Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.5.2009.
Það er gleðilegt að sjá að þingflokkur Borgarahreyfingarinnar lýsir yfir stuðningi við meginkröfur Hagsmunasamtaka heimilanna. Þetta kemur svo sem ekki á óvart, þar sem báðir hópar, þ.e. samtökin og Borgarahreyfingin, spretta upp úr hópi almennings sem hefur ofboðið aðgerðarleysi tveggja ríkisstjórna gagnvart vanda heimilanna.
Jóhanna Sigurðardóttir hefur stært sig af því að þessi ríkisstjórn og hin síðasta hafi gert margt fyrir heimilin. Mig langar að fara aðeins yfir þessar "aðgerðir", því í mínu huga eru þær heldur rýrar í roðinu. Á því eru þó heiðarlegar undantekningar.
Greiðslujöfnunarvísitala: Hún var sett á og hefur vissulega tímabundin áhrif til að létta mánaðarlegri greiðslubyrði af heimilunum. Vandinn við þetta er að það tekur lengri tíma að greiða lánin og því mun heildargreiðslubyrði lánanna þyngjast. Þegar upp er staðið mun fólk greiða hærri upphæð vegna lánanna sinna, en samkvæmt gamla kerfinu. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
Fjölgun úrræða Íbúðarlánasjóðs (ÍLS): Þetta er hið besta mál, en aftur er verið að líta til þess að lengja í lánum sem að lokum gerir það að verkum að fólk borgar meira. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
Leigumarkaður ÍLS: ÍLS má leigja fólki húsnæði sem það missir. Vá. Fólk á ekki bara að missa húsnæðið sitt vegna þess að ríkisstjórnin missti tökin á efnahagsmálunum, það á að fá að leigja aftur húsið sitt. Væri ekki miklu nær að afskrifa strax nægilega mikið af skuldunum, til þess að fólk hafi efni á að greiða af afganginum? ÍLS hlýtur að vera með eitthvað viðmið varðandi leigugreiðslu. Ef viðkomandi hefur efni á að greiða þá upphæð í leigu og það er nóg fyrir ÍLS að fá þá upphæð upp í kostnað sinn, er þá ekki einfaldast að stilla höfuðstól lánanna þannig að árleg leigugreiðsla jafngildi árlegri afborgun og vöxtum lána og öðrum föstum kostnaði vegna húsnæðisins, sem annars mun falla á ÍLS. Slíkur kostnaður er t.d. fasteignagjöld, húseigendatrygging og brunatrygging. Niðurstaða: Rangur kostur valinn.
Fellt úr gildi að skuldajafna megi barnabótum: Bara hið besta mál. Niðurstaða: Gott framtak, en vegur ekki þungt, þar sem skuldirnar verða ennþá til innheimtu.
Fellt úr gildi að skuldajafna megi vaxtabótum: Skiptir máli fyrir þá sem fá vaxtabætur greiddar fyrirfram, sem ég veit ekki hvað það er stór hluti þjóðarinnar. Fyrir hina eru þetta fyrirheit sem nýtast fólki í ágúst og það er fullkomlega óvíst hvort þessi fyrirheit verða enn við lýði þá. Niðurstaða: Varla merkileg ráðstöfun og skuldirnar verða ennþá til innheimtu.
Sveigjanleiki í opinberri innheimtu: Hvað þýðir þetta? Verður slegið af kröfunum eða verða þær geymdar og halda þær þá áfram að safna kostnaði? Þessi aðgerð kemur ekki fólki til hjálpar nema að það þýði niðurfellingu krafna. Niðurstaða: Enn eitt dæmið um að ríkissjóður skal fá sitt.
Tímabundin heimild til niðurfellingar dráttarvaxta, kostnaðar og gjalda: Líklegast sú aðgerð sem gæti nýst fólki sem komið er í alvarleg vanskil hvað best af þeim aðgerðum sem hér er rætt um. Spurningin er: Hve lengi er "tímabundið"? Niðurstaða: Hið besta mál.
Milda innheimtuaðgerðir allra ráðuneyta og stofnana ríkisins: Þetta hefur greinilega reynst innantómt loforð, þar sem Tryggingastofnun ríkisins og Lánasjóður íslenskra námsmanna höfðu ekki heyrt af þessu í janúar og hef ég raunar spurnir af því að LÍN hafi enn ekki heyrt af þessu. Báðir þessir aðilar hafa verið að senda fólki innheimtukröfur vegna ofgreiðslna. Fyrir utan að, ef lögin hennar Jóhönnu um greiðslujöfnun hefðu nú farið í gegnum þingið á sama hraða og hækkun áfengisgjalds og vörugjalda á eldsneyti, þá væri þessi aðgerð óþörf. Niðurstaða: Innantómt loforð, þar sem sumir hunsa tilmælin.
Dráttarvextir lækkaðir: Gott mál, en þeir eru ennþá við okurmörk og það eru yfirdráttarvextir líka. Hvers vegna í ósköpunum eru dráttarvextir 24% á sama tíma og verðbólga er 0,5%? Niðurstaða: Jákvætt skref, en með þessu áframhaldi komast þeir í viðundandi horf um aldamót.
Reglugerð um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar: Reglugerðin kom til framkvæmda um áramót um leið og ný innheimtulög tóku gildi. Ég vil spyrja að leikslokum varðandi þetta. Eða eins og segir: Dag skal að kvöldi lofa og mey að morgni. Niðurstaða: Hugmyndin er góð, en hver verður framkvæmdin?
Endurgreiðsla vörugjalda og VSK af bifreiðum: Þetta er nú varla aðgerð sem kemur heimilunum vel. Hún hefði betur verið í flokknum með aðgerðum fyrir fyrirtækin. Niðurstaða: Hefur óveruleg áhrif fyrir heimilin.
Frysting og í framhaldi greiðslujöfnun gengisbundinna lána: Þetta kom til framkvæmda 5 mínútum fyrir kosningar. Íslandsbanki var byrjaður eitthvað fyrr og uppskar mikla gagnrýni fyrir að flýta sér of mikið. Ólíkt öðrum aðgerðum, þá getur þetta leitt af sér lægri heildargreiðslubyrði, þar sem styrking krónunnar skilar sér á seinni gjalddögum. Niðurstaða: Hið besta mál.
Hækkun vaxtabóta: Vaxtabætur voru hækkaðar um allt að 30% hjá tekjulágum og um allt að 500% hjá fólki í næsta tekjuhópi fyrir ofan. Peningurinn sem notaður er í þetta er fenginn af skatttekjum af útgreiddum séreignasparnaði (sjá næsta lið). Niðurstaða: Hið besta mál, en nær hefði verið að fjórfalda vaxtabæturnar. Sjá einnig næsta lið.
Útgreiðsla séreignasparnaðar: Þetta var vissulega gert, en tæp 40% fóru í skatta sem notaðir voru til að hækka vaxtabætur. Mun betri lausn hefði verið að leyfa fólki að taka út séreignasparnaðinn skattfrjálst og sleppa hækkun vaxtabótanna. Þá hefðu mun fleiri nýtt sér þennan möguleika. Ríkið hefði vissulega tapað einhverjum skatttekjum, en sparað sér á móti hækkun vaxtabótanna. Niðurstaða: Röng útfærsla notuð.
Bankar og sparisjóðir bjóða sömu greiðsluvandaúrræði og Íbúðalánasjóður: Þetta kom til framkvæmda daginn fyrir kosningar. Ég hvatti til þess í ágúst að þetta yrði gert. Í ágúst og jafnvel október hefði þetta nýst mjög stórum hópi sem hafa tapað stórum upphæðum vegna þessara tafa. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
Skuldbreytingalán og lánalengingar um 30 ár í stað 15 áður: Vá, ég má vera skuldaþræll í tvöfaldan upphaflegan tímann. Þetta þyngir heildargreiðslubyrði um 40% ef ekki meira. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
Greiðsluaðlögun samningskrafna: - Gildir bara fyrir suma og fólk má ekki vera komið í vanskil. Niðurstaða: Engu er létt af heimilunum og heildargreiðslan eykst.
Frestun nauðungaruppboða fram til loka október: Var ein af fyrstu kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur féllst á. Ganga hefði mátt lengra og fresta öllum aðfaramálum líka. Niðurstaða: Hið besta mál. Vissulega er engu létt af heimilunum og það á eftir að koma í ljós hvort ríkisstjórnin nýti tímann til að koma með varanlega lausn.
Lenging aðfarafresta úr 15 dögum í 40: Eins og ég nefni að ofan, þá hefði verið nær að lengja þennan tíma enn frekar. Niðurstaða: Besta mál, en breytir litlu í reynd.
Aukin stuðningur aðstoðarmanns og leiðbeiningaskylda vegna gjaldþrota: Á eftir að sjá þetta í framkvæmd. Þætti einnig gott að sjá ítarlegri leiðbeiningar í tengslum við nauðungarsölur og meiri réttarvernd fyrir þá sem missa eignir sínar í slíka sölu. T.d. virðast fulltrúar sýslumann hunsa algjörlega ákvæði laga um að ógilda nauðungarsölur, þegar óraunhæf boð berast í eignir. Þá er ég að nefna 1 milljón kr. tilboð í einbýlishús. Niðurstaða: Jákvætt framtak, en hverju á þetta eftir að skila?
Hér er kominn langur listi yfir "sértækar aðgerðir fyrir heimilin". Það kæmi mér á óvart, ef hagur heimilanna af þessum aðgerðum nái 100 milljónum. (Þá dreg ég skattgreiðslur vegna séreignasparnaðar frá útgreiddum vaxtabótum.) Það er fátt bitastætt í þessum aðgerðum. Ekkert sem skiptir verulegu máli. Það er ekkert í þessum aðgerðum sem verndar innkomu heimilanna. Það er óljóst hvert þessar aðgerðir munu auðvelda fólki að halda eignum sínum. Aftur og aftur er verið að auka heildargreiðslur eða auka kostnað. Aðeins í tveimur tilfellum er hægt að segja, að ríkissjóður sjái af tekjum eða verði fyrir útgjöldum sem heimilin bæta honum ekki upp annars staðar.
Á sama tíma hefur fjármagnseigendum verið hjálpað með framlögum í peningasjóði bankanna og tryggingu á innistæðum. Nú er ég ekki að segja, að ekki eigi að aðstoða fjármagnseigendur, en það verður að gæta jafnræðis. Aðgerðir bankanna þriggja, hvort sem um þær var samráð eða ekki, stuðluðu að gríðarlegri hækkun höfuðstóls lána og í framhaldinu af því mikillar rýrnunar á eigin fé heimilanna í fasteignum sínum. Samspil þessara tveggja þátta nemur vart undir 400 milljörðum. Hjón sem áttu eigið fé í húseign sinni upp á 30 - 40 milljónir í september 2007 eru hugsanlega komin í mínus upp á 20 milljónir. Einstaklingur sem átti eigið fé í íbúð sinni upp á 5 - 10 milljónir á sama tíma er líklegast kominn í sömu upphæð í mínus. Mismunurinn á að renna inn í afsprengi bankanna sem stóðu fyrir svindlinu.
Mín skilaboð til ríkisstjórnarinnar eru þessi:
Vaknið af dvalanum og farið að gera eitthvað sem skiptir máli fyrir heimilin í landinu.
Samþykkið án tafar tillögu talsmanns neytenda um gerðardóm.
Breytið lögum þannig, að hægt sé að fara í hópmálssókn.
Stuðlið að því að hægt sé að leita á skjótvirkan hátt úrlausnar á ágreiningsmálum um lögmæti gengisbundinna lána og forsendubrests verðtryggðra lána.
Skapið atvinnulífinu eðlilegt rekstrarumhverfi svo hægt sé að fjölga störfum í landinu.
Skapið heimilunum í landinu eðlileg skilyrði svo þeim hætti að blæða.