Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 25.9.2009.
Í dag er eitt ár frá því formaður bankaráðs Glitnis fór á fund formanns bankastjórnar Seðlabanka Íslands. Þessi skref, sem þá voru stigin, verða að teljast einhver örlagaríkustu skref Íslandssögunnar. Ekki það, að það sem á eftir fylgdi hefði mátt forðast. Að því munum við aldrei komast. En þarna hófst atburðarrás sem engan óraði fyrir.
Ég hef nokkrum sinnum gert tilraun til að greina hvað varð til þess, að íslenskt fjármálakerfi lagðist á hliðina dagana 6. - 8. október 2008. Langar mig að gera það enn og aftur í nokkrum færslum á næstu dögum. Ég tel mig hafa að nokkru leiti aðra sýn á málin vegna starfa minna sem ráðgjafa á sviði áhættu- og öryggisstjórnunar og mun það marka greiningu mína. Þetta er til gamans gert og ég er viss um að einhverjir verða ekki sammála mér. Ef einhverjir hafa ábendingar eða upplýsingar sem þeir telja að gott væri að koma fyrir sjónir almennings, en vilja ekki gera það í eigin nafni, þá er viðkomandi velkomið að senda mér tölvupóst á mgn@islandia.is og ég mun sjá hvort ég geti fellt það inn í greiningu mína.
Þau atriði sem ég tel skipta máli og hafa orðið til þess að allt hrundi hér í október 2008 má skipta upp í eftirfarandi:
Mistök í peningamálastjórnun Seðlabanka Íslands allt frá því áður en krónan var sett á flot í mars 2001.
Mistök við einkavæðingu Búnaðarbanka Íslands og Landsbanka Íslands.
Meingallað regluverk fjármálakerfisins, þ.m.t. fyrirkomulag eftirlits með fjármálafyrirtækjum
Basel II regluverkið um eiginfjárhlutfall og áhættustjórnun fjármálafyrirtækja, röng innleiðing þess og framkvæmd bæði hér á landi og erlendis
Alvarlegar brotalamir í starfsemi matsfyrirtækjanna
Mistök í áhættustjórnun erlendra fjármálafyrirtækja sem veittu íslensku bönkunum aðgang að lánsfé
Mistök eða vanmat í áhættustjórnun íslensku fjármálafyrirtækjanna
Vöntun á verklagi við stjórnun rekstrarsamfellu hjá fjármálafyrirtækjum, fyrir utan kannski hjá upplýsingatæknisviðum fyrirtækjanna.
Djörfung og fífldirfska stjórnenda og eigenda (tengist 7 og 8)
Hrein og klár fjársvik eigenda bankanna vegna þess að þeir voru jafnframt stærstu lántakendur
Vanhæfni íslenskra stjórnmálamanna (og embættismanna, þ.m.t. SÍ og FME) til að takast á við og halda utan um sístækkandi bankakerfi