Enn er lopinn teygður

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 24.7.2009.

Fyrir 16 mánuðum gekk yfir það versta Páskahret sem þjóðin hefur lent í.  Þetta hret var ekki mælt hjá Veðurstofunni, heldur af Seðlabankanum.  Það hófst með miklum látum 7. mars og gekk á með slæmum hryðjum næstu 3 vikur.  Þegar hretinu slotaði loks 28. mars hafði gengisvísitalan fallið um 25 stig heil 18,7%.  En þetta hret var bara upphafið að öðru verra sem skall á upp úr miðjum september og orsakaði frekara hrun krónunnar.  Þessu öllu fylgi kröpp verðbólguhæð með fjármálastormum sem lögðu Glitnir, Landsbankann og Kaupþing að velli og ollum miklum skaða á heimilum og í fyrirtækjum landsmanna.

Já, það eru 16 mánuðir og tæpar 3 vikur síðan að stormurinn skall á og stjórnvöld vita ekki enn hvað þarf að gera til að rétta af efnahag landsins.  Það eru engir aðgerðahópar að störfum, það eru engar lausnir í loftinu.  Í 16 mánuði (og 3 vikum betur) hefur nánast ekkert verið gert til að hjálpa atvinnulífinu við að vernda störfin eða heimilunum til að gera þeim kleift að takast á við auknar byrðar.  Og núna 16 mánuðum og tæpum þremur vikum eftir að hretið skall á kemur fram sú brilliant hugmynd að stofna nefnd.

Hagsmunasamtök heimilanna eru búin að vera til í rúma 6 mánuði.  Allan þennan tíma erum við búin að vera að kalla eftir viðbrögðum frá stjórnvöldum.  Heilar þrjár ríkisstjórnir hafa setið og ekki ein einasta þeirra hefur séð ástæðu til að kalla saman vinnuhóp hagsmunaaðila til að ræða vandann sem atvinnulífið og heimilin standa frammi fyrir.  Stjórnvöld halda nefnilega að það sé einkamál þeirra að finna lausnina.  Þau vilja nefnilega ekki til þess hugsa að einhver utan klíkunnar gæti átti góða hugmynd að lausn.

Nú á sem sagt að teygja lopann ennþá frekar og það á að sniðganga heimilin.  Það eru aðilar vinnumarkaðarins sem hafa á samvinnu við.  Síðan hvenær voru þessir aðilar sérlegir talsmenn heimilanna í landinu?  Ég man ekki eftir því að sú ákvörðun hafi nokkru sinni verið tekin.  Er það ekki bara vegna þess að "aðilar vinnumarkaðarins" eru jábræður stjórnvalda?  Það er engin hætta á að þessir aðilar komi með "óþægilegar" tillögur.

Fyrir Alþingi liggja nokkrar tillögur um hagsmuni heimilanna.  Þær fást ekki ræddar vegna þess að þær eru frá "hinum".  Þær eru frá Framsókn og uppreisnargemsum innan VG.  Jóhanna og Árni Páll eiga ekki hugmyndirnar og þess vegna fást þær ekki ræddar.  Hvenær ætlar þetta fólk að ná þeim þroska að hlusta á aðra?  Í okkar elstu heilræðum, Hávamálum, þá bendir höfundurinn á þau augljósu sannindi, að það eru merki um visku að hlusta og geta lært af öðrum, jafnvel þeim sem ekki teljast eins vitrir.  Nú er kominn tími til að ríkisstjórnin sanni fyrir landsmönnum að hana skipar fólk sem er í hópi "hinna vitru".  Í hópi þeirra sem kunna að hlusta.  Nú séu gömul íslensk heilræði mönnum ekki þóknanleg, enda virðist mér sem margir innan stjórnarinnar haldi að upphefðin komi að utan, þá eru til gömul kóresk heilræði um að nauðsynlegt sé fyrir stjórnvöld, ætli þau að verða vinsæl og ná árangri, að hluta á það sem ekki er sagt.  Að hlusta á undirölduna í þjóðfélaginu.  Að heyra það sem eyrað ekki nemur. Hvet ég ráðherra ríkisstjórnarinnar að hlusta á fólkið í landinu og verja hagsmuni þess.  Verði það ekki gert, þá mun róðurinn bara þyngjast og draumur Samfylkingarinnar um inngöngu í ESB að engu verða.


Endurmeta úrræði fyrir skuldsett heimili