40% í fastar afborganir lána er ekki viðráðanlegt

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.6.2009.

Ég var á þessum fundi í dag og gerði nokkrar athugasemdir við framsetningu gagna.  Ég spurði hvernig menn hefðu komist að þeirri niðurstöðu að það væri viðráðanleg greiðslubyrði að greiða 40% ráðstöfunartekna í fastar afborganir lána.  (Að vísu vantar LÍN inn í þetta.)  Svarið sem ég fékk var frekar loðið.  "Þetta er það sem menn miðað við" eða eitthvað í þá áttina.  Ég spurði líka hvort inn í þessum tölum væru lán með frystingu og frestunum, þ.e. miðað væri við töluna sem fólk væri að greiða eftir að frysting eða frestun var komin til framkvæmdar.  Þorvarður Tjörvi fór einn og hálfan hring með það svar og veit ég ekki niðurstöðuna.  Þá spurði ég hvort menn hefðu samanburð frá því fyrir einu ári, tveimur árum eða lengra aftur í tímann.  Svarið við því var nei.  Þá spurði Friðrik Ó Friðriksson, félagi minn hjá Hagsmunasamtökum heimilanna, hvort til væri samanburður við önnur lönd og aftur var svarið nei.  Jú, það væri til tölur frá 2007 þar sem kæmi fram að íslensk heimili væru með þeim skuldsetnustu í Vestur-Evrópu (að mig minnir), en bent var á að tölurnar um Holland í þeim gögnum væru rangar.

Gögnin virðast ná til um 76 þúsund fjölskyldna af þeim um 100 þúsund sem eiga eigið húsnæði.  Hver samsetningin á restin er, veit ég ekki.

Niðurstaðan er sú að allt of stór hluti heimilanna er að nota of hátt hlutfall ráðstöfunartekna í fastar afborganir lána.  Þetta hlutfall á eftir að versna meðan ekki er gripið til aðgerða.  1/6 hluti af þeim 76.000 heimila sem könnunin náði til eru með mjög þunga greiðslubyrði, þ.e. greiða meira en helming ráðstöfunartekna í fastar afborganir lána.  Ekki er vitað um stöðu 45-50 þúsund heimila.  (Heimilin í landinu eru talin vera á bilinu 120-126 þúsund.)

Mér finnst mjög langsótt að telja það viðráðanlegt að greiða 40% ráðstöfunartekna í fastar afborganir lána.  Mér finnst það líka fáránlegt að segja að í lagi sé að nota 30% af ráðstöfunartekjum í greiðslu húsnæðislána.  Þau gögn sem ég hef séð um þessa greiðslubyrði miða við að heildarkostnaður við húsnæði sé ekki meira en þriðjungur af ráðstöfunartekjum, en inni í því eru skattar, tryggingar, fastur kostnaður af húsnæði, vatn, hiti og rafmagn, ekki bara afborganir lána.

Annars hef ég heyrt af því að aðgerðir séu í undirbúningi sem fela í sér niðurfærslu húsnæðislána.  Ég hef þetta staðfest úr þremur ólíkum áttum.  Þetta snúist um að Jóhanna og Steingrímur vilja eigna sér björgunina.  Ég segi bara, að mér er sama hvaðan gott kemur, og sama hver eignar sér lausnina.


Greiðslubyrði 77% viðráðanleg