Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.7.2009.
Maður getur ekki annað en spurt sig þeirrar spurningar hvort ráðamenn þessarar þjóðar, embættismenn og forsvarsmenn fjármálafyrirtækja séu menn eða mýs. Það er sama hvað þetta fólk reynir að gera til að blása einhverjum glæðum í efnahagslífið alltaf kemur landstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og lemur menn niður. Og alltaf lúffa menn eins og undirlægir rakkar. Ég verð því miður að segja að mér finnst meira bera á mýslum hér í þjóðfélaginu um þessar mundir en mönnum.
Hvað þarf að gerast til þess að stjórnvöld fá nóg af þeim sirkus sem er í gangi í kringum lán Alþjóðagjaldeyrissjóðsins? Ég fæ ekki séð að tilgangur AGS sé að aðstoða Ísland og Íslendinga út úr þeim vanda sem alþjóða fjármálakreppa og fífldirfska eða heimska íslenskra bankamanna kom okkur í. Nei, tilgangur AGS er að tryggja að erlendir kröfuhafa nái að kreista eins miklu og hægt er út úr landi og þjóð. AGS hefur sýnt það og sannað á undanförnum mánuðum, að markmið félagsskaparins hefur ekkert breyst frá þeim tíma, þegar fátæk Afríkuríki voru neydd til að gefa burt auðlindir sínar svo hægt væri að tryggja þrældóm þegnanna um aldur og ævi.
Ég er einn af þeim sem hef snúist heilan hring í afstöðu minni til AGS. Fyrst eftir hrun bankanna vildi ég ekki sjá AGS vitandi um sviðinn akur sem sjóðurinn hefur skilið eftir sig alls staðar sem hann hefur farið. Síðan þegar getuleysi ríkisstjórnar Geirs H. Haarde var orðið of neyðarlegt til að geta horft upp á það og búið við lengur, þá hélt í ég einfeldni minni að vont gæti ekki versnað við það að snúa sér til AGS. Mikið hafði ég rangt fyrir mér. Það er ekki bara að vont hafi versnað. Þetta er eins og við hefðum hangið á annarri hendi á brún hengiflugsins og AGS sé sífellt að losa einn fingur í einu í staðinn fyrir að rétt okkur hjálparhönd. Það voru t.d. fyrirmæli frá AGS sem leiddu til þess að SPRON, Straumur og Sparisjóðabankinn voru sett í þrot í lok mars. Fyrir því hef ég eins traustar heimildir og hægt er að hugsa sér. Það er AGS sem kemur í veg fyrir endurskipulagningu íslensks atvinnulífs með niðurfellingu/umbreytingu lána. Það er AGS sem kemur í veg fyrir að hægt sé að takast á við skuldastöðu heimilanna hvort heldur með almennum aðgerðum að hálfu stjórnvalda eða að hálfu fjármálafyrirtækja. Viðkvæðið er alltaf það sama: AGS hefur sett sig á móti. AGS telur það ekki skynsamlegt. AGS heimilar það ekki.
Landstjóri AGS á Íslandi er einvaldur Íslands og AGS ræður öllu sem hér er gert. Stjórnvöld eru eins og lúbarinn rakki sem þorir ekki annað en að hlíða húsbónda sínum, AGS. Íslenska þjóðin hefur ekki frelsi til að leysa úr sínum málum á þann sem er þjóðinni fyrir bestu. Nei, erlendir áhættufjárfestar og erlendar stórþjóðir skulu fyrst fá sitt. Hagsmunir þjóðarinnar koma síðast.
Verstar finnast mér mýslurnar sem skríða um gólf hjá Samfylkingunni. Átti ekki ESB umsókn að breyta öllu? Átti ekki krónan að byrja að styrkjast um leið og umsóknin væri komin inn? Ég spyr bara: Hvað höfum við til ESB að sækja annað en kannski evru? Ef við viljum byggja þetta þjóðfélag upp, þá gerum við það sjálf innan frá. Upphefðin kemur ekki að utan. Manndómur kemur innan frá.
Við þurfum að rísa upp gegn kúgurum okkar, sem í þessu tilfelli snýst um Icesave skuldbindingarnar. Þetta snýst nefnilega allt um það að AGS er hér sem hinn harðasti innheimtulögfræðingur að tryggja að ekkert verði gefið eftir. Og það er alveg sama hversu fáránlegar kröfur eru settar fram af hálfu hinna svo kölluðu viðsemjenda okkar, við eigum bara að lúffa. Ætlar Alþingi Íslendinga í raun og veru að láta undan hótunum landstjóra AGS á Íslandi eða ætlar það að sýna sannan manndóm og hafna Icesave samningnum. Eða verða það 63 mýslur sem munu trítla um gólf Alþingishússins?
Fyrir nokkrum vikum fóru fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna á fund bankastjóra Nýja Kaupþings (NK). Þar var kynnt fyrir okkur hugmynd NK um úrræði fyrir skuldsett heimili. Færa átti höfuðstól lána niður í 80% af markaðsvirði íbúðar, næstu að hámarki 30% áttu að fara á biðlán á vaxta og verðbóta og það þá væri umfram átti að afskrifast, enda hafi félagsmálaráðherra nýlega gefið út reglugerð sem afnam skattskyldu slíkrar niðurfellingar. Síðan eftir 2-3 ár yrðu biðlánin endurskoðuð og hugsanlega felld niður. Mér fannst vera manndómur í þeim hjá NK, en síðan er komið í ljós að vöndur landstjóra AGS lenti á þeim og nú trítla mýs um ganga höfuðstöðva NK. Ég velti fyrir mér hver er tilgangurinn með þessu hjá landstjóranum. Hvort er betra að stefna öllu í gjaldþrot og raungera tapið í gjaldþrotinu eða að viðurkenna strax tapið og reyna að koma hér á skilvirku þjóðfélagi? Það skal tekið fram að Finnur Sveinbjörnsson var alveg sammála þeirri sýn HH að betra væri að koma sem fyrst á eðlilegri starfsemi. En landstjórinn er ekki sammála. Það er þess furðulegra, að NK gerir ráð fyrir að afskrifa 954 milljarða af 1.410 milljarða útlánum bankans á Íslandi. Mun landstjórinn kannski banna það?
Eitt er það sem ég hef aldrei geta skilið í öllu þessu hafaríi. Það er margbúið að benda á þá gríðarlegu forsendubresti sem urðu í tengslum við nær öll útlán bankanna. Skiptir ekki máli hvort það var til heimilanna, atvinnulífsins eða opinberra aðila. Verðbólgan fór langt upp fyrir það sem lánastofnanir gerðu ráð fyrir og veiking krónunnar er slík að líkast er sem hún sé með banvænt krabbamein. En hvernig stendur á því að talsmaður neytenda er eini opinberi aðilinn sem hefur eitthvað kannað þessi mál? Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum sent bréf út um allar trissur til að spyrja um lögmæti gengisbundinna lána og enginn þorir að segja neitt. "Þetta hlýtur að vera löglegt fyrst að við erum að bjóða upp á þetta." "Það er hlutverk dómstóla að skera úr um álitamál." Og síðan er það náttúrulega þessi þrúgandi þögn sem kemur frá Fjármálaeftirlitinu.
Ég fékk tækifæri um daginn til að spyrja lögmann að þessu og vitnaði af fagmennsku í greinar 13 og 14 í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur og þá sérstaklega greinargerðina með frumvarpinu. Hann sagði, til að verja FME, að það yrði að skoða nýlegri lög og þá sérstaklega lög um fjármálafyrirtæki. Þegar ég kom heim, þá fletti ég þeim lögum upp og las spjaldanna á milli. Hvergi sá ég neitt sem heimilaði það sem lög nr. 38/2001 banna. Ég sendi honum tölvupóst og bar mig aumlega. Sagðist ekki finna þetta ákvæði sem hann var að vísa í. Svarið kom um hæl. Þetta var misminni. Það var víst einhver dómur í Austurríki sem var málið! Mér finnst þetta allt lykta af skít. Ég get ekki að því gert. Menn fara undan í flæmingi vegna þess að þeir vita að gengisbundin lán voru ólögleg. En af hverju, þrátt fyrir alla þessa umræðu, hefur t.d. Umboðsmaður Alþingis ekki tekið þetta mál upp? Talsmaður neytenda komst að sömu niðurstöðu og HH, að mjög sterk rök væru fyrir því að í lögum nr. 38/2001 um vexti og verðbætur væri tekin af öll tvímæli um að óheimilt væri að tengja íslenskar fjárskuldbindingar við dagsgengi erlendra gjaldmiðla. En í þessu eins og mörgu öðru, þá trítlar mýslurnar um og gera ekki neitt.
Ég kalla eftir því að stjórnvöld, embættismenn og stjórnendur fjármálafyrirtækja fari að sýna alvöru manndóm. Hætti þessu fáti og fumi. Efnahagslíf þjóðarinnar verður ekki byggt upp með erlendri aðstoð. Gleymið því. Það verður eingöngu gert innan frá. Við þurfum að virkja alla sem geta lagt hönd á plóginn og losa okkur við þennan plógstjóra sem augljóslega er með kort af einhverju allt öðru svæði. Ef við viljum gera upp Icesave, þá skulum við gera það eftir okkar leiðum, ekki samkvæmt kolvitlausri forskrift Breta og Hollendinga. Það er t.d. þjóðhagslegra hagkvæmara að fá peningana fyrir Icesave að láni hjá lífeyrissjóðunum, en hjá Bretum og Hollendingum.
Loks óska ég lesendum góðrar helgar og gangið gætilega um gleðinnar dyr.
Viðbót 28.3.2024: Ég vil taka það fram, að ég kynntist Franek Rowzadowski, starfsmanni AGS á Íslandi, vegna starfa minna fyrir Hagsmunasamtök heimilanna og var hann virkilega þægilegur og yndislegur í samskiptum. Hann var hreinskilinn, skýr og um leið ákaflega elskulegur.