650 milljarðar er það mikið eða lítið?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.6.2009.

Ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort þetta eru góðar fréttir eða slæmar fréttir.  650 milljarðar er lægri tala en hæst hefur verið nefnd að félli á Landsbankann/ríkissjóð, en einhvern veginn hef ég á tilfinningunni að menn hafi verið að vonast eftir að koma tölunni neðar. 

Ekki er víst að nokkuð af þessu falli á ríkið. Verulegar eignir eru á móti hjá Landsbankanum, en málið er að við vitum ekki um verðmæti þeirra.  Annað sem ekki kemur fram í fréttinni er á hvaða gengi þessi tala er fengin.  Ég reikna jú með að 650 milljarðarnir standi sem skuld í pundum en ekki krónum þannig að miðað við gengi í dag, þá erum við líklega að tala um 3,3 milljarða punda.  Endanleg tala í krónum talið, sem greidd verður, veltur því á gengisþróun, en á móti þá sveiflast krónuverðmæti erlendra eigna Landsbankans líka eftir þessu sama gengi.

Hvort eitthvað af þessu lendir á íslenska ríkinu á eftir að koma í ljós.  Fyrir utan það hvort eignir Landsbankans dugi fyrir þessu, þá þarf líka að taka til skoðunar hvort kröfuhafar Landsbankans sætti sig við að innistæður hafi verið teknar fram fyrir í kröfuröðinni.  Komi í ljós, t.d. eftir dómsmál, að óheimilt hafi verið að breyta kröfuröðinni, eins og gert var með neyðarlögunum, þá gæti hluti af þessum 3,3 milljörðum punda lent á tryggingasjóði innistæðueigenda og þar með á ríkinu og skattgreiðendum.  Spurningin er þá hvort tekið er tillit til slíkrar niðurstöðu í Icesave samningnum.


Engin Icesave-greiðsla í 7 ár