Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.8.2009.
Gylfi Magnússon virðist ekki hrifinn af almennri niðurfærslu skulda. Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna viljum ekki kalla þetta niðurfærslu heldur leiðréttingu. Það var nefnilega brotist inn til okkar og stolið af okkur háum upphæðum og við tekjum okkur ekki eiga bera tjónið. Það þótti ekkert tiltökumál að nota háar upphæðir af skattpeningum almennings í að vernda innistæður í bönkunum, ekki bara höfuðstólinn heldur líka vextina, en það fer allt á annan endann ef leiðrétta á lán landsmanna eftir að bankarnir þrír fóru ránshendi um eigur fólks. (Það segja örugglega einhverjir að skattpeningarnir hafi ekki verið notaðir til að verja innstæðurnar, það komi frá lánadrottnum bankanna. En hvers vegna koma leiðréttingar á lánum frá skattborgurum, en ekki 1.170 milljarðarnir sem fóru í vernda innistæðurnar?)
Hagsmunasamtök heimilanna hafa farið fram á LEIÐRÉTTINGU á höfuðstóli lána heimilanna, þar sem ránsfénu er skilað. Verðbólga síðustu tveggja ára er nær eingöngu vegna fjárglæfra Glitnis, Landsbankans og Kaupþings. Fall krónunnar er eingöngu vegna þessara fjárglæfra. Bankarnir þrír veðsettu þjóðina upp fyrir haus með óábyrgum útlánum til eigenda sinna og einkavina. Það þarf ekki annað en að fletta blöðunum til að lesa um þetta. Og þegar kvótinn var fullur hjá einum banka, þá fóru þeir í næsta banka. Menn stóðu nefnilega saman í sukkinu.
Nýju bankarnir gera ráð fyrir því að afskrifa 2.800 milljarða af innlendum útlán sínum samkvæmt bráðabirgða efnahagsreikningum bankanna. TVÖ ÞÚSUND OG ÁTTA HUNDRUÐ MILLJARÐA. Ef farið yrði að kröfum Hagsmunasamtaka heimilanna var samkvæmt útreikningum samtakanna gert ráð fyrir leiðréttingu upp á 206 milljarða. Af þessum 206 milljörðum reiknuðum við með að 60% væri þegar tapað fé, þ.e. mun aldrei innheimtast, restin 82 milljarðar væri að mestu innheimtanlegt, en félli samt undir forsendubresti og fleira. Nú höfum við frétt að við yfirfærslu lánasafna heimilanna frá gömlu bönkunum til þeirra nýju væri gert ráð fyrir að verðtryggð lán yrðu færð yfir á 80% af virði og gengistryggð lán á 50% af virði. Þetta er því nær því að vera 30-35% niðurfærsla lánanna, sem gerir afskriftir upp á að minnsta kosti 300 milljarða, ef ekki nær því að vera 500 milljarðar. Neytendur gera að sjálfsögðu kröfu um að þessar afskriftir renni til þeirra.
En fyrirsögnin vísar í hugmynd talsmanns neytenda um gerðardóm. Af hverju hefur þessi hugmynd ekki fengið umræðu? Í viðræðum við bankamenn, eru allir sammála um að grípa verður til almennra aðgerða. Þær þurfa ekki að vera eins fyrir alla, en til þess að hægt sé að ákvarða hvað þarf fyrir hvern hóp, þá þarf að eiga sér stað greining. Gerðardómur talsmanns neytenda fjallar einmitt um þetta og því hvet ég til þess að horft verði betur til þeirrar hugmyndar. Hagsmunasamtök heimilanna styðja þá hugmynd, þó svo að það gæti haft í för með sér að kröfur samtakanna nást ekki að fullu. Í viðræðum við starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðinn í gær, þá kom fram að þessa hugmynd mætti vissulega skoða, þar sem hún felur ekki í sér almennar aðgerðir óháða stöðu skuldara. Hvet ég Gylfa Magnússon, Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingrím J. Sigfússon til að boða talsmann neytenda á sinn fund og ræða þessa hugmynd hans betur. Það er ekki hægt að afgreiða allt sem ómögulegt eða nota hin fráu orð félagsmálaráðherra "ekkert í mannlegu valdi getur.." Það er nefnilega málið, að á meðan málin eru ekki rædd á vitrænum grunni með ÖLLUM hagsmunaaðilum, þá fæst ekki vitræn niðurstaða. Vinna saman að lausn. Ekki afskrifa hugmyndir án umræðu.