Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 6.11.2009.
Á vef Samtaka fjármálafyrirtækja hefur verið birt samkomulag fjármálafyrirtækja um verklagsreglur um sértæka skuldaaðlögun. Hryllilegt plagg í alla staði, enda var aðkoma lántaka engin að skjalinu, að því að ég best veit.
Í skjalinu er margt fróðlegt að sjá, en eitt vantar alveg. Hvað eftir annað er lántökum stillt upp sem einhverjum óreiðumönnum, en hvergi er minnst einu orði á þátt aðildarfélaga Samtaka fjármálafyrirtækja í því að koma lántökum í þá stöðu sem hugsanlega neyðir viðkomandi til að leita þeirra nauðasamninga sem skjalið lýsir. Hvergi er ýjað að þeim ágreiningi sem er í gangi um lögmæti gengistryggðra lána eða forsendubrest verðtryggðra lánasamninga vegna markaðsmisnotkunar fjármálafyrirtækja á undanförnum árum. Nei, fjármálafyrirtækin vantar ekkert annað en að líma á sig vængina og geislabauginn.
Hvet ég alla að lesa þetta skjal vel áður en þeim dettur í hug að sækja um þá aðgerð sem þar er lýst. Auk þess er ég sannfærður um að verklagsreglurnar brjóti í bága við 1. mgr. 2. gr laga nr. 107/2009 um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishruns, en þar segir m.a.:
Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.
Í skjalinu er urmull atriða sem hvetja til "óþarfa kostnaðar og óhagræðis", að ég tali nú ekki um hve oft er sniðgengið það markmið "að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila".
Einnig brýtur samkomulagið í bága við 2., 5. og 6. tölulið 2. gr. þar sem segir:
2. Mats á greiðslugetu skuldara þar sem tekið skal tillit til eðlilegrar framfærslu.
5. Skýrleika og réttmætis kröfu kröfueiganda.
6. Hlutlægni við ákvörðunartöku kröfueiganda.
Ákvæði 2. töluliðar er augljóslega brotið í 7. gr. samkomulagsins, þar sem segir "að framfærslukostnaður sé metinn sem næst viðmiðunartölum Ráðgjafastofu um fjármál heimilanna", en Ráðgjafstofan segir á vef sínum að í viðmiði hennar sé " einungis [..] tekið tillit til nauðsynlegra útgjalda að mati Ráðgjafarstofu." Þetta eru því mjög þröngt ákvörðuð framfærsla sem á ekkert skylt við "eðlilega framfærslu". Það haf og himinn milli "nauðsynlegra útgjalda" og "eðlilegrar framfærslu".
Ákvæði 5. töluliðar er ítrekað brotið, þar sem ekkert tillit er tekið til forsendubrests og vafa um lögmæti krafna. Það er heldur enginn rökstuðningur fyrir því að miðað er við 110% mörk við greiðslugetu eða skýrt út hvers vegna neyða á lántaka til að selja eignir til að lækka skuldabyrði lána sem þegar hefur verið gert ráð fyrir að séu metnar langt yfir sannvirði sínu.
Ákvæði 6. töluliðar er einnig ítrekað brotið, þegar ekki er gerð krafa um samræmt mat á ýmsum þáttum, svo sem hvað telst hæfilegt húsnæði, ekki er skilgreint hvað átt er við með orðunum "skal greiðslugeta ráða fjárhæð skuldbindinga sem greitt er af og fleiri slíkar geðþótta ákvarðanir má nefna, sem ekkert hafa með "hlutlægni við ákvörðunartöku kröfueiganda" að gera.
Loks vil ég enn og aftur benda fjármálafyrirtækjum, að við lántakar erum viðskiptavinir þeirra, ekki mjólkurkýr. Mörg þessara fyrirtækja (eða undanfarar þeirra) tóku þátt í mjög grófri aðför gegn okkur og ollu gríðarlegu tjóni. Það er því öfugsnúið, að við séum glæpamennirnir sem eigum að tapa eigum okkar. Staðreyndin er sú að fjármálafyrirtækin eru, með fáum undantekningum, hinir seku og skulda okkur bætur, ekki öfugt.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa ákveðið að taka þetta samkomulag fjármálafyrirtækja til nánari skoðunar og mun senda greinargerð frá sér fljótlega í næstu viku.
Viðbót 28.3.2024: Síðar átti eftir að koma í ljós, að reglur fjármálafyrirtækjanna höfðu verið tilbúnar ÁÐUR en frumvarpið að lögum nr. 107/2009 var lagt fram.