Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 23.8.2009.
Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður, var í viðtali á Stöð 2 fyrr í kvöld, þar sem hann hvetur skuldara til að greiða ekki meira en upphaflegar forsendur sögðu til um. Á visir.is er frétt um málið og vil ég gjarnan vitna í hana hér:
Lán landsmanna hafa hækkað upp úr öllu valdi eftir efnahagshrunið og forsendur þeirra breyst verulega frá því þau voru tekin. Sigurður G. Guðjónsson lögmaður segir að fólk ætti eingöngu að greiða af láninu miðað við upphaflegar forsendur.
Sigurður segir 36. grein samningalaga vernda lántakendur breytist lánsforsendurnar og þau heimili dómstólum að víkja frá samningsskilmálum.
Sigurður vísar til rúmlega tuttugu ára gamallar fræðigreinar Viðars Más Matthíassonar, setts hæstaréttardómara, í tímariti lögfræðinga þar sem hann hafi reifað sömu sjónarmið.
Hagsmunasamtök heimilanna eru með hópmálsókn í undirbúningi gegn bönkunum vegna breyttra lánsforsendna eftir hrunið. Sigurður segir tímasóun að fara í mál við þá, þeir eigi að sækja sín mál sjálfir við alla sína lántakendur sjái þeir ástæðu til.
Við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna föngum öllum sem taka undir okkar málflutning. Til að koma hlutunum á hreint, þá sagði Sigurður ekkert annað en það við höfum sagt. Fólk á að greiða í samræmi við upprunalega greiðsluáætlun. Það er mál í gangi, þar sem banki er að sækja að einum félagsmanni, sem neitar að viðurkenna kröfu bankans. Auk þess stendur til að höfða mál til ógildingar á lánasamningum og fá lánin felld niður en til vara verulegar leiðréttingar í samræmi við ákvæði 36. gr. samningalaga nr. 7/1936. Ég vil benda á bloggfærslu mína frá 13. febrúar 2009 þar sem ég spyr: Er hægt að ógilda verðtryggða og gengistryggða lánasamninga? Í athugasemd við þessa færslu nefni ég einnig hugsanlegt ólögmæti gengistryggðra lána vegna ákvæða í 13. og 14. grein laga nr. 38/2001 um vexti og verðbætur.
Það er fagnaðarefni að málsmetandi lögmenn eru loksins farnir að taka undir málflutning okkar hjá Hagsmunasamtökum heimilanna. Betur ef fyrr hefði verið. Er málið hugsanlega að stjórnvöld hafa ákveðið að fara í leiðréttingarnar, en geta ekki látið líta út fyrir að verið sé að ganga að kröfum Hagsmundasamtaka heimilanna? Núna hafa á nokkrum dögum fjölmargir aðilar stigið fram og tekið undir málflutning okkar og einhvern veginn hnýta allir aðeins í samtökin. Á því er ein áhugaverð undantekning í formi Ragnars Þórs Ingólfssonar sem telur HH vera eina sanna málssvara húsnæðiseigenda í landinu, sbr. þessi orð hans:
„Hvernig væri ef VR greidddi Hagsmunasamtökum heimilanna nokkrar milljónir? Þeim virðist vera meira umhugað um framtíð okkar en ASÍ, sem gerir ekkert annað en að verja helstu kosningamál Samfylkingarinnar, sem eru Evrópusambandið, lánalengingar og annað úrræðaleysi. Skrifstofu- og stjórnunarkostnaður VR var 404 milljónir á síðasta ári. Við hljótum að geta gert betur en frjáls hagsmunasamtök heimilanna sem starfa af hugsjóninni einni saman. Eða hvað?"
Það er sama hvar maður kemur og ræðir þessi mál. Allir eru hissa á því að ekkert hafi verið gert og eru búnir að fá nóg. Þorgeir Ljósvetningagoði sagði árið 1000, að ekki skuli hafa tvenn lög í landinu og þá er við brjótum lögin, brjótum við friðinn. Núna eru tvenn lög í landinu. Lög sumra fjármagnseigenda og lög annarra fjármagnseigenda og lántakenda. Lög sumra fjármagnseigenda virðast ganga út á að tryggja að þeir tapi ekki neinu. Lög annarra fjármagnseigenda og lántakenda ganga út á það að þessir aðilar skulu bera tjón sitt óbætt. Það er því ljóst að lögin hafa verið brotin. Með lögum er ekki átt við lög frá Alþingi, heldur þjóðfélagssáttmálinn. Slíkt getur ekki endað nema með ósköpum. Vilji stjórnvöld að hlutirnir endi illa, þá halda þau áfram að gera það sem þau eru best í, að hunsa hagsmunaaðila. Hvernig dettur stjórnvöldum í hug, að nefnd Kristrúnar Heimisdóttur verði talin trúverðug nema þeir sem bera hagsmuni heimilanna og neytenda fyrir brjósti séu virkir þátttakendur í mótun niðurstöðunnar. Halda menn virkilega að við, heimilin í landinu og neytendur, látum bönkunum eftir að ákvarða örlög okkar. Það er af og frá. Við treystum ekki bönkunum. Við treystum ekki stjórnvöldum. Við viljum fá beinan aðgang að ákvörðunartöku um framtíð okkar.