Enn eitt vígið fallið - Veð á að duga fyrir skuld - Stórskuldugir fá mestu afskriftirnar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 21.10.2009.

Ég er búinn að liggja aðeins yfir frumvarpi félagsmálaráðherra í þingskjali nr. 69 frumvarp til laga um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gengishrunsins.  Þetta er stærra mál en nokkurn hefði grunað, ef marka má athugasemdir og umsögn með frumvarpinu.  Fallið er enn eitt vígið sem við hjá Hagsmunasamtökum heimilanna höfum setið um, þó hugsanlega sé þessi sigur bara tímabundinn.  Þá er ég að vísa til þeirrar kröfu samtakanna "að veð takmarkist við þá eign sem sett er að veði". Hér er gerð heiðarleg tilraun til að koma því í kring. 

Í 2. gr. frumvarpsins segir m.a.:

Í samningi milli kröfuhafa og skuldara um eftirgjöf skulda eða breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga skal fyrst og fremst horft til þess að laga skuldir að greiðslugetu og eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis. Skal miðað að því að hámarka gagnkvæman ávinning samningsaðila af því að gefa eftir tapaðar kröfur og komast hjá óþarfa kostnaði og óhagræði.

Í athugasemd með þessari grein segir:

Greinin tekur aðeins til einstaklinga [og heimila]. Hér eru lagðar til meginreglur um hvert eigi að vera viðmið samningsaðila þegar breytingar eru gerðar á eldri lánasamningum svo ná megi þeim markmiðum sem greinin kveður á um. Markmiðið er að skuldir verði aðlagaðar eignum og greiðslugetu. Við mat á greiðslugetu er eðlilegt að horft sé til tekna undanfarið ár og framtíðarmöguleika. Við mat á virði eigna er eðlilegt að litið sé til markaðsverðs, þar sem það hefur myndast, eða opinbers mats á eignum sem standa til tryggingar, eins og til dæmis fasteignamats eða mats á bifreiðum ef slík möt eru til. Forsenda þess að niðurfærsla höfuðstóls skuldar og vaxta sé raunhæf og sanngjörn er að lántaki geti greitt af þeirri fjárhæð. Ef lántaki getur til dæmis ekki greitt af nýjum höfuðstól skuldar, sem tekur mið af virði eigna, er líklegt að forsendur lántaka séu brostnar og leita verði annarra lausna, eins og til dæmis sölu eigna.

Þarna er sagt að laga skuli "skuldir að...eignastöðu".  Það getur ekki þýtt neitt annað en að eign sem lögð er að veði eigi að duga fyrir láni og raunar er gengið lengra, þar sem eignir eiga líka að duga fyrir öðrum skuldum en veðlánum.  En það er margt sem hangir hér í lausu lofti.  Skoðum fyrst eignahliðina. 

Laga skal "skuldir að...eignastöðu viðkomandi einstaklings eða heimilis."  Ok, ég var búinn að velta þessu upp með að veð dugi fyrir skuld, en hvaða eignir eiga að duga fyrir skuldunum?  Ég reikna með að hér sé miðað við skattskyldar eignir viðkomandi, þ.e. efnislegar eignir.  En hvað á að ganga langt?  Get ég farið í að kaupa mér fullt af flottum græjum á lánasamningum, en þar sem græjan er ekki "eign" samkvæmt túlkun á lögunum, en lánasamningurinn er skuld, þá get ég átt græjuna en látið afskrifa lánasamninginn?  Setja þarf undir slíka leka, því annars mun fólk einfaldlega hamstra dýran búnað og setja á raðgreiðslur eða lánasamninga sem ættu að falla undir þær skuldir sem skoðaðar eru með niðurfærslu í huga.

Talað er um "breytingu á skilmálum skuldabréfa og lánssamninga".  Hvaða skuldabréf og lánssamningar falla undir þetta?  Er það geðþótta ákvörðun kröfuhafa eða verður gefið út samræmt álit?  Mun Alþingi ákvarða það með almennri leiðbeiningu?  Ég er ekki að setja út á þetta ákvæði, en það er opið.  Raunar galopið.  Ég skil vel að veðskuldir falli undir þetta, þ.e. húsnæðislán og bílalán, en hvað með boðgreiðslusamninginn, VISA lánið, námslánin, yfirdrátturinn, ábyrgðir fyrir aðra o.s.frv.  Samkvæmt orðanna hljóðan á það að gerast.  Sé verið að taka einstakling í ígildi nauðasamninga, þá verða allar skuldir að vera með og því ekki samningskröfur, mánaðarlegar úttektir í Húsasmiðjunni eða svo fáránlegt sem það er, skuldin við vídeóleiguna.  Svo skulum við líka átta okkur á, að undir þetta falla lán vegna hlutabréfakaupa, fyrir fjórhjólinu, fellihýsinu, hjólhýsinu og hvað það var nú sem var keypt.  Allt er þetta meira og minna verðlaust í dag ýmist vegna þess að fyrirtækin eru horfin sem gáfu út hlutabréfin eða markaðsverðmæti eignanna er ekkert. Ok, það er til skattalegt mat á eignunum og notast má við það.  Staðreyndin er, að stórskuldugir aðilar fá stærstu skuldaaflausnina þó vissulega séu skyldar eftir skuldir í samræmi við eignir.  Hvort það geri stöðu þeirra eitthvað betri fer eftir hinum tveimur atriðunum sem nefnd eru í greininni og skipta máli. 

Allar skuldir umfram eignir eiga að afskrifast og það skattfrjálst.  Ég veit ekki hvort ég eigi að hlæja eða gráta, fagna eða mótmæla.  Gefa á upp allar skuldir sem eru umfram eignir nema greiðslugeta segi annað.  Það má því segja, að verið sé að bjarga starfsmönnum fallinna fyrirtækja sem gerðu samninga um kauprétt eða keyptu hlutabréf með því að taka lán með veð í bréfunum sjálfum.  Það eru tvær hliðar á þessu.  Önnur er að fólk getur verið að fá háar upphæðir felldar niður.  Hin hliðin er að fólk stendur í reynd uppi án eigin fjár.  Hafi það eitthvað átt í fasteign sinni áður en það tók þessa áhættu, þá er það horfið.  Það grátlega við þetta, er að þeir sem fóru varlega og eiga ennþá eigið fé eru ekki að fá neina leiðréttingu, af þeirri einu ástæðu að það hagaði sér skynsamlega.  Hvert er réttlætið í því?

Eitt sem er gríðarlega mikilvægt í þessu öllu er að, samkvæmt athugasemd, þá verður hægt að leysa allar skuldir heimilisins saman.  Þ.e. skuldir allra á heimilunum fara í sama ferlið.  Þetta er mikilvægt í ljósi þess, að á mörgum heimilum dvelja ungmenni 18 ára og eldri sem tekið hafa lán af ýmsum ástæðum.  Lán sem foreldrarnir standa oft straum af að greiða niður. 

Frumvarpið er þó langt frá því að vera fullkomið.  Allt of margt í því er ófullburða.  Of margir lausir endar og skilgreiningar vantar á mikilvægum atriðum.  Ég hef nefnt þetta með skuldir og eignir, en hvað með verklagsreglur fjármálafyrirtækja.  Af hverju eiga kröfuhafar að ákveða hvaða leikreglur gilda?  Af hverju ekki talsmaður neytenda eða fá Íbúðalánasjóð til að semja reglurnar?  Hvenær taka reglurnar um sértæk úrræði gildi?  Hvað gilda þær lengi?  Hverjir komast í þetta ferli? Ég gæti haldið áfram endalaust.

Raunar má segja að á frumvarpinu séu þannig ágallar, að betra sé að fresta afgreiðslu þess og freista þess að gera það betra.  Ég átta mig á því að 1. nóvember er mikilvæg dagsetning, en betra er að framlengja frest vegna nauðungarsölu um  1 - 3 mánuði, en að samþykkja lög "um aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja" á harðahlaupum.  Það er óvirðing við almenning í landinu að ætla að afgreiða svona stórt mál á nokkrum dögum.  En eru ekki tæpar tvær vikur til mánaðarmóta, spyr einhver.  Jú, vissulega, en það eru ekki þingfundir í næstu viku!  Þá eru störf í kjördæmum!  Við skulum hafa í huga, að stjórnvöld hafa haft 54 vikur til að móta þessar hugmyndir, ef miðað er við fall bankanna, og 80-90 vikur ef horft er til falls krónunnar.  Himinn og jörð farast ekki þó við færum gildistökuna til 1. desember, sérstaklega ef niðurstaðan verður heilsteyptari lög.

Höfum líka í huga að tillögur félagsmálaráðherra um aðgerðir í þágu heimilanna hafa varla fengið nokkra opinbera umræðu.  Það vantar allar tölulegar upplýsingar.  Engir útreikningar hafa verið birtir.  Engin sýnidæmi um áhrif.  EKKERT.  Almenningur á bara að trúa því að tillögurnar séu góðar.  Almenningur á líka bara að treysta fjármálafyrirtækjum fyrir því að semja verklagsreglur sem gæta sanngirni, réttlætis og jafnræðis.  Gerir þú það lesandi góður?  Ég geri það ekki.

Síðan eru nokkrar rangfærslur í athugasemd með frumvarpinu.  Er það boðlegt, að skýringar með frumvarpinu innihaldi rangfærslur?  Ekki gleyma því, að athugasemdirnar geta haft áhrif á túlkun dómara á lögunum!  Auk þess gætu rangfærslurnar orðið til þess, að ekki eru allir aðalleikendur kallaðir að borðinu við samningu verklagsreglnanna.  Þá á ég við gömlu bankana og, hversu fáránlegt sem það kann að hljóma, Seðlabanka Íslands.  Það vill nefnilega svo til, að Seðlabanki Íslands er með veð í stórum hluta af húsnæðislánum landsmanna í gengum vöndla sem gömlu bankarnir (aðallega Kaupþing og Glitnir) lögðu að veði gegn lánum hjá bankanum.  Verklagsreglur sem ekki hafa hlotið samþykki þessara aðila gætu því hæglega komið að litlum notum.

Ég tek það skýrt fram, að í megin atriðum munu lögin, ef frumvarpið verður samþykkt, hafa jákvæð áhrif.  Fyrir marga eru þau lífsbjörg.  Fyrir fjölmarga lögfræðinga og bankamenn eru þau spurningin um að halda starfi sínu og réttindum.  Þess vegna er svo mikilvægt að vandað sé til verks.  Höfum samt eitt hugfast.  Frumvarpið leysir ekki vanda allra.  Það inniheldur ekki sanngirni, réttlæti og jafnræði fyrir alla.  Eftir er skilinn stór hópur fólks, sem á að bera tjón sitt óbætt.  Gleymum því aldrei.