Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.4.2009.
Ég var að koma af fundi um stöðu þjóðarbúsins, sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hélt. Frummælendur voru Haraldur Líndal Haraldsson, framkvæmdastjóri Nýsis og talnagrúskari, og Tryggvi Þór Herbertsson, alþingismaður. Auk þess tóku þátt í umræðum Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, alþingismaður, og Jón Þór Sturluson, fyrrverandi aðstoðarmaður viðskiptaráðherra. Fundurinn var vel sóttur.
Haraldur flutti fyrst framsögu sem hann nefndi Erlendar skuldir þjóðarbúsins. Var hann ákaflega vel undirbúinn og með allar tölur á hreinu. Setti hann hinar ýmsu skuldatölur í margvíslegt samhengi og verður að segjast eins og er að það var sama hvernig hann horfði á málið, það var matsmál hvort er svartara, kolsvart eða sótsvart. Áhugaverður var sá punktur hjá honum að einstakir aðilar og fyrirtæki tengd þeim skulda allt af sex sinnum það sem heimilin skulda í gengisbundnum lánum. (Án þess að hann hafi neitt fjallað um það, þá má gera ráð fyrir að almenningur verið krafinn um allt upp í topp en hinir fyrrum auðmenn þurfi ekki að borga neitt. Vissulega tapa þeir eignum sínum, en það gerir almenningur líka.) Það var annars álit Haraldar að almenningur hafi varlega í lántökur í gengisbundnum lánum.
Haraldur skoðaði útlánasöfn á Íslandi 30/9/08 eins og þau koma fram í gögnum Seðlabankans. Það er áhugavert að skoða að gengisbundin lán voru þá 2.963 milljarðar króna og höfðu hækkað um ríflega 80% frá áramótum. Áður hafði hann bent á að gengisbundin lán heimilanna hefðu verið um 156 milljarðar. Það eru því fyrst og fremst fyrirtæki sem sitja í súpunni eftir hrun krónunnar. Leggur hann til að farin verið sú leið sem Hagmunasamtök heimilanna hafa lagt til varðandi leiðréttingu þessara lána, þ.e. að höfuðstól verði breytt í verðtryggt lán frá útgáfudegi. Taldi hann að 20% lækkun dygði engan vegin til að rétta af fyrirtæki og heimili.
Tryggvi Þór var aftur ekki eins vel undirbúinn og Haraldur. Mér fannst erindi hans ruglingslegt, þar sem hann mismælti sig ítrekað og var maður ekki alveg með á hreinu stundum hvað hann var að fara. Hann sagði þó, að gert væri ráð fyrir að færa 4.000 milljarða af innlendum útlánum gömlu bankanna til þeirra nýju með 50% afslætti. Hann bjóst einnig við að stofnefnahagsreikningur nýju bankanna yrði umtalsvert minni en upphaflega var gert ráð fyrir, en tók ekki tillit til þess í tölum sínum. Líkt og Haraldur sagði hann brýnt að koma fram með raunhæfar aðgerðir í efnahagsmálum og sérstaklega að taka á sívaxandi vanda fyrirtækja og heimila.
Þá kom að pallborðsumræðum. Sigríður Ingibjörg byrjað á því að lýsa því yfir að hún væri alveg rugluð á öllu talnaflóðinu. Það var nú ekki það eina sem hún átti erfitt með, því ég held að fátt hafi komið rétt út hjá henni nema mantran sem hún var beðin um að fara ekki með, þ.e. "ESB-aðild bætir allt". Hún sagði þó eitt sem var mjög áhugavert og skýrir þá miklu áherslu sem ESB-flokkurinn, fyrirgefið Samfylkingin, leggur á inngöngu. Hún sagði: "Það hafa komið skilaboð frá Brussel, að ef við hefjum aðildarviðræður, þámun ESB hjálpa okkur við að styðja við krónuna." Einnig tók hún fram að almenningur ber ekki ábyrgð á hruninu, en mun samt ekki komast hjá því að borga!
Jón Þór Sturluson er snillingur í að leika af sér. Hann blammeraði fundarmenn með því að segja alla vitlausa sem hefðu tekið gengisbundin lán og þegar hann reyndi að taka það til baka, þá kom ennþá verri blammering. Ég verð að segja, að ég hef það fram yfir hann að vera bara vitlaus, samkvæmt þessari skilgreiningu hans. Hann er bæði vitlaus og glæpsamlega vanhæfur. Við skulum hafa í huga að þetta er maðurinn sem var aðstoðarmaður viðskiptaráðherra í aðdraganda bankahrunsins. Miðað við árangur hans í starfi, þá er vanhæfi hans til að gegna svo ábyrgðarfullu starfi æpandi. Að því slepptu, þá taldi hann skynsamlegt að færa útlán yfir í nýju bankana miðað við greiðslugetu, en sagði það ekki sitt að útfæra það nánar. Hann væri jú hættur sem aðstoðarmaður viðskiptaráðherra.
Tryggvi ítrekaði, það sem hann hefur sagt áður, að jafnvægisgengi íslensku krónunnar væri í kringum 150, þ.e. gengisvísitalan. Hann benti líka á, að trúverðugleikinn verði ekki úthýstur og skaut þar föstuskoti á Sigríði "ESB-aðild bjargar okkur" Ingadóttur. Tók hann sem dæmi að lánshæfismat Slóvakíu hefði lækkað við upptöku evrunnar. Hafa yrði í huga að krónan væri einkunnarbókin okkar. Við bætum ekkert einkunnirnar okkar með því að skipta um bók. Tryggvi mótmælti svo misheppnuðum brandara Jóns um að þeir sem tók gengisbundin lán hafi verið vitlausir og sagði að fólk hafi stuðst við forsendur sem stjórnvöld og bankarnir höfðu gefið. Það sé hreint og beint óréttlátt að væna fólk um heimsku, þegar þannig sé í pottin búið.
Vilhjálmur Þorsteinsson tók til máls og hélt því fram að skuldir bankanna lendi ekki á okkur heldur kröfuhöfum. Í mínum huga er það ekki alveg rétt. Vegna þess hve kröfuhafar þurfa að afskrifa mikið vegna bankanna, þá verða þeir tregari til að afskrifa hluta af skuldum almennings og fyrirtækja. Þess vegna lenda skuldir bankanna á okkur í hærri greiðslubyrði okkar lána en annars hefði orðið.
Mín skoðun á þessum fundi er að þingmennirnnir okkar nýju lofa ekki góðu. Sigríður kom varla einni setningu frá sér óbrenglaðri, nema hún innihéldi "ESB-aðild bjargar öllu". Hún var á einum tímapunkti beðin um að skýra út hvað ætti að gera, eins og fyrirspyrjandinn væri 6 ára. Það var henni gjörsamlega fyrirmunað. Nú eftir að hafa hlustað á Jón Þór, þá skil ég bara mjög vel að bankarnir hafi getað gert hvað sem er. Tryggvi var eitthvað taugaóstyrkur og náði sér ekki á strik. Sá eini sem var með allt á hreinu, var Haraldur. Munurinn á honum og hinum þremur, er að hann rekur fyrirtæki og er því á hverjum degi að kljást við afleiðingar vanhæfni hinna.