Ekkert fyrir heimilin - Þeim á að blæða út

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 10.5.2009.

Í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar er ekkert sem gefur til kynna að taka eigi á einn eða neinn hátt á vanda heimilanna.  Þar er stutt innihaldslaus klausa sem hefði alveg eins get hljómað bla, bla, bla.  En klausan er sem hér segir:

Skuldastaða heimila – velferðin varin

Ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á að verja heimilin í landinu og velferðina sömuleiðis. Það verður gert með því að fylgjast grannt með skuldastöðu almennings og grípa til ráðstafana eftir því sem við á. Ráðgjafastofa heimilanna verður efld og ráðist í að kynna betur þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til. Ríkisstjórnin mun í allri vinnu sinni leitast við að verja velferðarkerfið eins og framast er kostur.

Hafi ríkisstjórnin ekki ennþá áttað sig á hversu slæm skuldastaða heimilanna er, þá munu henni ekki duga 100 dagar í viðbót eða 1000 dagar.  Ég held að þau Jóhanna og Steingrímur hafi bara ekki grænan grun um hvað er að gerast í samfélaginu. Sorgleg staðreynd.

Ég hef svo sem ekki séð þennan 100 daga verkefnalista, en í stjórnarsáttmálanum segir:

100 daga áætlunin

Ríkisstjórnin gerir sér grein fyrir því að miklu skiptir að unnið sé hratt til að bregðast við þeim vanda sem við þjóðinni blasir. Hún hefur því sett sér markmið sem hún ætlar að ná á næstu 100 dögum sem fela meðal annars í sér að afgreiða forsendur fjárlaga til millilangs tíma, hefja lokavinnu við Icesave – samningana, ná samningum við aðila vinnumarkaðarins um stöðugleikasáttmála, endurfjármagna bankana og semja við erlenda kröfuhafa þeirra, leggja fram frumvörp um stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur og persónukjör, ráða nýja yfirstjórn í Seðlabanka Íslands, hefja mótun nýrrar atvinnustefnu og hefja endurskoðun fiskveiðistjórnunarkerfisins svo nokkur atriði séu nefnd. Áfram verður unnið að verkefnum sem ríkisstjórnin hefur áður kynnt, þar á meðal endurskoðunar peningamálastefnunnar á vegum Seðlabanka Íslands og hann hefur líka það verkefni að fjalla um framtíð verðtryggingarinnar. Jafnframt verður haldið áfram vinnu við endurskipulagningu bankakerfisins og aðrar þær aðgerðir sem verða munu til að efla traust á fjármálakerfinu.

Mér sýnist sem heimilin hafi gleymst.  Önnur sorgleg staðreynd.

Óbreytt stjórnskipan