Glöggt er gests auga

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.8.2009.

Anne Sibert skrifar grein á fræðivefnum Vox, þar sem hún bendir á ýmsa veikleika sem hún telur vera hættumerki fyrir okkur Íslendinga.  Mér virðist sem sumir Íslendingar eigum erfitt með að samþykkja eða meðtaka ábendingar sem til okkar berast frá henni.  Auðvitað er það rétt, að þjóð þarf að vera af ákveðinni stærð til að geta verið sjálfstæð.  Hagkerfið þarf að vera af ákveðinni stærð til að geta borið sjálfstæðan og fljótandi gjaldmiðil.  Þetta er heilbrigð skynsemi.  Af hverju geta menn ekki bara tekið þessi ummæli hennar sem innlegg í umræðuna í staðinn fyrir að fara í blússandi vörn.  Við verðum að geta farið í naflaskoðun.

Ég lærði það í mínu námi að mikilvægustu spurningarnar eru "hvað ef" spurningar.  "Hvað ef þetta gengur ekki upp?"  "Hvað ef þetta bregst?"  "Hvað ef forsendurnar eru rangar?"  Þetta er það sem ég er að fást við í dag.  Áhættugreining, áhættumat, áhættustjórnun, grípa inn í ferli, brjóta þau upp, finna úrræði, leggja til úrlausnir.  Ef við erum ekki tilbúin að rengja gögnin, storka því viðtekna, neita að sætta okkur við hið vitlausa, þá rúllum við bara niður brekkuna og þurfum að byrja upp á nýtt.

En það er einmitt þetta sem mér virðist hafa skort hvað mest undanfarna mánuði og ár.  Það er að vefengja upplýsingar, storka hinu viðtekna, velta fyrir sér hvað gæti farið úrskeiðis og núna eftir að allt fór úrskeiðis, þá vantar að menn viðurkenni að þeir hafi gert vitleysu.  Nei, Kaupþing gerði allt rétt.  Davíð gerði ekkert rangt.  Landsbankinn fór rétt að öllu.  Björgólfarnir gerðu allt óaðfinnanlega.  Miðað við þetta, þá er bara furða að við allt hafi hrunið.  Það axlar enginn ábyrgð.  Það gerði enginn mistök.

Ég held að það gæti verið gott, ef Anne Sibert segði sig úr peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands svo hún gæti sagt okkur meira.  Gæti komið fram með meiri gagnrýni og fleiri ábendingar.  Við þurfum fleiri eins og hana, sem geta horft á alla flækjuna úr fjarlægð án þess að vera tilfinningalega tengdir vitleysunni hérna.


Segir Davíð hafa skort sérfræðiþekkingu