Ég fæ mun hærri greiðslubyrði eða 8,3%, ekki um 4%

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 1.7.2009.

Í grein í Morgunblaðinu í dag skrifar Gylfi Magnússon um greiðslubyrðina vegna Icesave.  Þar segir hann m.a.:

Vitaskuld er þó talsverð óvissa um vöxt útflutningstekna landsmanna á næstu árum. Óvarlegt er að gera ráð fyrir að vöxturinn verði sá sami og undanfarin 15 ár (8,4%) en óhætt ætti að vera að gera ráð fyrir að hann verði a.m.k. helmingur þess (4,2%). Gangi það eftir þá verða árlegar tekjur landsmanna af útflutningi um 7,5 milljarðar evra þegar fyrst kemur að því að greiða af Icesave-lánunum. Gangi jafnframt eftir að eignir Landsbankans dugi til að greiða 75% af höfuðstól þá myndi þurfa að meðaltali rétt rúm 4% af útflutningstekjum til að greiða lánið niður á átta árum. Vaxi landsframleiðslan helmingi hægar, mælt í evrum, en hún hefur gert undanfarin 15 ár, þá myndu greiðslurnar jafnframt samsvara tæpum 2% af landsframleiðslu á ári, að meðaltali, þau átta ár sem íslenski tryggingarsjóðurinn greiðir af lánunum.

Að ofan var miðað við mjög svartsýna spá um annars vegar endurheimtu eigna Landsbankans og hins vegar um vöxt útflutnings og landsframleiðslu. Sé miðað við enn svartsýnni spá, um engan vöxt útflutnings, verður greiðslubyrðin af Icesave-láninu um 6,8% af útflutningstekjum á ári að jafnaði. Sé hins vegar miðað við nokkuð bjartsýna spá, t.d. um að eignir Landsbankans dugi fyrir 95% af höfuðstól og að vöxtur útflutnings, mældur í evrum, verði svipaður á næstu 15 árum og á síðustu 15 árum, þá duga um 1,6% af útflutningstekjum landsins til að greiða Icesave-lánið.

Síðan segir hann:

Það er sama hvernig reiknað er. Ekkert bendir til annars en að landsmenn geti staðið undir skuldbindingum sínum vegna Icesave. Það verður að sönnu ekkert gleðiefni. Full ástæða er til að draga þá til ábyrgðar sem komu Íslandi í þessa stöðu, bæði fyrrverandi forsvarsmenn Landsbankans og aðra. Það væri hins vegar hreint glapræði að stefna endurreisn Íslands og öllum okkar samskiptum við umheiminn í stórhættu með því að neita að gangast við skuldbindingum okkar vegna Icesave og byggja það á þeirri augljóslega röngu forsendu að við ráðum ekki við þær.

Þetta er það sama og Gylfi sagði á blaðamannafundinum í gær.  Mér fannst staðhæfingin furðuleg í ljósi upplýsinga um útflutning fyrstu 5 mánuði þessa árs.   Ég lagðist því aðeins yfir tölurnar og orð ráðherrans.

Skoðum fyrst það sem hann fullyrðir: 

Greiðslur af Icesave muni aðeins nema rétt um 4% af útflutningstekjum Íslendinga síðustu 8 árin miðað við 4,2% vöxt útflutnings á ári í 15 ár.  Gerir hann þá ráð fyrir að 75% greiðist með peningum frá Landsbankanum. 

Fyrir þá sem ekki nenna að rýna í útreikninga mína fyrir neðan, þá eru niðurstöður mínar öllu alvarlegri en þær sem Gylfi fær.  Ég geri ráð fyrir að útflutningstekjur 2016-2023 verði alls 5.075 milljarðar miðað við 4,2% árlegan vöxt.  Ég geri einnig ráð fyrir að íslenska ríkið þurfi að greiða um 421 milljarð, en það er 8,3% af útflutnignstekjum þessara ára ekki 4%. Þó svo að ég hækki vöxt útflutnings í 8,4%, þá verða hlutföllin bara 5,4% miðað við útflutning 2016-2023.  Þetta eru allt aðrar stærðartölur en Gylfi nefnir.

Eina leiðin til að fá sömu niðurstöður og Gylfi var að hækka endurheimtuhlutfallið frá Landsbankanaum í 95%, en þá fæ ég að greiðslubyrði ríkisins sé að jafnaði 4,3% af útflutningstekjum og hækkar um 1% við hver 5% sem endurheimtuhlutfallið lækkar.  Þó svo að um 100% endurheimtur verði að ræða, þá munu greiðslur ríkisins samt nema 166 milljörðum eða 3,3% af heildarútflutningstekjum áranna 2016-2023 að báðum árum meðtöldum.

Nú væri fróðlegt að bera útreikninga Gylfa saman við mína og sjá í hverju munurinn liggur.

Skýringar á tölum

Hér fyrir neðan sýni ég útreikninga mína.  Séu einhverjir annmarkar á þessum útreikningum, þá þætti mér vænt um að ábendingar um slíkt.

Staðreyndir málsins eru:
1.  Höfuðstóll lánsins er áætlaður um 700 milljarðar króna
2.  Útflutningstekjur námu 170 milljörðum fyrstu 5 mánuði þessa árs
3.  Vextir af láninu eru 5,55%
4.  Vextir eru greiddir af eftirstöðvum hverju sinni og dreifast á síðustu 8 árin.

Útreikningur:

  1. Ekki er gert ráð fyrir að gengisbreytingar hafi áhrif á niðurstöðurnar, þó sú muni vissuelga verða raunin frá 2016.  Styrking krónunnar mun hafa áhrif á útflutningstekjur til lækkunnar, en það sama gerist líka varðandi skulda- og greiðsluhliðina.

  2. Frá Landsbankanum koma á 7 árum 3/4 af 700 milljörðum eða 525 milljarðar. 

  3. Ég gef mér að innborganir dreifist jafnt á lánstímann.  Upphæðin lækkar því línulega árlega og meðalársvextir því reiknaðir af helmingnum af 525 milljörðum. Vextir af 525 milljörðum eru því 525/2*5,55%*7= 102 milljarður

  4. Eftirstöðvar fyrir utan vexti eru 175 milljarðar og greiðist á 8 árum.

  5. Greiða þarf vextir af 175 milljörðunum öll fyrstu 7 árin.  Vextir í 7 ár af 175 milljörðum eru því 175*5,55%*7=68 milljarðar

  6. Ekki er gert ráð fyrr að greiddir séu vextir af ógreiddum vöxtum fyrstu 7 árin, en sé það gert gæti sú upphæð numið 20-25 milljörðum.

  7. Skuld eftir 7 ár = 175 + 102 + 68 = 345 milljarðar sem greiðast á 8 árum.  

  8. Við útreikning vaxta af þessum 345 milljörðum, gef mér að greiðslur dreifist jafnt á árin átta. Vextir af eftirstöðvum = 345/2*5,55%*8= 76,6 milljarðar og eru greiddir út árlega

  9. Heildargreiðsla ríkisins = 345 + 76,6 = 421,6 milljarðar.

  10. Árleg greiðsla = 345/8 = 43,1 milljarður + vextir sem eru 18 milljarðar fyrsta árið og lækka niður í 1,2 millljarða síðasta árið.

  11. Árlegar útflutningstekjur eru fundnar út með því að gera ráð fyrir að útflutningur fyrstu 5 mánuðina endurspegli útflutning ársins => 170/5*12= 410 milljarðar á þessu ári og miðað við 4,2% vöxt á ári verður talan komin í um 546 milljarða árið 2016 og 729 milljarða árið 2023.  Útflutningstekjur 2016 til 2023 = 5.074 milljarðar og 8.333 milljarðar fyrir 2009 - 2023

  12. Greiðslur ríkisins sem hlutfall af útflutningstekjum síðustu 8 árin eru því 421/5.074 = 8,3% ekki rétt um 4%.

  13. Greiðslur ríkisins sem hlutfall af útflutnignstekjum öll 15 árin eru 421/8.333 = 5,1%


Sé miðað við 8,4% vöxt útflutningastekna, þá er hlutfallið í 12. lið 5,4% og í 13. lið 3,7%.


Glapræði að hafna Icesave-samningi