Af hverju ætti krónan að styrkjast?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.7.2009.

Krónuræsknið hefur verið heldur ræfilslegt undanfarna mánuði.  Skýringin er einföld.  Foreldrarnir eru búnir að missa trúna á hana.  Henni var því vísað á dyr og gert að spjara sig sjálfri.  Jú, vissulega fékk hún heimamund í formi gjaldeyrishafta og hárra stýrivaxta, en hvers virði eru slík sundhjálpartæki þegar ekki sést til lands í ólgusjó?

Almenningur hefur ekki trú á krónunni og leggur allan þann gjaldeyri sem hann kemst yfir inn á gjaldeyrisreikning.  Það sama gera fyrirtæki.  Enginn vill eiga það á hættu að verða röngu megin við hið óumflýjanlega gengishrun, sem verður þegar hjálpartækjunum sleppir.  Í landinu er óhemju mikið fé sem vill úr landi.  Því mun fylgja veiking krónunnar.  Hvernig væri bara að leyfa henni að gossa?

Ég velti því fyrir mér í haust, þegar gjaldeyrishöftin voru sett á, hvort það væri rétt ráðstöfun.  Hvort ekki hefði bara verið betra að gefa þeim sem vildu færi á að fara með peningana sína úr landi.  Ég sá fyrir mér að krónan myndi veikjast umtalsvert á stuttum tíma meðan hið óþolinmóða fjármagn væri að flæða út, ef það færi á annað borð.  Það er nefnilega málið.  Mér finnst það órökrétt fyrir erlenda aðila að fara með peningana sína úr landi með krónuna svona veika, nema menn telji að hún eigi eftir að veikjast meira. Sjáið til, eigi einhver 180 milljónir, þá fær viðkomandi 1 milljón evra á núverandi gengi, en fengi 1,5 milljón evra ef krónan styrktist um þriðjung.  Miðað við núverandi gengi, þá er viðkomandi að tapa stórfé á hverjum degi.  Hans hagur er því að gengið styrkist.

Fyrir íslenskan efnahag er betra að taka skell sem stendur stutt yfir, en það langvarandi ástand sem núna ríkir.  Það er líka þess vegna, sem "verðbólguskot" er betra en viðvarandi 12-16% verðbólga.  Eða stýrivextir upp á 20% í nokkra mánuði frekar en 12-15% í 2 ár.  Aðlögunarhæfni íslensks efnahagslífs hefur falist í því, að við höfum átt auðvelt með að fresta hlutum í stuttan tíma eða hraða verkum, þegar tímabundin lægð hefur komið.  Nú er ástandið öðruvísi.  Við erum með langvarandi vandamál.  Verðbólgan vill ekki hverfa, stýrivextir haldast háir, krónan er stöðugt veik og það sem verst er, læknirinn (Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn) hefur ekki hugmynd um hvað á að gera.  Hann hefur ekki farið í neina endurmenntun áratugum saman og fattar víst ekki breytingar sem hafa orðið í heiminum og áttar sig heldur ekki á því að Íslendingar eru vel menntuð þjóð.  Við áttum okkur á því meðulin virka ekki á sjúkdóminn, þar sem greiningin er röng.  Eina leiðin til að við getum farið að byggja upp er að ná viðspyrnu.  Það gerist ekki fyrr en krónan byrjar að hækka, stýrivextir fara niður fyrir 10% og verðbólgan er komin í 4-6%.  Það gerist ekki með gjaldeyrishöftum og innilokuðu fjármagni.  Höftin verða að fara og það fjármagn sem vill út landi líka.