Fjárkröfu Lýsingar vísað frá dómi vegna vanreifunar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 16.10.2009.

Héraðsdómur Reykjavíkur vísaði í gær frá dómi kröfu Lýsingar á hendur manni, sem hafði haft bíl hjá fyrirtækinu á leigusamningi.  Ástæða frávísunarinnar var vanreifun Lýsingar á fjárkröfum sínum í stefnunni.  Eða eins og segir í dómnum:

Eins og fram hefur komið er lýsingu málavaxta og málsástæðna í stefnu verulega ábótavant þegar horft er til lögskipta aðila samkvæmt gögnum málsins auk þess sem krafa stefnanda er ekki sundurliðuð. Í stefnunni er hvorki með viðhlítandi hætti greint frá þeim málsástæðum sem stefnandi byggir málsókn sína á, né öðrum atvikum sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, eins og krafa er gerð um í e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Verður ekki fallist á það með stefnanda að framlagning yfirlits um uppgjör, sem á engan hátt er fjallað um í stefnu, leysi hann undan þeim kröfum ákvæðisins að búa stefnuna þannig úr garði að hún ein og sér gefi stefnda fullnægjandi mynd af sakarefninu og stefnda þar með til kynna að hvaða atriðum varnir hans geta beinst. Að þessu virtu verður ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi.

Ég fæ ekki betur séð, en að dómari sé að benda Lýsingu vinsamlega á, að vanda verður til gerðar fjárkrafna/stefnu, þannig að ljósar séu ástæður og forsendur kröfunnar/stefnunnar.

----

Ég fékk upplýsingar um þetta mál sendar í tölvupósti.  Sendandi segir tvennt í pósti sínum, sem vil minnast á án þess að ég aflétti nokkurri leynd.

1.  ..veit kannski ekki hvað þetta þýðir, amk. sýnist mér þetta þýða að fjármögnunarfyrirtækið getur ekki bara rukkað og rukkað hvað sem er þegar búið er að taka bílinn af viðkomandi og greiða lítið fyrir hann. Þeir þurfa amk. að gera grein fyrir því.

Ég held að þetta sé alveg rétt ályktun, þ.e. að ekki er verið að amast við því að fjármögnunarfyrirtækin rukki lántaka, en rukkunin þarf að byggja á föstum grunni.

2.  .. vinur minn lenti í því að missa bíl hjá ... þar sem þeir greiða 1,7 fyrir bílinn, svo er hann kominn á sölu og ásett 3,6 og þeir senda honum reikning upp á 6,5 millj.

Þeim fjölgar alltaf sögunum, þar sem greint er frá ósvífni fjármögnunarfyrirtækjanna.