Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 3.7.2009.
Þetta eru sláandi tölur sem koma fram í þjóðarpúlsi Gallup, þó þær komi ekki á óvart. 42% telja að skuldir séu álíka miklar eða meiri en verðmæti fasteignar. Þetta er meira en 4 af hverjum 10 íbúðaeigendum.
Hvers vegna kemur niðurstaða Gallup ekki á óvart? Jú, hún eru nákvæmlega sú sama og niðurstaða Seðlabankans var í mars. Í bráðabirgðaniðurstöðum starfshóps Seðlabanka Íslands um áhrif fjármálakreppu á efnahag heimila frá 11. mars 2009, þá kom fram að tæp 20% heimila væri komin með neikvæða eiginfjárstöðu og 22% væru með afar takmarkaða jákvæða eiginfjárstöðu. Þetta takmarkaða eigið fé hefur líklegast verið að étast upp síðustu 4 mánuði og þróunin mun bara halda áfram í þá átt á næstu mánuðum meðan ekkert er gert til að sporna við þeirri þróun.
En það er ekki eiginfjárstaðan sem skiptir öllu máli. Það er greiðslugetan sem ræður mestu.
Samkvæmt útreikningum Hagsmunasamtaka heimilanna, þá eru 54% heimila með þunga eða mjög þunga greiðslubyrði af föstum lánum. Þetta er talan sem skiptir öllu. Útreikningur HH er byggður á tölum Seðlabanka Íslands sem fjallað var um á málstofu bankans 11. júní sl. og hægt er að nálgast á vef bankans. Munum við kynna okkar niðurstöður betur á næstu dögum.
Það er niðurstaða könnunar Hagsmunasamtaka heimilanna meðal félagsmanna, að 61% þeirra er ekki að ná endum saman um hver mánaðarmót. Þetta fólk er annað hvort gjaldþrota eða á leið þangað, safnar skuldum eða er að ganga á sparifé sitt. Í þessu felst hinn raunverulegi vandi okkar um þessar mundir.