Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.6.2009.
Í fréttinni sem ég hengi þessa færslu við, þá er setning sem virðist eiga að bera blak af bankamönnum vegna vanda heimilanna. Þar segir:
Viðmælendur blaðamanns hjá bönkunum sögðu það ekki vera stóran hóp sem fengi ekki lausn á sínum málum með úrræðunum sem í boði eru. Bæði bankastarfsmennirnir og Guðmundur bentu á að margir þeirra hefðu verið komnir með fjármál sín í illleysanlegan hnút áður en bankahrunið varð.
Við skulum alveg hafa það á hreinu, að gagnverk hagkerfisins byrjaði að hökta af alvöru seinni hluta júlí 2007. Fyrsta alvarlega hækkun vísitölu neysluverðs kom fram í mælingum í byrjun september 2007. Krónan lækkað á síðari hluta árs 2007 um tæp 10%. 6 mánaða verðbólga í febrúar 2008 mældist tæp 10% og 12 mánaða verðbólgan var 6,8%. Gengislækkun frá 1. nóvember 2007 til 1. mars 2008 mældist 11,9%. Frá 1. mars 2008 til 1. október 2008 lækkaði gengið um önnur 33,6%. Alls er lækkun gengisins á þessum 11 mánuðum því 41,4% (ekki er hægt að leggja saman fyrri hlutfallstölur). Og ársverðbólga í ágúst 2008 var 14,5%. Auðvitað voru fjölmargir komnir í vanda eftir slíkar hamfarir. Berum þetta svo saman við breytinguna á gengi krónunnar frá 1. október 2008 til 2. júní sl. sem var 11,7%!
Það er útbreiddur misskilningur að hrun bankanna sé stærsti vandi heimilanna. Hrun bankanna var bara einn tímapunktur í langri þrautargöngu heimilanna vegna efnahagsóstöðugleika undanfarin 8 ár eða svo. Hluti af þessu kom fram í lækkandi gengi krónunnar og hækkandi verðbólgu frá og með 1. ágúst 2007. Annar hluti er peningamálastefna Seðlabankans og aðgerðir bankans til að ná verðbólgumarkmiðum bankans. Hrun bankanna í október olli fyrst og fremst óvissu um úrlausnir mála og fjármálalegan stöðugleika í landinu, auk þess sem atvinnuleysi jókst.
Ég held að Íbúðalánasjóður sé alveg sammála mér að vandinn var byrjaður löngu áður en bankarnir hrundu. Það var líklegast þess vegna sem ÍLS kynnti um miðjan ágúst 2008 aukin úrræði fyrir fólk í vanda.
Leyfum hvorki bönkunum né stjórnvöldum að nota hrun bankanna sem einhverja afsökun fyrir slæmri stöðu heimilanna. Ástæðan er mun djúpstæðari og á sér lengri aðdraganda.