Hvaða stöðugleiki er mikilvægur?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.9.2009.

Já, hvaða stöðugleiki er mikilvægastur?  Maður getur ekki annað en spurt sig þessarar spurningar eftir að niðurstaða peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands er ljós.  Ekki það að ákvörðunin komi á óvart, þar sem forsendur fyrri ákvarðana um vaxtastig hafa ekkert breyst.

En svo ég svari spurningunni, þá sýnist mér að sá stöðugleiki sem sé mikilvægastur sé stöðugleiki stöðnunar, hárra vaxta og lágs atvinnustigs.  Ef menn eru að verja krónuna, þá hefur það greinilega mistekist, þar sem vaxtastig SÍ hefur lítið gert til að hjálpa krónunni til að endurheimta styrk.  Vissulega vitum við ekki hvort krónan væri veikari, ef vextirnir væru lægri, en hátt vaxtastig er ígildi veikari krónu.  Þurfi atvinnulífið og heimilin að greiða 5-7% of háa vexti, þá er það alveg jafnslæmt, ef ekki verra en að krónan væri þessum prósentum veikari.  Einnig má færa sterk rök fyrir því að háir stýrivextir gefi til kynna að trú SÍ á efnahagsumbótum hér á landi sé lítil.  En þá á móti hvernig eiga umbæturnar að eiga sér stað, ef SÍ þrengir sífellt svigrúmið til umbóta með vaxtastefnu sinni.

Ég hef áður nefnt að mér finnst rökvilla í því að halda þurfi stýrivöxtum háum þar til gjaldeyrishöftunum verði aflétt.  Þetta er sama rökvilla og SÍ hefur lent í áður eða nánar tiltekið í mars 2001.  Að mínu áliti, og höfum í huga að ég er bara með tvær gráður í aðgerðarannsóknum, sem oft eru kölluð bestunarfræði, þá er betra að eiga inni möguleika á stýrivaxtahækkun við afnám gjaldeyrishaftanna, en að vera með vextina svo háa þegar höftin eru afnumin, að ekkert svigrúm er til hækkunar vaxtanna nema það hafi í för með sér náðarhögg á atvinnustarfsemi í landinu.  Það eru í mínum huga öll rök fyrir því að lækka stýrivexti skarpt í undanfara afnáms gjaldeyrishaftanna til þess að eiga borð fyrir báru varðandi hækkun þeirra þegar höftin eru afnumin.

Ætli gallinn sé ekki bara að líkön hagfræðinnar skorti skilning á rökfræði.