Hvað þýðir "debt relief to viable borrowers"?

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 28.10.2009.

Í kvöldfréttum Sjónvarps var stutt viðtal við Mark Flanagan hjá AGS.  Þar fagnar hann ýmsum áföngum sem hafa náðst.  M.a. fagnar hann því að náðst hafi samkomulag við kröfuhafa bankanna.  Svo segir hann:

And finally in the debt restructuring area I just want to highlight that now we have managed to mark down loans to appropriate level in the banks' books, this has to be translated into appropriate debt relief to viable borrowers.

Þetta var þýtt sem hér segir:

Hvað skuldbreytingar varðar vil ég leggja áherslu á að nú þegar tekist hefur að lækka lánsfjárhæðir niður í hæfilegt hlutfall í bókhaldi bankanna verður það að skila sér til lánþega sem lækkun skulda eða greiðslubyrði.

Ég vek sérstaka athygli á feitletruðu orðunum.  Þarna tapast heilmikið í þýðingunni.  Mark segir ekki "skila sér til lánþega sem lækkun skulda eða greiðslubyrði".  Hann segir:

..skila sér til lífvænlegra lántakenda með lækkun skulda.

Þessi orð eru sem töluð úr mínum munni.  Hann er ekki að mæla með leið ríkisstjórnarinnar og bankanna að afskrifa eingöngu lán sem eru töpuð.  Nei, ég get ekki skilið orð hans öðruvísi en, að lækka eigi skuldir lífvænlegra lántakenda, þ.e. þeirra sem eru í erfiðri stöðu og létta þarf undir svo þeir geti haldið áfram að lifa lífinu.  Það eigi því að ganga mun lengra en ríkisstjórnin er að mælast fyrir um og létt undir með skuldsettum aðilum, þó svo að skuldir séu ekki umfram eignir.

Ég hef sent Franek Rozwadowski, fulltrúa AGS hér á landi, tölvupóst, þar sem ég óska eftir nánari skýringu á orðum Marks Flanagans og hlakka ég til að heyra hvað hann hefur að segja.  Kæmi mér verulega á óvart, ef hún væri fjarri mínum skilningi.