Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 19.6.2009.
Hún er sérkennileg forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, þegar kemur að niðurskurði ríkisútgjalda. Fyrsti hópurinn sem ráðist er á með niðurskurðarhnífnum er gamla fólkið og öryrkjarnir. Sá skattur sem þessir hópar þurfa að sitja uppi með er ekki 8%, eins og þeir tekjuháu þurfa að bera. Nei, hann mælist í tugum prósenta. Já, þau eru lítilmannleg ráðin sem jafnmenn og félagshyggjuöflin búa yfir.
Frítekjumark ellilífeyrisþegar er skert um 60%! Já, 60% og ekki er lengur hægt að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar". Þessi 60% eiga nú að skerða tekjutryggingu sem nemur 38,35% og það er ekki gert eftir skatta, heldur áður en skattar eru reiknaðir. Sá sem hefur nýtt sér upphæðina að fullu, þ.e. jafngildi 100.000 á mánuði, er skattlagður sem nemur 38.35% af 60.000 kr. eða sem nemur 23.010 kr. á mánuði. Þessi einstaklingur fær því 23% "ellilífeyrisþegaskatt" á 100.000 kr. tekjur. Já, þau eru breið bökin sem ellilífeyrisþegarnir hafa. Hver áhrifin verða af því að afnema möguleikann á því að "telja 60% af atvinnutekjum til tekna við útreikning tekjutryggingar" er óljós í krónum talið en "lífeyrisþegaskatturinn" er 23%.
Og eins og þessu sé þá lokið. Nei, aldeilis ekki. Greiðslur úr "skyldubundnum atvinnutengdum lífeyrissjóðum" undir 300.000 kr. skertu ekki tekjutryggingu áður, en nú á að lækka þessa upphæð um 60%! Aftur er skellt 23% "lífeyrisþegaskatti" á tekjur þeirra sem hafa minnst milli handanna.
Úps! Í bráðabirgðaákvæði V. við bandorminn er lætt inn nýrri skerðingu. Skerðing vegna tekna er hækkuð úr 38,35% í 45%, þannig að skatturinn er ekki 23% heldur er "lífeyrisþegaskatturinn" 27%. Er ekki í lagi hjá félagsmálaráðherra? Á það að vera réttlæting að þetta var svona 2007. Hættið þessu bulli og takið ykkur saman í andlitinu. Kannski væri rétt að skikka þá sem samþykkja þessa vitleysu til að lifa á þeim tekjum það ætlar öðrum.
Nú aldurtengd örorka á að skerðast. Höfum í huga að sá hluti hópsins, sem kemur verst út úr þessu, eru þeir sem greindust fyrst með örorku og hafa því lengst verið öryrkjar. Þetta er fólkið sem á minnst réttindi í lífeyrissjóðum og fá minnstar greiðslur vegna örorku sinnar. Furðuleg er forgangsröðunin.
Ég veit ekki alveg hvað félagsmálaráðherra gengur til með þessu, en Jóhönnu Sigurðardóttur hlýtur að svíða að sjá sína fyrrverandi skjólstæðinga eiga að borga brúsann. Samkvæmt öllum gögnum er þetta sá tekjuhópur sem stendur verst. Í nýlegum tölum Seðlabankans, þá er þetta sá hópur sem er með hæstu greiðslubyrði sem hlutfall af tekjum. Að öllum líkindum er þetta sá hópur, sem varla getur séð sér farborða. Ég spyr bara: Er það markmið ríkisstjórnarinnar að auka á örbirgðina meðal þessa hóps?
Gleyma menn því, að á annan tug þúsunda ellilífeyrisþega tapaði stórum hluta að ævisparnaði sínum við fall bankanna. Fólk sem hafði safnað af eljusemi og fylgt góðum ráðum um að leggja sparnaðinn í "trygg" hlutabréf bankanna. Fyrst er það svipt eigum sínum og síðan eru tekjurnar skornar niður fyrir hungurmörk.
En hvað þýða þessar skerðingar hjá lífeyrisþegum í krónum og aurum? Ríkissjóður ætlar að spara sér 1.830 milljónir á þessu ári og 3.650 milljónir á næsta ári eða alls 5.480 milljarða á tveimur árum. Auk þess á að spara 1.000 milljónir í barnabætur og 3.040 milljónir í sjúkratryggingar, þó ekki sé skýrt út í lögunum hvernig þær tölur eru fengnar! Til samanburðar er áætlað að hátekjuskattur hafi svipuð áhrif og "lífeyrisþegaskatturinn". Fólkið sem minnst má sín á að bera jafnmiklar byrðar og það sem hæstar tekjurnar hefur. Hún er stórmerkileg þessi jafnaðarmennska Samfylkingarinnar!
Ég verð að viðurkenna, að ég veit ekki hverju ríkisstjórnin ætlar að áorka með sumum af þessum skerðingum hjá lífeyrisþegum. Margir þeirra standa verulega höllum fæti í samfélaginu og með þessu aðgerðum er staða þeirra gerð ennþá verri. Það eru takmörk fyrir því hversu oft er hægt að hafa núðlur og spagettí í matinn, en fyrir mörgum liggur ekki annað fyrir. Greiðslubyrði lána hefur hækkað mikið og það hefur flest allt annað gert líka. Samkvæmt upplýsingum frá Seðlabankanum greiða tekjulægstu hóparnir í þjóðfélaginu hlutfallslega mest af tekjum sínum í afborganir af föstum lánum. Einstaklingur sem er með 150 þúsund í ráðstöfunartekjur og greiðir 30% í fastar greiðslur lána má ekki við því að tekjurnar skerðist nokkurn skapaðan hlut. Hjón (t.d. ellilífeyrisþegar) með 250 þúsund í ráðstöfunartekjur og 30% greiðslubyrði mega heldur ekki við skerðingu. Samt gerir ríkisstjórnin ráð fyrir að þetta fólk eigi að lifa á lægri tekjum en áður.
Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands eru um 50% þeirra sem eru með ráðstöfunartekjur á bilinu 150 - 250 þúsund á mánuði að greiða meira en 30% af ráðstöfunartekjum sínum í fastar afborganir lána. Ekki er vitað hver staðan er hjá þeim allra tekjulægstu, þar sem Seðlabankinn birti ekki þær tölur! Nú segir einhver að ekki séu það mörg heimili með undir 250 þúsund í ráðstöfunartekjur, en það er rangt. Samkvæmt tölum Seðlabanka Íslands voru 49% heimila í úttekt Seðlabankans um stöðu heimilanna með 250 þúsund eða minna í ráðstöfunartekjur á mánuði í febrúar 2009. Já, 49% heimila voru í tveimur lægstu tekjuhópum þjóðfélagsins. Önnur 17% voru með ráðstöfunartekjur á bilinu 250 - 350 þúsund. Það virðast helst vera hjón með börn sem ná því að vera með 500 þúsund eða meira í ráðstöfunartekjur, en helmingur þeirra ná þeim tekjum.
Úrræði ríkisstjórnarinnar er alvarlega aðför að velferðarkerfinu. Úrræðin leggja fjölmargar nýjar fátæktargildrur í leið þeirra sem eru á fullu að forðast þær sem fyrir eru. Ég skil vel að loka þurfi fjárlagagati þessa árs og næstu ára, en í þetta sinn helgar tilgangurinn ekki meðalið. Það hljóta að vera aðrar leiðir til að ná í þessa 5,4 milljarða en að níðast á þeim sem minnst mega sín.