Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 17.10.2009.
Þegar ég heyrði af því í hádegisfréttum RÚV að brotist hefði verið inn í steinasafnið að Teigarhorni og þaðan stolið öllum geislasteinum safnsins, þá fann ég fyrir sorg í hjarta. Er virkilega svona komið fyrir landinu, að dýrmætustu gersemar þess eru ekki lengur óhultar nema í rammgirtum söfnum.
Já, safnið að Teigarhorni var meðal mestu náttúrugersemum okkar. Þó ég hafi ekki komið á það, þá hef ég lesið nóg um það til að vita hvað það hafði að geyma. Þarna voru einstakir steinar á heimsvísu.
Án þess að vita málavöxtu, þá finnst mér ekkert annað koma til greina, en hér hafi fagmenn verið á ferð. Þeir vissum hvað átti að taka og hverju átti að sleppa. Hugsanlega var þetta gert eftir pöntun einhverra óprúttinna aðila úti í heimi. A.m.k. dettur varla nokkrum í hug, að hægt væri að koma safninu í verð hér innan lands. Svona rán hefur vafalaust verið skipulagt út í hörgul. Þjófarnir líklegast komið þarna oft við og spurt út í sýningargripi. Þeir hafa kortlagt ferðir heimafólks og hugsanlega dvalið á Djúpavogi eða í nágrenni í dágóðan tíma síðustu mánuði. Eða að þeir hafa haft vitorðsfólk, sem hefur veitt þeim allar þessar upplýsingar.
Ýmsar spurningar vakna við þessa frétt. Ein sú fyrsta var hvort búið sé að kortleggja ýmis verðmæti landsins og ætlunin sé að stela þeim smátt og smátt. Hvers vegna ekki? Hér vaða uppi skipulagðir glæpahópar, sem hafa ákveðið að breyta Íslandi í hverfi austur evrópskra borga, þar sem vændi, ofbeldi og fíkniefni er það sem íbúarnir þurfa að sætta sig við. Þessir guttar hafa að sjálfsögðu uppgötvað, að hér eru ýmis verðmæti geymd án daglegs eftirlits, þó ég ætli ekki að kenna þeim endilega um þetta atvik.
Þessi sorglegi atburður að Teigarhorni kallar líklegast á gjörbreytt viðhorf til verndar verðmæta út um allt land. Hvert einasta safn, þarf að framkvæma áhættumat, þar sem tekið er tillit til ógna í umhverfi þessi. Hvað kemur út úr slíku áhættumati, ætla ég ekki að ákveða hér og nú, en líklegast verður það eitthvað annað en óbreytt ástand.