Finnur segir mörg fyrirtæki ekkert til sakar unnið, en hvað með hin?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.8.2009.

Stundum geta menn óvart sagt eitthvað sem líklegast var ekki ætlunin að segja.  Visir.is vitnar í Finn Sveinbjörnsson, bankastjóra Nýja Kaupþings, þar sem hann talar um lánabók Kaupþings sem lekið var á netið.  Í fréttinni segir:

Finnur Sveinbjörnsson bankastjóri Kaupþings segir bankanum skylt samkvæmt lögum að verja trúnaðarupplýsingar um viðskiptavini bankans. Mörg félög séu á þessum lánalista sem hafi ekkert til saka unnið.

Ég veit ekki hvort þetta eru nákvæmlega hans orð eða hvort þetta eru orð blaðamannsins, en ég get ekki annað en velt því fyrir mér hvort bankastjórinn er að viðurkenna að margt í lánabókinni gera meira en að orka tvímælis.  Þ.e. að þar séu fyrirtæki sem hafi unnið sér eitt og annað til sakar.

Ég hef ekki nennt að lesa í gegnum skjalið sem lekið var á netið, en ef eitthvað er að marka fréttaflutning, þá hefur sjálftaka stærstu eigenda Kaupþings, þá meina ég bæði þeirra sem áttu beint í Kaupþingi og þá sem áttu í Exista eða öðrum félögum sem áttu stóran hlut í Kaupþingi, var grófari og umfangsmeiri en sjálftaka eigenda annarra banka.  Var hún þó gróf og umfangsmikil.

Það er því miður að koma betur og betur í ljós, að útlán bankanna til aðila í eigendahópi þeirra var mjög mikil og verulega gróf.  Menn gerðu allt til að hylja slóð sína og reyndu margt til að sneiða fram lögum og reglum.  Brotaviljinn var mikill.  Fyrir þetta er íslensku þjóðinni að blæða í dag.

Hvernig stendur á því að menn gerður þetta og hvernig stendur á því að menn komust upp með þetta?  Þetta er vonandi það sem sérstakur saksóknari er að rannsaka, en hluta af skýringunni hlýtur að vera að finna í því að menn reyndu hvað þeir gátu til að hylja slóð sína.  Líklegast var regluvarsla bankanna í molum og innra eftirlit ekki nógu sterkt.  Síðan má ekki gleyma því, að Fjármálaeftirlit var einfaldlega of máttlítið til að sinna lögbundnu eftirlitshlutverki sínu.  Ef lítil lífeyrissjóður gat blekkt FME, eins virðist hafa gerst í Kópavogi, þá getum við bara ímyndað okkur hvað stórir bankar með fjölmennt starfslið gætu gert, ef vilji hefði verið fyrir hendi.  En hluti af vandanum var líka sú aðferðafræði sem FME beitti.  Eins og ég þekki til, þá byggði eftirlit FME mjög mikið á skýrsluskilum í stað skyndiheimsókna.  Skýrsla er eins og ljósmynd, hún sýnir ástandið á þeim tíma sem skýrslan er samin.  Skilvirkt eftirlit verður að byggjast á sögu, þ.e. kvikmynd, þar sem þróun yfir ákveðinn tíma er skoðuð.  T.d. dagleg staða í heila viku, einn mánuð eða lengri tíma.  Vissulega er slíkt eftirlit tímafrekara, en það hefði komið í veg fyrir margt af því sem fór úrskeiðis.

En aftur að Finni og frétt visir.is.  Ég held að það sé alveg rétt, að mörg þeirra fyrirtækja, sem eru í lánabókinni unnu sér ekkert til sakar, en önnur gerðu það augljóslega.  Í mínum huga eiga þau engan rétt á leynd.  Þetta eru aðilarnir sem settu þjóðfélagið á hliðina og það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að vita hverjir það voru.  Það sem meira er.  Það er nauðsynlegt fyrir þjóðina að vita hvaða starfsmenn Kaupþings (líka Landsbankans og Glitnis) samþykktu þessar lánveitingar og hverjir aðrir komu að undirbúningi þeirrar vinnu.  Þetta er nefnilega fólkið sem ber mesta ábyrgð á falli íslenska hagkerfisins og það þarf að svara fyrir gjörðir sínar.