Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 30.10.2009.
Já, við neytendur eigum bara að taka því sem að okkur er rétt. Takið eftir:
Stjórnvöld hafa gert samning við fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóði og Íbúðalánasjóð um úrræði vegna skuldavanda einstaklinga og heimila og framkvæmd þeirra.
Hvenær hefur það tíðkast, að hinn brotlegi ákveði refsingu sína? Í þessu tilfelli er ekki um refsingu að ræða. Miðað við drög, sem ég hef séð að vísu frá 12. október, þá er verið að leggja grunn að allsherjar eignaupptöku. Ekki er á nokkurn hátt viðurkennt að fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðirnir hafi farið langt út fyrir öll siðferðisgildi í viðskiptum og stuðlað með háttsemi sinni að hruni efnahagslífsins og stökkbreytingu á lánum einstaklinga og heimila.
Hvenær varð félagsmálaráðherra að sérlegum samningamanni neytenda um betri rétt? Hann hefur ítrekað hunsað vilja samtaka neytenda að fá að koma að borðinu. Hann vissulega fékk okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna á fund til sín og hinn svo kallaða Ákallshóp, en það er ekkert í nýsettum lögum sem ber hinn minnsta vott um að hann hafi hlustað á þessa aðila. Ekkert! Ekki á ég von á að þessi boðaði samningur breyti þar nokkru.
Ég held að félagsmálaráðherra væri nær að hafa samskipti við fólkið í landinu, þ.e. lántakendur, en að smjaðra fyrir lánveitendum. Höfum í huga að það var óábyrg hegðun fjármálafyrirtækja sem ollu þeirri stökkbreytingu skulda einstaklinga og heimila sem við erum að kljást við. Og nú á að verðlauna þau fyrir þessa óábyrgu hegðun með því að færa þeim eignir landsmanna á silfurfati og það sem meira er, stóran hluta atvinnutekna næstu árin.
Það verða engir samningar gildir nema með aðkomu og samþykki hagsmunaaðila lántakenda. Við erum þolendur í þessu máli og sátt verður ekki nema við, þolendurnir, samþykkjum samninginn. Annars er hann ekki pappírsins virði. Ég hafna alfarið því að slegin sé skjaldborg um fjármálafyrirtækin í landinu á kostnað einstaklinga og heimila.