  Það var enginn sem hafi dug og þor til að stoppa hringekju dauðans.  Það var nefnilega búið að múlbinda alla og líf þeirra valt á því að spila með.  Ef Páll kemur með eitthvað svakalegra en þetta, þá verður það vont og ég vil fá að vita um það.

Verri fréttir en nokkur nefnd hefur þurft að færa