Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 26.4.2009.
Ég skil ekki þessa umræðu um að þjóðin hafi verið að kjósa um ESB. Hafi hún verið að gera það, þá var ESB hafnað! Skoðum niðurstöður kosninganna nánar.
Í töflunni hér fyrir neðan hef ég bætt við einum dálki við þessar hefðbundnu upplýsingar sem hafa verið framreiddar fyrir þjóðina. Ég skoða hver er hlutfallslegur munur á fylginu núna og síðast:
Ef þessar upplýsingar eru skoðaðar, þá sést að Sjálfstæðisflokkurinn tapaði 35,2% af fylginu sínu og Frjálslyndir töpuðu rúmum 69% meðan aðrir flokkar bættu við sig. Samfylkingin bætti við sig 11,2%, Framsókn 26,5% og VG heilum 51,7%. Svo bætir Borgarahreyfingin við sig öllu. Þó við tökum breytingunni í prósentustigum eða atkvæðamagni, þá bæta Framsókn, Borgarahreyfingin og VG við sig meira fylgi en Samfylkingin. Nú get ég ekki annað en velt því fyrir mér hvernig tekst mönnum að túlka þessar niðurstöður sem sigur Samfylkingarinnar! Ég fæ ekki betur séð en að Borgarahreyfingin og VG séu sigurvegarar kosninganna.
Vilji menn túlka niðurstöðurnar þannig að ESB fylgjendur í Sjálfstæðisflokknum hafi farið yfir til Samfylkingarinnar og Framsóknar, þá hafa einhverjir aðrir fylgjendur þeirra flokka farið yfir til VG. 3% kjósenda er bara rétt um 5.600 atkvæði. 12,9% eru 24.146. Hafi stórhluti af þessum 24 þúsund farið í Samfylkinguna, þá hafa 18.500 manns ákveðið að hætta að kjósa Samfylkinguna. (Vissulega koma inn í þetta nýir kjósendur, þannig að þetta er einföldun.) Eigum við þá að túlka að 13.850 fyrrum kjósendur Samfylkingarinnar hafi verið óánægðir með ESB fókus Samfylkingarinnar og ákveðið að kjósa VG? Eða lýstu um 5.000 fyrrum kjósendur Samfylkingarinnar óánægju sína með svikin loforð um skjaldborg um heimilin og ákváðu að kjósa Borgarahreyfinguna og Framsókn?
Það er bull að "kosningasigur" Samfylkingarinnar sé yfirlýsingum um að sækja eigi um ESB-aðild. 70,2% þjóðarinnar kaus flokka sem vildu fara aðra leið en Samfylkingin. Af hverju eru úrslit kosninganna ekki yfirlýsing kjósenda að þeir vilji ekki leið Samfylkingarinnar? 70,2% þjóðarinnar studdi framboð, sem vilja fá upplýsta umræðu um hvað aðildarviðræður þýða og vilja fá að kjósa um viðræðurnar áður en eitthvað annað sé gert. 70,2% þjóðarinnar hafnaði leið Samfylkingarinnar að hefja viðræður eins og beiningarmaður á stétt hjá ríkisbubbanum. 70,2% þjóðarinnar hafnaði aðgerðaleysi Samfylkingarinnar í málefnum heimilanna og atvinnulífsins. 70,2% þjóðarinnar keypti ekki "já, já, nei, nei" atvinnustefnu Samfylkingarinnar sem kom fram í orðum Össurar Skarphéðinssonar á borgarafundi um daginn. 70,2% þjóðarinnar hafnaði Samfylkingunni og það sem hún stendur fyrir. Samfylkingin er vissulega stærsti flokkur landsins. Því er ekki að neita, en flokkurinn er samt með innan við 30% fylgi. Hvenær hefur það tíðkast að 30% myndi þvingaðan meirihluta?
Málið er að margir fjölmiðlamenn eru mjög veikir fyrir ESB-aðild. Það var t.d. furðulegt að hlusta á umræðuna hjá Agli áðan, þar sem ESB-mantran var kyrjuð eins og ekkert annað skipti máli. Staðreyndin er sú, að ESB skiptir engu máli, ef við leysum ekki þau brýnu efni, sem Samfylkingin hefur verið óhæf um að leysa, þ.e. vanda heimilanna og atvinnulífsins. Hættum þessu endalausa blaðri um ESB og snúum okkar að því sem stendur okkur næst. Upphefðin kemur ekki að utan. Lausnirnar koma ekki að utan. Ef við björgum okkur ekki sjálf, þá mun enginn bjarga okkur. Um leið og aðrar þjóðir sjá að við höfum getu, vilja og þor til að takast á við vandamál okkar, þá fyrst munu þær taka okkur alvarlega og hæf til inngöngu í ESB. Við eigum að fara í uppbyggingu samfélagsins með það í huga að uppfylla skilyrði ESB og Maastricht samkomulagsins án tillits til þess hvort við göngum í ESB og tökum upp Evru eða ekki. Það mun alltaf færa okkur fram á við og gera Ísland og það sem íslenskt er samkeppnishæfara í samfélagi þjóða.