Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.7.2009.
Með því að hafna Icesave samningi Svavars Gestssonar erum við ekki að hafna því að greiða Icesave skuldbindingarnar. Bara að segja að við viljum betri samning sem gerður er á okkar forsendum eða viðhafa annað fyrirkomulag við uppgjör þessara skuldbindinga í samræmi við íslensk lög um innistæðutryggingar.
Það er svo margt í samningnum sem er hreint og beint rangt. T.d. segir ekkert í íslenskum lögum um innistæðutryggingar að greiðslan til innistæðueigenda þurfi að koma strax. Það að Hollendingar og Bretar hafi greitt út tryggingarnar setur ENGAR skuldbindingar á okkur. Það var þeirra ákvörðun og kemur okkur EKKERT við. Vextir vegna hins svokallaða láns Breta og Hollendinga koma okkur heldur EKKERT við. Af hverju eru menn svona æstir að greiða fyrir eitthvað sem kemur okkur EKKERT við? Að borga 3,2 milljarða (eða hvað það nú er) vegna kostnaðar við samskipti við innistæðueigendur er fjarstæðukennt. Þessi samskipti fara fram með fjöldapósti og það er út í hött að það kosti 3,2 milljarða.
Hvernig dettur mönnum í hug, eins og kemur fram í ýmsum athugasemdum við frétt mbl.is, að lán Íslendinga verði gjaldfelld ef Alþingi fellir Icesave? Ef eitthvað væri, þá ætti lánshæfi landsins að batna, þar sem hafnað er fáránlegum skuldbindingum og greiðsluhæfi batnar. Ég myndi halda, að ef greiða þarf lægri upphæð í Icesave, þá verði meiri peningur til umráða til að greiða önnur lán. Ok, AGS peningarnir koma ekki, en það á hvort eð er ekki að nota þá í eitt eða neitt. Þeir eiga bara að bíða inni á bankareikningi á lakari vöxtum en við þurfum að greiða. Hvaða akkur er í því? Nákvæmlega enginn. Við ætluðum vissulega að nota peningana frá Norðurlöndunum, en það lítur allt út fyrir að villingarnir á skólalóðinni séu búnir að snúa þau niður, þannig að þau þora ekkert að gera. Það veldur mér mun meiri áhyggjum.
Mér finnst kolrangt að sækja um ESB aðild með betlistafinn í hendi. Ég hef megna óbeit á öllu því sem viðkemur AGS. Það er megn ólykt af þessu hjá þeim og markmiðið er alls ekki að aðstoða Ísland. Markmið þeirra er að kreista eins mikinn pening út úr Íslendingum og hægt er. AGS er yfirrukkari lánadrottna okkar og er að koma fram við okkur á nákvæmlega sama hátt og innheimtudeildir bankanna koma fram við þá sem farið hafi í vanskil. Þeim er nákvæmlega sama hvort skuldarinn missi allt sitt og fari á vergang, bara að lánadrottnari fái sitt með vöxtum, vaxtavöxtum og öllum þeim kostnaði sem hægt er að týna til. Þeim er líka nákvæmlega sama þó íslenska þjóðin hafi ekkert komið nærri ákvörðunum bankanna um skuldasöfnun.
Ég skora á Alþingi að fella Icesave samninginn með stæl og senda þannig skýr skilaboð til umheimsins, að við látum ekki hvað sem er yfir okkur ganga. Ég skora einnig á Alþingi að semja ályktun þar sem fram kemur, að ekki hafi verið hægt að samþykkja samninginn, þar sem samninganefndin hafi farið langt út fyrir umboð sitt og ekki hafi verið tekið tillit til veigamikilla þátta við gerð samningsins. Loks skora ég á Alþingi að samþykkja nýtt, einhliða fyrirkomulag vegna lausnar á þessu máli, þar sem viðurkennt er skilyrðislaust að Tryggingasjóður innistæðueigenda muni standa við þá skuldbindingu að greiða hverjum og einum innistæðueiganda að hámarki EUR 20.887 af höfuðstóli inneignar sinnar og ekkert umfram það. Þessar greiðslur verði inntar af hendi eins fljótt og hægt er að koma eignum Landsbankans í verð án þess að virði eignanna verði rýrt með ótímabærri sölu þeirra. Séu bresk eða hollensk stjórnvöld ósammála þessum málalyktum, þá er þeim frjálst að sækja málið fyrir íslenskum dómstóli enda er varnarþing Landsbankans og Tryggingasjóðs innistæðueigenda í Reykjavík.