Er þetta sami maður og sagði..

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 22.8.2009.

Árni Páll Árnason, félagsmálaráðherra, sagði fyrir nokkrum dögum, að ekkert í mannlegu valdi gæti fært niður skuldir heimilanna.  Hann hefur greinilega verið kallaður á teppið, því viðsnúningurinn er 180°.  Ert hægt að treysta orðum þessa manns?

Ég er búinn að tala um það frá því í september að nauðsynlegt sé að fara í aðgerðir til að lækka greiðslubyrði lána heimilanna.  Í október notaði talsmaður neytenda hugmyndir mínar í skjal sem sent var þáverandi félagsmálaráðherra um leiðir vegna skuldavanda heimilanna.  Talsmaður neytenda hefur unnið að þessum málum síðan.  Hagsmunasamtök heimilanna voru stofnuð um þetta mál í janúar á þessu ári og hafa barist hatrammri baráttu fyrir LEIÐRÉTTINGU á húsnæðislánum.  Í febrúar var bent á að gengisbundin lán hefðu verið bönnuð með lögum árið 2001.  Það er með þetta eins og svo margt annað, að það er ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Því ber að fagna að ríkisstjórnin er að vakna af Þyrnirósarsvefni.  En til þess þurfti spark í rassinn frá formanni félags- og trygginganefndar, Lilju Mósesdóttur, sem hefur verið góður bandamaður í baráttu okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna.  Ég vil hvetja stjórnvöld til að taka upp á sína arma tillögu talsmanns neytenda frá því í vor um gerðardóm sem fjalli um skuldir heimilanna.  Þannig verði hægt að segja að ekki sé um flata niðurfellingu að ræða, eins og AGS leggst gegn.  Ég veit hins vegar að AGS leggst ekki gegn leiðréttingum sem byggja á því að einstakir hópar séu skoðaðir og allir innan sama hóps fái sambærilegar málalyktir.  Þetta kom fram á fundi Hagsmunasamtaka heimilanna með AGS fyrir nokkrum dögum.  Fulltrúi AGS sagðist heldur ekkert hafa fjallað um útfærslu Nýja Kaupþings á úrræðum fyrir skuldara og því er það í tómi lofti gripið að AGS hafi lagst gegn því að skuldir umfram 110% af veðhæfi væru afskrifaðar.  Meðan málin væru afgreidd á einstaklingsgrunni, mál fyrir mál, þá væri ekki hægt að leggjast gegn afskriftum.

Ég hef fyrir því góðar heimildir, að erlendum kröfuhöfum finnst vera illa svindlað á sér, þegar ætlast er til þess að þeir veiti mikinn afslátt á lánasöfnum við tilfærslu þeirra úr gömlu bönkunum í þá nýju.  Kannski er það ástæðan fyrir viðsnúningi Árna "ekkert í mannlegu valdi" Páls Árnasonar.  Stjórnvöld fengu einfaldlega þau skilaboð, að tilboðið gilti ekki nema afslátturinn rynni til innlendra lántakenda.

Nú er kominn tími til að stjórnvöld bretti upp ermarnar og kalli alla hagsmunaaðila að borðinu,  Hagsmunasamtök heimilanna líka.  Jóhanna og Steingrímur hafa ítrekað sagst vilja ræða við okkur.  Nefndu tímann þann, Jóhanna, og við mætum.