Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 11.11.2009.
Hér er komin ótrúlega skýr og afdráttarlaus niðurstaða. Hún er nákvæmlega sú, sem Hagsmunasamtök heimilanna og björn Þorri Viktorsson hafa haldið á lofti. Ég hef nokkrum sinnum skrifað um þetta mál og einatt bent á skoðun manna í lagadeildum án þess að nefna neinn á nafn. Jæja, þarna er nafnið. Eyvindur G. Gunnarsson er sem sagt einn af þeim, sem ég hef verið í samskiptum við.
Annars var hann ekki í öfundsverðri stöðu, hann Jóhannes Karl Sveinsson, að verja gjörsamlega vonlausan málstað. Rökin hans voru sum furðuleg og hafði ég á tilfinningunni, að hann hafi ekkert verið allt of æstur að verja gengistryggðu lánin.
Erindi Eyvindar var mjög gott og benti hann á fjölmörg rök máli sínu til stuðnings. Þau sterkustu voru líklegast, að hann sat í nefndinni, sem samdi frumvarpið að lögum nr. 38/2001, og ætti því að vita hvað menn hefðu verið að hugsa. En auk þess benti hann á, eins og lesa hefur mátt hér áður, að 2. gr. laganna tiltekur að greinar 13 og 14 séu ófrávíkjanlegar, en þær innihalda hin mikilvægu ákvæði um að eingöngu megi verðtryggja með vísitölu neysluverðs eða samkvæmt innlendum eða erlendum hlutabréfavísitölum.
Nú er spurningin hvort þetta dugi stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum til að viðurkenna forsendubrest lánanna. Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til að gengistryggðum lánum þeirra sem vilja, verði skipt yfir í verðtryggð lán frá lántökudegi. Ég held að fjármálafyrirtæki eigi að ganga að því hið fyrsta.
Gengistrygging ólögleg verðtrygging
Viðbót 28.3.2024: Eyvindur var starfsmaður nefndarinnar sem samdi á sínum tíma frumvarp að lögum nr. 38/2001 og var því einfaldlega einn af þeim mönnum á Íslandi sem hafði bestu þekkingu á þeim. Jóhannes Karl Sveinsson var hins vegar í samninganefnd Steingríms J. Sigfússonar í samningum um nýju bankana á vormánuðum 2009. Hann var því líklegast sá sem kom þeirri hugmynd að og inn í skýrslu Steingríms J nokkrum mánuðum síðar að rangur skilningur á lögunum myndi bjarga kröfuhöfum yrði gengistryggingin dæmd ólögleg, benti á hvernig ætti að misskilja lögin og samdi síðan frumvarp að lögum 151/2010 sem jafnan veru kennd við Árna Pál. Hefði maður vitað þetta með JKS þarna á fundinum, þá hefði maður líklegast spurt hann erfiðari spurningina en ég gerði.