Brýnt að grípa til aðgerða strax

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.8.2009.

Heimilin í landinu hafa í nærri tvö ár mátt líða fyrir hækkun höfuðstóls lán vegna verðbólgu og lækkandi gengis krónunnar.  Fyrir ári var staðan orðin svo slæm að Íbúðalánasjóður ákvað að kynna ýmsar aðgerðir fyrir heimili í greiðsluerfiðleikum og síðan hefur ástandið bara versnað.  Í október kynnti talsmaður neytenda þáverandi félagsmálaráðherra tillögur sem miðuðu að því að draga úr greiðslubyrði lántakenda.  Ekkert gerðist þá.  Fjölmargir aðilar skoruðu á næstu vikum og mánuðum á fjármálastofnanir og stjórnvöld að gera eitthvað til styrktar heimilunum, en fátt gerðist.  Það var ekki reynt að sporna gegn auknu atvinnuleysi eða tekjusamdrætti heimilanna.  Stjórnvöld stóðu máttvana frammi fyrir veikingu krónunnar og verðbólgunni sem því fylgdi.

Það var í þessum jarðvegi sem Hagsmunasamtök heimilanna urðu til.  Markmið samtakanna var og er að lán heimilanna verði leiðrétt, þannig að verðbætur umfram verðbólgumarkmið Seðlabanka Íslands verði bakfærðar og að gengistryggðum lánum verði breytt í verðtryggð lán frá lántökudegi.  Samtökin telja þessar kröfur sanngjarnar í ljósi þeirra upplýsinga sem komið hafa fram á undangengnum mánuðum um það sem er ekki hægt að kalla neitt annað en sukk og svínarí fjármálafyrirtækja og eigenda þeirra.  Hreiðar Már sagðist ekki þurfa að biðja þjóðina afsökunar, en þar skjátlaðist honum.  Hann og hans líkar hafa lagt hagkerfið í rúst.  Hann og hans líkar hafa með óábyrgum aðgerðum veikt krónuna og steypt þjóðfélaginu í botnlaust skuldahít. Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna viljum að hin nýju afsprengi fjármálafyrirtækjanna, sem settu allt í uppnám, bæti heimilunum í landinu þann skaða sem Hreiðar Már og hans nótar ollu okkur.

Það er alveg á hreinu að uppbygging íslensks samfélags getur ekki átt sér stað nema heimilin taki þátt í henni.  Þau gera það ekki við núverandi aðstæður.  Tekjutap heimilanna í kjölfar hruns bankanna hefur verið gríðarlegt.  Sífellt stærri hluti ráðstöfunartekna fer í afborganir lána sem eru í engu samræmi við þær forsendur sem lágu að baki lántökunni.  Höfum í huga að báðir aðilar vissu um þessar forsendur og það leysir ekki lánveitandann undan ábyrgðinni að "shit happens".  Í þessu tilfelli var annar samningsaðilinn 100% ábyrgur fyrir því sem gerðist, þ.e. lánveitandinn, og það er því óeðlilegt að hinn aðilinn eigi að bera tjónið.  Þessu til viðbótar, þá eru nýju afsprengin að taka lánasöfnin yfir með verulegum afslætti sem eðlilegt er og sjálfsagt að gangi til lántakenda.  Raunar hef ég vissu fyrir því, að erlendir kröfuhafar séu mjög óánægðir með þá ætlun nýju bankanna að innheimta öll lán að fullu, þrátt fyrir að hafa fengið þau með afslætti.

Uppbyggingin verður ekki nema með hjálp heimilanna.  Það eru jú heimilin sem bera ábyrgð á stórum hluta neyslu í samfélaginu, leggja ríki og sveitafélögum til tekjur og eru öflugur þátttakandi í fjárfestingum.  Sá samdráttur sem hefur orðið í þessum liðum gerir ekkert annað en að auka á kreppuna.  Því er brýnt að snúa þessu við.  Það verður ekki gert meðan greiðslubyrði lánanna þyngist.  Það verður ekki gert meðan sífellt stærri hluti heimilanna þarf að draga úr neyslu og stöðva allar fjárfestingar. 

Ávinningurinn af því að leiðrétta lán heimilanna er langt umfram þann hugsanlega kostnað sem af því yrði.  Þetta hafa hagfræðingar og ráðamenn víða um heim áttað sig á.  Þetta höfum við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna fyrir löngu áttað okkur á.  Nú er kominn tími til þess að íslensk stjórnvöld átti sig líka á þessu.

Það eru til margar leiðir til að leiðrétta lán heimilanna.  Talsmaður neytenda stakk upp á gerðardómi.  Hagsmunasamtök heimilanna hefur stutt þá hugmynd.  Önnur leið er að fara með prófmál fyrir dómstóla og sjá hver niðurstaðan verður.  Við erum sannfærð um að heimilin munu vinna þau mál.  T.d. banna lög nr. 38/2001 tengingu íslenskra fjárskuldbindinga við dagsgengi erlendra gjaldmiðla.  Hvort sem við látum reyna á hugmynd talsmanns neytenda eða förum einhverja aðra leið, þá eru orð til alls vís.  Hagsmunaaðilar á báðum hliðum þessa máls verða að hittast og ræða þetta í alvöru.  Við höfum ekkert að gera við viðmælendur sem telja sig ekkert geta gert (sbr. ummæli félagsmálaráðherra um að ekkert í mannlegu valdi geti leiðrétt lánin) og hlustum ekki á "þetta er ekki hægt".  Það er nefnilega þannig, að sé viljinn fyrir hendi, þá má finna sameiginlega lausn.


Ræða stöðu heimilanna