Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.7.2009.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna erum orðin nokkuð þreytt á úrræðaleysi stjórnvalda þegar kemur að skuldavanda heimilanna. Við auglýsum því eftir hagspá fyrir heimilin, þar sem hagstærðir eru mældar sérstaklega með hagsmuni heimilanna í huga.
Ég hef sjálfur skoðað sérstaklega nokkrar lykiltölur og það er sama hvaða atriði eru skoðuð, allt bendir í sömu átt. Skuldir og skuldabyrði er að aukast umfram aukningu ráðstöfunartekna og eigna. Hér fyrir neðan skoða ég nokkur atriði, en mun fleiri þarfnast greiningar.
1. Þróun skulda heimilanna við lánakerfið
Þessar tölur eru unnar upp úr gögnum Seðlabankans. Áhugavert er að sjá, að af rúmlega 1.000 milljarða skuldaaukningu á þessum 4 árum, þá eru 723 milljarðar eða 72% tilkomnir vegna aukningu skulda við bankakerfið, þ.e. Landsbanka, Glitni, Kaupþing og Sparisjóðina. Þetta jafngildir auk þess 235% aukningu útlána bankakerfisins við heimilin á meðan útlánaaukning ýmissa lánafyrirtækja var eingöngu 46%. Inni í þessari tölu er m.a. Íbúðalánasjóður, en einnig nær öll bílalánafyrirtækin og síðan Frjálsi fjárfestingabankinn. Vægi ÍLS er því sáralítið í þessum tölum.
2. Þróun skulda heimilanna, eignamyndun samkvæmt fasteignamati og breytingar á eiginfjárhlutfalli
Hér eru skuldir skoðaðar í hlutfalli við fasteignamat húsnæðis. Ástæðan fyrir því að skuldir við lánakerfið 2008 eru hærri hér en í næstu töflu fyrir ofan er að hér er miðað við áramót, en áður við 30. september 2008. Eiginfjárhlutfallið hrapaði á síðasta ári og hefur haldið áfram að lækka hratt á þessu ári. Höfum í huga að samkvæmt tölum Seðlabanka eru um 42% heimila með neikvætt eiginfjárhlutfall eða með mjög takmarkað eigið fé. Það er því ljóst að eignum er mjög misskipt meðal þjóðarinnar.
3. Þróun skulda í samanburði við breytingu á ráðstöfunartekjum
Hér sjáum við að skuldir sem hlutfall af ráðstöfunartekjum hafa vaxið um 40% (78 prósentustig) á aðeins fjórum árum. Þessi þróun má ekki halda áfram. Það sem meira er, henni verður að snúa við. Heimilin eru komin yfir mörkin sem Alþjóðagjaldeyrissjóður setur Íslandi vegna erlendra skulda. Þessi skuldastaða er orðin það alvarleg að heimilin standa ekki undir henni.
Framtíðin er ekki björt
Niðurstaðan er einföld. Allt hefur þróast í vitlausa átt. Heimilin eru sífellt að verða skuldsettari, greiðslubyrðin eykst með hverju árinu og heimilin eiga minna eftir því sem tíminn líður. Stjórnvöld virðast ekki skilja þennan vanda og hafa ekki gert neitt til að takast á við hann. Það er enginn greiningaraðili sem virðist kæra sig um að skoða vandann, hvað þá finna lausn á honum. Ef það er mat fremstu sérfræðinga, að með erlendar skuldir upp á 250% af þjóðarframleiðslu eigi Ísland að lýsa sig gjaldþrota, hvað segir það okkur um stöðu heimilanna. Skuldir heimilanna voru um áramót komnar upp í 269% af ráðstöfunartekjum. Já, 269% af ráðstöfunartekjum. Vissulega er dreifingin misjöfn milli heimila, en það segir okkur bara að staða mjög margra er mjög slæm.
En hver er ástæðan fyrir þessari þróun? Er hún bara hrun krónunnar á síðasta ári að kenna og verðbólgunni sem á eftir fylgdi? Nei, vandamálið er mun djúpstæðara. Staðreyndin er að í fjölda mörg ár hefur meðalframfærslukostnaður vísitölufjölskyldunnar verið umtalsvert hærri en meðalráðstöfunartekjur. Samkvæmt greiningu Arneyjar Einarsdóttur í grein í Morgunblaðinu 16. júní sl., þá vantar vísitölufjölskylduna sem nemur 8 mánaðalaunum eins aðila til að ná endum saman. Hvernig fer fólk þá að því? Jú, það tekjur lán. Þannig ná heimilin endum saman. Eitt lán leiðir af öðru. Skuldabyrði upp á 191% verður að 207%, 213%, 221%, 269%. Og hvað svo næst 300% eða 320%? Hver verður skuldabyrðin eftir 5 ár, 10 ár eða 15? Hvaða áhrif hefur Icesave reikningurinn á afkomu heimilanna? Bara vaxtabyrði Icesave nemur um 10% af ráðstöfunartekjum heimilanna. Ætli það sé til eitthvað annað land í heiminum sem greiðir jafn hátt hlutfall af ráðstöfunartekjum íbúanna í vexti af einu láni og Íslandi er ætlað? Ég efast um það.
Það er sama hvernig litið er á það, heimilin í landinu eru komin með bakið upp við vegg. Hér stefnir í fjöldagjaldþrot. Samkvæmt greiningu minni á tölu Seðlabanka Íslands eru 54% heimila með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði. Þetta er umtalsvert meira en þau 23% sem Seðlabankinn telur í þessari stöðu. 44% þeirra sem tóku þátt í skoðanakönnu Hagsmunasamtaka heimilanna meðal félagsmanna töldu frekar litlar eða mjög litlar líkur á því að geta staðið við fjárhagslegar skuldbindingar heimilisins næstu 6 mánuði meðan 33% töldu frekar miklar eða mjög miklar líkur á því. 61% svarenda sögðust vera gjaldþrota eða á leið í gjaldþrot, safna skuldum eða nota sparifé til að ná endum saman, meðan aðeins 10% sögðust geta safnað svolitlu (9%) eða talsverður (1%) sparifé.
Hvað þarf þetta að ganga langt áður en stjórnvöld telja sig knúin til að bregðast við vandanum? Hvað þurfa mörg heimili að fara í þrot áður en Jóhanna og Steingrímur bregðast við? Áttar fólk sig ekki á afleiðingum þess að 10, 20 eða 30% heimilanna fari í þrot?
Viðbót: Ég reiknaði að gamni mínu hver greiðslubyrðin af óverðtryggðu 40 ára láni með 5% vöxtum væri, ef skuldin væri 269% af ráðstöfunartekjum. Það kemur í ljós að mánaðarleg greiðsla af slíku láni er 1,3% af ráðstöfunartekjum eða 15,6% á ári. Sé lánið til 30 ára er greiðslubyrðin 1,45% á mánuði eða 17,4% af ráðstöfunartekjum á ári. En sé lánið til 20 ára er greiðslubyrðin komin í 1,78% á mánuði eða 21,36% af ráðstöfunartekjum á ári. Nú segir einhver, að ráðstöfunartekjur muni fara hækkandi á næstu árum. Málið er að ekkert bendir til þess. Helmingur heimila í landinu er með innan við 250 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði og bandormurinn sem samþykktur var um daginn, hann innifelur víst í sér 90.000 kr. viðbótarálögur á hvert heimili í landinu. Það bendir því flest til þess að ástandið eigi eftir að versna verulega áður en það byrjar að batna, nema farið verði í verulega leiðréttingu/eftirgjöf lána Síðan á eftir að bæta Icesave skuldbindingunum ofan á. Vissulega koma þær ekki til greiðslu fyrr en eftir 7 eða 8 ár, en það væri lítil fyrirhyggja að byrja ekki að safna strax. Segjum að það séu 30 milljarðar á ári í 15 ár, þá jafngildir það eitthvað um 300.000 á hverja fjölskyldu á ári. Ég sé bara ekki hvaðan peningarnir eiga að koma eða hvernig heimilin eiga að komast af.