Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.7.2009.
Hér er í meira lagi áhugaverð frétt með gamlar upplýsingar. A.m.k. fyrir mig. Ekki það að minnst tveir höfundar skýrslunnar hafa lengi haft efasemdir um arðsemi virkjana, þ.e. Þorsteinn Sigurlaugsson og Sigurður Jóhannesson, niðurstaðan sem hér er sýnd er það sama og ég komst að í vinnu við lokaverkefni mitt við Stanford háskóla skólaárið 1987-8. Verkið fjallaði um samvirkni framboðs og eftirspurnar í íslenska raforkukerfinu (e. The Icelandic electricity system: Supply and Demand Interdependence). Þó svo að ég hafi ekki mikið verið að velta fyrir mér arðsemi virkjana innan íslenska raforkuöflunarkerfisins, þá kom það fram sem hliðarniðurstaða. Og hún var einföld:
Fjölmargar virkjanir sem fyrst og fremst voru byggðar eða ætlunin að byggja til að afla raforku til stóriðju ýmist voru á mörkum þess að vera hagkvæmar eða að eini arður þjóðfélagsins af þeim voru skattar starfsmanna og þjónustuaðila!
Ég vil að það komi skýrt fram, að ég var á þessum tíma hlynntur nýtingu fallvatna við raforkuframleiðslu. Það viðhorf hefur lítið breyst, nema að því leiti að ég vil ekki nota hvaða fallvötn sem er og vil að náttúran njóti vafans þegar kemur að nýtingu jarðvarma. Að mínu áliti eru fjölmargir staðir á landinu, þar sem ekkert mál er að byggja virkjanir, en um leið eru mjög margir sem ekki á að hrófla við.
En aftur að hagkvæmni virkjana. Erlendar skuldir orkufyrirtækja munu vera eitthvað um 800 milljarðar, jafnvel allt að 1.000 milljörðum. Þetta eru gríðarlegar skuldir. Hæst trónir reikningurinn vegna Kárahnjúkavirkjunar, en hann mun standa í um 210 milljörðum. (Miðað er við að kostnaður Landsvirkjunar hafi verið 100 milljarðar sem teknir voru að láni í japönskum jenum, þegar jenið var í kringum 0,65 aurar, en nú er gengið 1,35. 100 milljarðarnir hafa því hækkað í 207 milljarða.) Eldri virkjanir hafa einnig verið fjármagnaðar í Japan og því hefur fjármagnskostnaður hækkað langt umfram hækkun á tekjum fyrirtækisins. Það er líka kaldhæðni, að líklegast er Kárahnjúkavirkjun einn af stóru áhrifavöldunum í því ferli sem endaði með efnahagshruninu síðast liðið haust. Ég efast um að framkvæmdirnar fyrir austan hafi verið ráðandi þáttur í efnahagshruninu, en munurinn á þeim og skuldum bankanna er að þessar framkvæmdir þarf að greiða upp með góðu eða illu.
Að arðsemi orkuvinnslu sé ekki meiri en raunber vitni (ef þetta er endanleg niðurstaða), þá hlýtur það að vera áfellisdómur á orkustefnu ríkisstjórna Sjálfstæðisflokks og Framsóknar á árunum 1995-2007. Þessi arfleifð Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar gæti reynst okkur dýrkeypt í nánustu framtíð, þar sem margt bendir til þess, að gjaldeyrisöflun þjóðarinnar dugi ekki til greiðslu afborgana og vaxta á áhvílandi lánum til orkuvinnslu. Vissulega væri þetta í fínu lagi, ef engin önnur erlend væru til greiðslu, en svo heppin erum við ekki. Gjaldeyrisskuldir þjóðarinnar eru svo miklar að vandséð er hvernig hægt er að vinna sig út úr þeim vanda. (Og það þrátt fyrir að ekki væri greidd króna vegna skulda Glitnis, Kaupþings, Landsbanka, Straums, Sparisjóðabankans og SPRON.) Ein lausn er að hækka verulega verð á raforku til stórnotenda, þannig að verð til þeirra standi undir vöxtum og afborgun lána vegna orkuvinnslunnar og gott betur. Ýmsar aðrar lausnir eru líka fyrir hendi, en hver sem verður valin, þá verður hún að tryggja hærri heildararðsemi orkuframkvæmda.