Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 5.11.2009.
Það er alveg með ólíkindum að stjórnvöld virðast ekki geta tekið upp hanskann fyrir almenning. Nú hefur loksins verið birt mat um líklega afskriftarþörf fjármálafyrirtækja vegna skulda heimilanna. Það hljóðar upp á 600 milljarða. Já, litla 600 milljarða. Maður skyldi nú halda að félags- og tryggingamálaráðherra og hans fólk tæki þessu nú fagnandi, en raunin er önnur. Strax er byrjað að tala þetta niður og hafna því að þetta verði afskriftir nema á þegar töpuðum kröfum og þá aðeins að fólk fari í sjálfviljuga þrotameðferð á vegum bankanna utan dómstóla, svo kallaða sértæka skuldaaðlögun.
Talskona ráðuneytisins í þessum efnum, Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur, segir í viðtali við fréttastofu RÚV, að þetta svigrúm verði bara nýtt fyrir hina verst settu og þá sem fara í gegnum sértæka skuldaaðlögun samkvæmt reglum bankanna. Já, takið eftir, bankarnir, þið munið sem sköpuðu hamfarirnar, eiga að hafa sjálfdæmi um hvernig þeir taka eignirnar af okkur.
Miðað við tölur í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), þá var virði skulda heimilanna hjá fjármálafyrirtækjunum um 1.700 milljarðar kr., en þær hafa verið endurmetnar á um 1.100 milljarða og því munu um 600 milljarðar fara í afskriftarsjóð sem nota á til að færa niður skuldir hinna "verst settu".
Vandamálið sem ég og fleiri stöndum frammi fyrir, er að viljum við nú átta okkur á því hvernig þetta virkar, þá vantar nánari upplýsingar. Til þess að geta reiknað þetta úr, þá þurfa að liggja fyrir eftirfarandi tölur fyrir hina "verst settu":
Skuldir þeirra hjá fjármálastofnunum
Eignir þeirra
Greiðslugeta
Hér stendur hnífurinn í kúnni. Þessar upplýsingar liggja ekki frammi, þannig að auðvelt sé að lesa út úr þeim það sem þarf að vita. En ef við reynum, þá liggja fyrir alls konar upplýsingar frá Seðlabanka Íslands sem birtar voru í júní. Það kostar talsverða yfirlegu að átta sig á hvað þessar tölur þýða og hve hátt hlutfall skulda hinna "verst settu" munu dragast frá 600 milljörðunum og hve stór hluti reiknast með "góðu" skuldunum.
Ég met það vera tveggja til þriggja daga vinnu að reikna þetta út og er það meira en ég get lagt til í sjálfboðavinnu á næstu dögum eða vikum bara af því að ég hef svo mikinn áhuga. Brauðstritið verður að hafa sinn forgang.
Eitt er þó alveg á hreinu, að ekki falla allar skuldir hinna "verst settu" undir þessa 600 milljarða. Það er bara sá hluti þeirra sem er umfram eignamörk eða greiðslugetu. Veltur það á því hvort stendur undir meiri skuldum. Skuldi einhver "illa staddur" 40 m.kr., á eign upp á 30 m.kr. og með greiðslugetu sem stendur undir því að greiða af 20 m.kr. láni, þá falla 10 m.kr. undir þessar 600 milljarða og 30 m.kr. falla undir "góðu lánin", þ.e. 1.100 milljarðana. Sé staðan sú að eignin sé metin á 15 m.kr. og greiðslugetan hin sama, þá falla 20 m.kr. undir hvorn flokk. Það er því nauðsynlegt að vita nákvæmlega hve stór hluti skulda heimilanna er umfram eignamörk eða greiðslugetu eins og ég lýsi í þessum dæmum.