Samkomulag um þjóðnýtingu staðfest

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 31.10.2009.

Í dag voru undirritað samkomulag um greiðslujöfnun og skuldaaðlögun án aðkomu annars samningsaðilans í þeim lánasamningum sem undir samkomulagið heyra.  Er þetta bara enn eitt dæmið um þann eindregna vilja stjórnvalda að slá skjaldborg um fjármálafyrirtækin í landinu á kostnað einstaklinga og heimila í landinu.  Stjórnvöld og fjármálafyrirtæki ganga ennþá út frá því að heimilin séu botnlausir sjálftökusjóðir fyrir þessa aðila.  En þar skjátlast þeim.  Heimilin munu ekki sætta sig við þetta. Stríðshanskanum hefur verið kastað.

Annars hef ég margoft sagt að bæði þjóðnýtingarlögin frá 23. október og margt í tillögum félagsmálaráðherra frá 30. september hafi upp á lítið nýtt að bjóða.  Í nóvember 2008 voru sett lög um greiðslujöfnun, í apríl 2009 var undirritað samkomulag um að fjármálafyrirtæki biðu upp á fjölbreytt úrræði vegna greiðsluvanda einstaklinga og heimila og loks í júní var sett reglugerð um skattfrelsi afskrifta.  Það eina sem þjóðnýtingarlögin gerðu var að setja þriggja ára þak á lengingu greiðslujafnaðra lána, gera þau að sjálfgefnu úrræði vegna verðtryggðra lána og veita fjármálafyrirtækjum undanþágu frá samkeppnislögum um að koma með samræmdar verklagsreglur um hvernig eignaupptakan á að fara fram.  Atriðin sem snúa að greiðslujöfnuninni hefði mátt ná með viðbót við fyrra samkomulag um greiðslujöfnun.  Atriðið varðandi sértæka skuldaaðlögun er náttúrulega bara skandall, þar sem það er með ólíkindum að tjónið af fjárglæfrum fjármálafyrirtækjanna eigi að lenda á einstaklingum og heimilum.