Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 27.4.2009.
Ég vil óska Samfylkingunni til hamingju með að hafa steypt landinu í stjórnarkreppu innan við sólarhring eftir að niðurstöður kosninganna voru kunnar. Mér finnst alveg með ólíkindum að flokkurinn ætli að setja ESB-aðild á oddinn, meðan heimilunum og atvinnulífinu blæðir út. Haldi þeim áfram að blæða, þá verður þetta ekki spurning um inngöngu í ESB eða ekki, heldur hvort við verðum hérað í Noregi, Danmörku, Bretlandi, Kanada eða Bandaríkjunum. Síðan ræðst það af því hvaða land hirðir upp leifarnar af íslenska lýðveldinu hvar við endum.
Það er ljóst að hér verður ekkert stjórnhæft stjórnvald meðan stjórnmálamenn rífast um hvort túlka megi niðurstöður kosninganna sem vilja kjósenda um aðildarviðræður eða ekki. Ég legg því til að komið verði á utanþingsstjórn hæfra einstaklinga. Hana má setja á fót í samráði við Alþingi eða án samráðs við það. (Betra að gera það í samráði og með stuðningi þess.) Hér verði því fram að næstu kosningum ópólitískir ráðherrar sem hafa ekki neinn annan starfa, en að sinna þeim brýnu úrlausnarefnum, sem liggja á borðum stjórnvalda. Umræðan um ESB eða ekki verður þá ekki til að trufla vinnu þeirra og alla blaðamannafundi, spjallþætti og viðtöl sem þessir aðilar veita. Stjórnmálamennirnir (lesist Samfylkingin) hafa þá nægan tíma til að velta fyrir sér hvort túlka megi niðurstöður kosninganna á þann hátt sem þeir vilja.
Ástæðan fyrir því að ég legg þetta til er í mínum huga nokkuð augljós. Hér hefur orðið stórslys. Atvinnulífið og heimilin lentu í efnahagslegu hópslysi. Sjúkraliðið sem sent var á vettvang er ekki alveg með á hreinu hvað á að gera. Hluti liðsins segir þetta ekki þeirra vandamál. Þetta gerðist ekki á þeirra vakt. Aðrir hafa meiri áhuga á hátæknisjúkrahúsinu sem til stendur að reisa, enda fullvissri um að nýja tæknin sem kemur með hátæknisjúkrahúsinu bjargi öllu. Aðrir geta ekkert gert vegna þess að stjórnendur hópsins eru að rífast um það hvort byrja eigi á hátæknisjúkrahúsinu strax eða ekki. Menn fara nú ekki að taka fram fyrir hendurnar á yfirmönnum á slysstað. Bráðaliðar hafa þó sett plástra á nokkra af hinum slösuðu, en hvorki losað þá út flaki Íslandsrútunnar, sem allir voru í, né hugað að svöðusárum, beinbrotum, blóðmissi, öndunarfæraerfiðleikum eða höfuðhöggum sem flestir hafa fengið. Nokkrir hafa látist eftir að sjúkraliðið koma á vettvang. Það er vissulega búið að kalla út nokkra sérfræðinga, en þeir eiga að rannsaka hvernig slysið vildi til.
Heimilunum og atvinnulífinu mun blæða út á næstu dögum, vikum eða mánuðum nema hendur verða látnar standa fram úr ermum. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar gerði næstum ekki neitt fyrir þessa aðila. Sama gilti um ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna. Þjóðin hefur ekki efni á að bíða lengur. Hún hefur ekki efni á því að dýrmætur tími fari í þjark stjórnmálamanna og fjölmiðla um að það hvort túlka beri niðurstöður kosninganna á einn eða annan hátt varðandi vilja þjóðarinnar til ESB. Við þurfum stjórn sem getur unnið óháð slíku dægurþrasi. Utanþingsstjórn er eina lausnin.
Hugsanlega næst sama niðurstaða með því að mynda stjórn án Samfylkingarinnar, en ESB umræðan mun samt taka upp allan tíma þjóðkjörinna fulltrúa. Ég verð að viðurkenna, að ég er búinn að fá nóg eftir einn dag.
Það má ekki túlka orð mín þannig að ég sé á móti ESB-aðild. Það bara hefur allt sinn tíma. Síðustu tvær ríkisstjórnir hafa því miður sannfært mig um að stjórnvöld ráða ekki við að hugsa nema um eitt mál í einu. Núna þurfum við að leysa efnahagsvandann og þess vegna þarf ESB-umræðan að bíða betri tíma.