Hvers vegna greiðsluverkfall?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.5.2009.

(Það skal tekið fram í upphafi, að ég er á engan hátt með þessari færslu að hvetja fólki til að fara í greiðsluverkfall.)

Verkfall í hvaða mynd sem er, er vopn til að ná fram rétti.  Fyrir launafólk er fá rétt greitt fyrir vinnuframlag sitt.  Í þessu tilfelli að fá fram sanngjarna úrlausn og leiðréttingu á höfuðstól lána sem sumir lánveitendur orsökuðu að hækkuðu umfram þær væntingar sem voru bæði hjá lántakanda og lánveitanda.  Ég hef hvergi séð að einn einasti banki hafi iðrast gjörða sinna hvað varðar þátttöku sína í hruni krónunnar.  NBI baðst afsökunar á hruni hagskerfisins, en mér finnst það annar hlutur.  Það hefur ekki einn einasti lánveitandi boðist til að slá af kröfum sínum.  Nei, þeir hafa frekar hótað að bæta við kröfurnar.

Mér þætti alls ekkert óeðlilegt að bankarnir byðust til að lækka vexti lánanna og draga rösklega úr vöxtum vegna yfirdráttar.  En þeir hafa engan áhuga.  Þess vegna er bara eðlilegt og sanngjarnt að þeir sem ekki sætta sig við þetta viðhorf íhugi að grípa til aðgerða.

Hvað eru margir foreldrar í þeim sporum að geta ekki farið með börnunum sínum í sumarfrí í sumar?  Eða geta ekki sett börnin sín á sumarnámskeið?  Ég spyr bara: hvort er mikilvægara að sinna fjölskyldunni eða að missa út einn eða tvo gjalddaga af láni?  Lánið má greiða seinna, en tíminn með börnunum kemur ekki aftur. Ég skil vel að fólk velji að eiga frekar gæðastund með fjölskyldunni en að láta hverja einustu krónu renna í bankann sinn.

Mér þætti fróðlegt að vita hve mikið hinar og þessar útlánastofnanir, þ.e. bankar, sparisjóðir, fjármögnunarfyrirtæki, lífeyrissjóðir og Íbúðalánasjóður, fengu í fjármagnstekjur á síðasta ári.  Ég tel gengishagnað og verðbætur til fjármagnstekna.  Mér þætti einnig fróðlegt að sjá hvernig fjármagnsgjaldahliðin lítur út, gengistap meðtalið sem og greiddar vaxtabætur.  Mér kæmi ekkert á óvart að á þessum tveimur tölum væri verulegt ójafnvægi fjármagnstekjunum í hag.

En aftur að greiðsluverkfallinu. Stórir hópar fólks og fyrirtækja eru einfaldlega komin í þá stöðu að lengra verður ekki farið.  Tekjur hafa skroppið saman, en fjármagnsgjöld og afborganir hafa tútnað út.  Hvað er þá til ráða?  Greiðsluaðlögun veðlána er ekki komin til framkvæmda og sú leið virðist vörðuð afarkostum.  Stýrivextir haldast í hæstu hæðum, þrátt fyrir að hækkun vísitölu neysluverð hafi vart verið mælanleg milli mars og apríl.  Svo kallaðir breytilegir vextir haldast í á þriðja tug prósenta og það gera dráttarvextir og yfirdráttarvextir líka.  Fólk er búið að ganga á sína varasjóði og líka varavarasjóðina.  Stjórnvöld segja bara:  "Ekki hægt, ekki hægt.  Haldið áfram að borga."

Jafnvel velstæðir einstaklingar eru komnir með bakið upp að veggnum, hvað þá hinir sem minna þéna.  Það er búið að skera niður allan óþarfa. Segja upp sjónvarpsstöðum, áskriftum blaða og tímarita, jafnvel hætt að borga hádegismat barnanna í skólanum.  Samt hækka útgjöldin.

Hugmyndin um greiðsluverkfall er ákall til stjórnvalda og fjármagnseigenda/lánveitenda að komið sé til móts við lántakendur.  Fjármagnseigendur/lánveitendur vita að forsendubrestur hefur orðið.  Þeir vita að ekki verður mjólkað lengur nema eiga á hættu að kýrin missi nitin.  Góður bóndi gengur ekki of nærri mjólkurkúm sínum.  Það er betra að slaka á kröfum til að eiga meira inni síðar. 

Fjármagnseigendur/lánveitendur tóku áhættu í útlánum sínum.  Ísland er eina landið í heiminum, sem þeir eru samt tryggðir í bak og fyrir.  Alls staðar annars staðar þá þarf fjármagnseigandinn að taka á sig tjónið líka.  Af hverju gilda aðrar reglur hér?

Stærsta ástæðan fyrir því að fólk er að hugleiða greiðsluverkfall, er að það er orðið þreytt á úrræðaleysi stjórnvalda.  Það eru þessi sömu stjórnvöld og eiga stærstu fjármálafyrirtæki landsins, þ.e. Íslandsbanka, Kaupþing, NBI (Landsbankinn) og Íbúðalánasjóð.  Í dag eru 7 mánuðir frá því að neyðarlögin voru sett og 14 mánuðir frá því að hrun krónunnar byrjaði.  Á þessum tíma hafa stjórnvöld skellt skollaeyrum við óánægjuröddum frá fólkinu í landinu um að eitthvað sé gert til að koma til móts við sífellt þyngri stöðu heimilanna.  Fólk er reitt og þreytt.  Orkan er búin.  Þess vegna er fólk að skoða möguleikann á greiðsluverkfalli.  Fyrir utan að það sér ekki tilganginn í að halda áfram að greiða, þó það (þar á meðal ég) haldi því áfram af gömlum vana.

Það eru margir gallar við greiðsluverkfall.  Sá versti er að viðkomandi kemst hugsanlega á vanskilaskrá.  Annar er að fjármagnið hættir að berast til fjármálafyrirtækjanna eða það dregur verulega úr flæðinu, sem verður til þess að staða þeirra versnar.  Ýmsir spá því að það verði til þess að bankarnir hrynji aftur og Íbúðalánasjóður fylgi á eftir í haust.  En þess frekar ættu bankarnir að reyna að semja við lántakendur og það ekki seinna en núna. 

Mikilvægi þess að semja strax felst ekki síst í því að ekki er búið að meta endanlega þau lánasöfn sem færast eiga frá gömlu bönkunum yfir í þá nýju.  Nýju bankarnir hafa því ennþá tækifæri til að bjóða lægri upphæð fyrir lánasöfnin.  Ég vil sérstaklega benda á þá rúmlega 2.900 milljarða sem verðmæti gengisbundinna lánsafna er talið vera.  Verði tenging lánanna við dagsgengi erlendra gjaldmiðla talið ólöglegt, þá er helmingur þessarar upphæðar, ef ekki meira, tapað fé.  Það er því engin ástæða til að greiða nema 30-40% fyrir þetta lánasafn.  Ef fallist verður á kröfur um forsendubrest verðtryggðra lána, þá gætu hátt í 20% þurrkast út af þeim.  Loks er eftir að meta gæði lánasafnanna upp á hversu mikið hefur þegar tapast eða á eftir að tapast vegna gjaldþrota eða yfirtöku á lánanna á niðursettu verði.  Nýju bankarnir eiga að líta á ógnina sem felst í greiðsluverkfalli sem vopn í sinni baráttu um verðmæti lánasafnanna sem færast frá gömlu bönkunum.  Nú sætti þeir sig ekki við þetta, þá er mun nær að skjóta málinu fyrir gerðardóm, en að fara í kostnaðarsöm málaferli. 

Hvernig sem málin þróast, þá er ljóst að verið er að sýna lánveitendum og ríkisstjórn Samfylkingar og VG gula spjaldið.  Það er verið að vara við því að fólk er orðið þreytt á því að það sé notað sem dyramotta.  Hvernig sem það er orðað, þá eru skilaboðin skýr til stjórnvalda:  Við komum ykkur til valda í búsáhaldabyltingunni og við getum hæglega komið ykkur frá í nýrri byltingu!


Greiðsluverkföll ekki mikið nefnd