Icesave er slæmt, en ekki stærsta vandamálið

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 13.7.2009.

Ég veit ekki hve margir átta sig á því, en samkvæmt tölum sem finna má á vef Seðlabanka Íslands, þá eru vaxtaberandi erlendar skuldir innlendra aðila, annarra en gömlu bankanna þriggja, gríðarlega miklar.  Í árslok 2008 voru þessar skuldir 3.649 milljarðar króna.  Hér er um að ræða skuldir Seðlabanka, ríkis og sveitarfélaga, innlánsstofnana annarra en gömlu bankanna, það sem er kallað aðrir geirar, m.a. orkufyrirtæki, og síðan vegna beinna fjárfestinga við erlenda banka, ekki þá íslensku, ekki við gömlu bankana.  Nei, þetta eru lán sem þessir aðilar tóku beint hjá erlendum lánastofnunum.

Í töflunni hér fyrir neðan eru skuldirnar og vaxtagreiðslur (miðað við 5% árlega vexti) bornar saman við verga landsframleiðslu og gjaldeyristekjur árið 2008.  Til samanburðar hef ég verga landsframleiðslu og gjaldeyristekjur fyrir 2007.

Þarna eru nokkuð ógnvekjandi stærðir og það er sama hvernig ég skoða þær, ég get ekki séð að við ráðum við þessar skuldir með þeim gjaldeyri sem við höfum til ráðstöfunar.  Raunar hefur staðan ekki gert neitt annað en að versna, því í lok 1. ársfjórðungs 2009 þá höfðu skuldirnar hækkað í 4.483 milljarða (306% af VLF og 648% af gjaldeyristekjum) og ársvaxtabyrði af þeirri tölu miðað við 5% vexti er 224,2 milljarðar. Síðan eiga greiðslur vegna væntanlegra lána ríkissjóðs og náttúrulega Icesave samningsins eftir að bætast við.  Hvaðan eigum við að fá þann gjaldeyri sem þarf í þessar greiðslur?  Ég sé bara ekki hvaðan hann á að koma.

Þetta væri í góðu lagi, ef gjaldeyrisjöfnuður landsins hefði verið jákvæður undanfarin 10 ár.  En svo var það ekki.  Þetta væri í lagi, ef við værum sjálfum okkur nóg með hráefni í framleiðsluvörur.  En svo er það ekki.  Það eru aðeins þrjár leiðir færar, svo hægt sé að fá gjaldeyri til að greiða þessa vexti, hvað þá afborganir lánanna líka:  Hin fyrsta er að skera stórlega niður allan innflutning og fara út í haftakerfi eftirstríðsáranna. Önnur er að taka ný erlend lán, en þau þarf að borga á einhverjum tímapunkti, þannig að þetta væri frestun á vandanum.  Þriðja er að kasta krónunni og taka upp þá mynt sem vegur þyngst í skuldum þessara aðila, en til þess þarf samþykki viðkomandi lands/landa.

Staðreyndir málsins eru að við erum komin með bakið upp við vegg.  Þrátt fyrir mikið innstreymi erlends gjaldeyris undanfarin 4-5 ár, þá varð lítið sem ekkert af honum eftir hér á landi.  Aðrir aðilar en innlánsstofnanir hafa farið hamförum í lántökum erlendis.  Í árslok 2004 stóðu þessar skuldir í 443 milljörðum og stóðu um síðustu áramót í tæpum 2.500 milljörðum.  Þetta er 464% aukning á fjórum árum.  Vissulega hefur staða krónunnar nokkuð með þessa hækkun að gera, en þó við gerum ráð fyrir 40% lækkun krónunnar, þá er samt um 239% aukningu að ræða.

Nú segir má til sanns vegar færa að á móti koma eignir í útlöndum.  Um áramót námu eignir annarra en gömlu bankanna 3.325 milljörðum og 2.795 milljörðum í lok 1. ársfjórðungs.  Nettó staða var því annars vegar 324,6 milljarðar og hins vegar 1.688,5 milljarðar.  Já, eignastaðan versnaði um 1.264 milljarða á 3 mánuðum.

Það er sama hvaða tölur er litið á, staðan er slæm.  Að vera með erlenda skuldir sem nema 249% af vergri landsframleiðslu er langt umfram það sem nokkurt land þolir.  Icesave skuldbindingin (samkvæmt samningnum) er smámunir í þessu samhengi.  Fyrir okkur skiptir engu máli hvort skuldin standi í 3.600 milljörðum eða 4.300 milljörðum.  Við erum alveg í jafn vonlausri stöðu.

Þessar tölur segja, a.m.k., að ekki dugir að fara þá leið, sem margir hafa stungið upp á, að láta erlenda aðila, sem eiga fé bundið hér á landi, fjármagna nýjar framkvæmdir.  Þetta er bara önnur leið til erlendrar lántöku og við höfum ekki efni á því að greiða meiri vexti til útlanda.  Betra er að losna við þetta fé úr landi núna strax, þó það kosti (vonandi bara tímabundið) mikla lækkun krónunnar.  Eina færa leiðin til uppbyggingar hér á landi er með innlendu lánsfé.  Við verðum að hætta að þessum ósið að vera sífellt að láta peningana okkar vinna fyrir aðra.