Gott framtak hjá ríkistjórninni, en rangar tölur hjá Gylfa

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.7.2009.

Það ber að fagna framtaki ríkisstjórnarinnar varðandi viðræður við bílafjármögnunarfyrirtækin um gengisbundin bílalán.  Ég vil þó taka varann á að tala um "erlend bílalán", því ég kannast ekki við að slík lán hafi verið í boði hér á landi.  Lánin voru "skuldbindingar í íslenskum krónum með tengingu við dagsgengi erlendra gjaldmiðla".  Samkvæmt greinargerð með frumvarpi að lögum nr. 38/2001, þá voru slíkar tengingar ekki heimilar:

Samkvæmt 13. gr. og 1. mgr. 14. gr. frumvarpsins verður ekki heimilt að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við dagsgengi erlendra gjaldmiðla

Hvort sem lánin voru lögleg eða ekki, þá þarf að greiða úr vanda fyrirtækjanna (séu lánin ólögleg) eða lántakenda (séu lánin lögleg).  Reikna má með að þessi lán endi fyrir dómstólum hafi ekki komið niðurstaða, sem allir fella sig við, áður en til þess kemur.

Samkvæmt frétt mbl.is fullyrðir Gylfi að 11% heimila greiði meira en 30% af ráðstöfunartekjum í bílalán.  Þar vitnar Gylfi í upplýsingar frá málstofu Seðlabankans 11. júní sl.  Það sem Gylfi tekur ekki tillit til, er að Þorvarður Tjörvi Ólafsson, sérfræðingur Seðlabankans, hefur viðurkennt að inni í þessum tölum er stór hluti bílalána heimilanna í frystingu, þ.e. fólk greiddi ekkert af þeim á þeim tíma sem tölfræði Seðlabankans nær til.  Ef við gerum ráð fyrir að um helmingur heimila hafi nýtt sér möguleika á frystingu eða skilmálabreytingu lánanna, þá fer þetta hlutfall úr 11% í 35% eða jafnvel ennþá hærra.  Vegna þess hve stór hluti lána var í frystingu í tölfræði Seðlabankans, þá er í raun lítið á þeim að græða nema sem algjör neðri mörk á stöðu mála.


115 milljarða erlend bílalán

Í athugasemd fékk ég spurningu: “Þú s.s. vilt meina að lántakandi geti í felstum tilfellum, m.v. þessa lagagrein sem þú vísar í, gert kröfu á lánveitanda að breyta þessu láni frá upphafslánstíma í ISK lán eða hreinlega fellt lánið og jafnvel skilað bílnum þar sem þetta er ólögleg aðgerð bílafjármögnunarfyrirtækjanna?

Þessu svaraði ég: “..ég veit eiginlega ekki hvernig er best að leysa úr þessu.  Líklegast verður lánið ekki dæmt ólöglegt, heldur tengingin við "dagsgendi erlendra gjaldmiðla".  Það hefði í för með sér, að höfuðstóllinn væri bara í íslenskum krónum miðað við lántökudag.  Þá standa vextirnir eftir.  Það er ekkert ólöglegt við að miða við LIBOR vexti erlendra gjaldmiðla, þannig í versta falli gætu lánveitendur setið uppi með krónum lán með mjög lágum LIBOR vöxtum.  Einn möguleiki er vissulega að lánið verði dæmt ólöglegt og bílunum væri skilað, en mér finnst það ólíklegasta lendingin.

Við megum ekki útiloka þann kost að einhverjir vilji bara halda gjaldmiðiltengingunni.  Út frá sögulegum gögnum, þá er krónan að standa sig betur en vísitala neysluverðs, þrátt fyrir útreið síðustu tveggja ára.

Hafa skal í huga að FME, Seðlabanki og viðskiptaráðuneyti samþykktu þessi lán, hvort sem það var gert formlega eða með þögninni.  Verði þau dæmd ólögleg, þá reikna ég með því að lánveitendur gætu átt skaðabótarétt á ríkið vegna þess að þessir aðila hafi vanrækt eftirlitshlutverk sitt.”