Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.4.2009.
Merkileg getur hún verið tölfræðin. Þarna er reiknaður út ávinningur af 3% lækkun vaxta og gefið í skyn að þessi ávinningur komi bara, ef gengið er í ESB. Ég get alveg fullyrt að ef vextir lækka um 10% án ESB-aðildar, þá verði ávinningurinn mun meiri. Ég get líka fullyrt að ef vextir lækka um 15% með því að ganga í NAFTA, þá verði ávinningurinn alveg ótrúlega mikill.
Að tengja ávinning af 3% vaxtalækkun við ESB-aðild er hlægileg og lýsir rökþroti mann. Ávinningurinn er líklegast hinn sami hvað svo sem annað er gert. Spurningin sem menn hefðu átt að svara er frekar hvort líkurnar á vaxtalækkun aukist með ESB-aðild.
Glæpsamleg vaxtastefna Seðlabanka Íslands og ríkissjóðs er grunnurinn að vanda íslenska hagkerfisins. Það var þessi vaxtastefna Seðlabankans sem varð þess valdandi að krónan styrktist umfram það sem gat talið eðlilegt. Þar af leiðandi óx kaupmáttur Íslendinga í útlöndum meira en hagkerfið stóð undir. Það var þessi vaxtastefna Seðlabankans og ríkissjóðs sem bauð upp á vaxtaskiptasamninga og að erlendir aðilar leituðu hingað til að fá háa ávöxtun. Og ennþá er þessi glæpsamlega vaxtastefna að vinna gegn uppbyggingu í þjóðfélaginu.
Raunstýrivextir eru um þessar mundir yfir 16%! og hafa þeir aldrei verið hærri í Íslandssögunni. Meðan öll lönd í kringum okkur eru með neikvæða raunstýrivexti, þá er Seðlabankinn haldinn sjálfeyðingarhvöt fyrir hönd íslensku þjóðarinnar. Þessi raunstýrivextir eru hengingaról atvinnulífsins, heimilanna og sveitarfélaga í landinu. Verði þessu ekki breytt STRAX, þá verður hér engu að bjarga. Það verður ekkert hér eftir til að ganga í ESB, þar sem það verður búið að innlima landið í eitthvert af nágrannaríkjum okkar.
Bara til að svara strax þeim sem líklegir eru til að snúa út úr orðum mínum, þá fjallar þessi færsla ekki um ESB-aðild eða ekki. Hún fjallar um furðulega tengingu orsaka og afleiðinga.