Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fjármálafyrirtækja og slæmrar efnahagstjórnunar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.5.2009.

Ég bið stjórnvöld og fjármálastofnanir vinsamlegast um að hugleiða eftirfarandi orð vandlega og grípa til aðgerða í samræmi við innihald þeirra:

Heimilin eru ekki botnlaus sjálftökusjóður fjármálafyrirtækja og slæmrar efnahagsstjórnunar.

 

Þessi orð komu fram hjá stjórnarmanni Hagsmunasamtaka heimilanna á stjórnarfundi í kvöld.  

Við þetta vil ég bæta:

Í ljósi stefnuyfirlýsingar ríkisstjórnarinnar, þá virðist sem stjórnvöld telji að nóg sé að lækka greiðslubyrði lána.  Ég spyr: Er það virkilega svo, að greiðslubyrðin ein skiptir máli?  Það er rugl.  Það er ekki síður eignarmyndun fólks í fasteignum sínum og hve lengi fólk er að greiða sem skiptir máli.  Það þarf að verja eigið fé fólks, en í stað  þess að setja það í skuldaklafa um aldur og ævi.  Að koma greiðslubyrðinni niður er skammtímalausn.  Að leiðrétta höfuðstólinn er langtímalausn og réttlætismál. 

Þeir sem vilja ekki leiðréttingu sinna mála þurfa ekki að þiggja eðlilega, sjálfsagða og réttláta leiðréttingu.  Við hin krefjumst hennar og munum einnig þiggja það sem aðrir vilja ekki.  Við ætlum ekki að láta þá, sem láta flokkspólitíska rétthugsun blinda sér sýn, stöðva okkur í leit okkar að réttlæti.

Þó svo að greiðslubyrðin hafi með fálmkenndum úrræðum ríkisstjórnarinnar verið lækkuð til skamms tíma, þá munu langtímaáhrifin verða mikil.  Ef einstaklingur/heimili þarf að borga milljón á ári (á núvirði) tíu árum lengur en ella, þá skerðir það neyslugetu viðkomandi þessi tíu ár.  Það heldur aftur af hagvexti, fjárfestingum og atvinnusköpun og dregur úr tekjum ríkisins, velferðinni í þjóðfélaginu og lífsgæðum fólks.  Hvernig væri að hugsa eitthvað lengra en bara að næstu afborgun lána?