Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 12.12.2009.
Það fór ekki mikið fyrir þessari frétt á mbl.is í gær (föstudag). Hún fór framhjá mér og það var ekki fyrr en ég sá hana í Morgunblaðinu í dag að ég las hana. Ég er ekki að tala um breytingu á neyslumynstri milli áranna 2006-2008 miðað við 2005- 2007. Nei, ég er að tala um það sem stendur neðarlega í fréttinni um að neysluútgjöld hafi dregist saman um 17% að raungildi síðustu þrjá mánuði síðasta árs miðað við sömu mánuði 2007. Þetta þýðir umtalsverðan samdrátt í tekjum ríkisins, velta fyrirtækja minnkar og þar með þörf fyrir starfsfólk.
Mikið er ég fenginn að fá þessa staðfestingu á því sem ýmist ég eða Hagsmunasamtök heimilanna höfum verið að halda fram í meira en ár. Hækkun á greiðslubyrði lán hefur leitt til samdráttar í neyslu heimilanna. Þetta er hluti af því sem heitir á hagfræðimáli, samdráttur í innanlandseftirspurn. Vissulega er þetta samdráttur að raungildi, en þar sem verðbólga var mjög svipuð hluta tímans, þá er hægt að segja að neysluútgjöld hafi nokkurn veginn staðið í stað á milli ára, þrátt fyrir nokkra hækkun launa.
Því miður verðum við að bíða eitthvað eftir upplýsingum um samanburð neyslu á þessu ári og því síðasta, en ég er sannfærður um að þar verður myndin ennþá dekkri. Venjulega hefur svona samdráttur í sér verulega lækkun verðbólgu, en sú lækkun lét bíða eftir sér. Ástæðan er einfaldlega að peningamagn í umferð jókst svo gríðarlega við fall krónunnar og vegna verðbólgunnar sem fylgi. Þegar slík aukning peningamagns á sér stað án hagsvaxtar eða verðmætaaukningar, þá getur það ekki farið í neitt annað en að auka verðbólguna enn frekar og veikja krónuna.
Hagsmunasamtök heimilanna hafa lengi varað við því, að neyslusamdrátturinn muni aukast meðan bankakerfið og stjórnvöld telja sig geta gengið með sjálftöku í sjóði heimilanna. Við höfum einnig varað við því að samdráttur í innanlandseftirspurn mun vinda upp á sig meðan sífellt stærri hluti tekna fyrirtækja og heimila fer inn í bankakerfið og til ríkisins. Kakan sem skorið er af minnkar í hverjum hring og kallar á að ríkið og bankarnir þurfa að skera stærri sneið í hvert sinn. Þetta gerir ekkert annað en að auka líkurnar á öðru hruni og ennþá alvarlegra. Eina leiðin til að afstýra þessu, er að bankarnir og ríkið gefi eftir. Bankarnir verða að fara út í verulega niðurfærslu skulda- og greiðslubyrði lána heimila og fyrirtækja og það ekki seinna en strax. Ríkið verður að hætta við auka skattheimtu hjá atvinnulífinu og heimilunum og sækja tekjur þangað sem ekki hefur í för með íþyngjandi byrðar á þessa aðila. Möguleikarnir eru ekki margir, en þeir eru fyrir hendi.
Hagsmunasamtök heimilanna stungu upp á því í sumar og gerðu það aftur í umsögn um skattafrumvörpin sem núna liggja fyrir Alþingi. Hugmyndin okkar er einföld, hún er skjótvirk og kostar heimilin og fyrirtækin ekki neitt. Okkar tillaga er að taka tímabundið altl að helming af mótframlagi atvinnurekenda í lífeyrissjóði og færa til ríkisins í formi tryggingargjalds eða sértækra skatta. Þetta mun vissulega skerða getu lífeyrissjóðanna til nýrra fjárfestinga nema þeir losi um pening annars staðar. Ef þessu er hrint í framkvæmd með tillögum Sjálfstæðisflokksins um skattlagningu séreignarsparnaðar, þá mun ekki þurfa að fara út í neina aðra skattlagningu á almennar launatekjur og neyslu. Hægt verður að standa vörð um kjör lífeyrisþega og velferðarkerfið.
Mér skilst að þessi hugmynd hafi verið skoðuð, en mætt andstöðu hjá launþegahreyfingunni. Ég verð að viðurkenna, að ég skil ekki þá andstöðu. Er betra að fólk missi vinnuna? Er betra að skerða kjör fólks með meiri skattlagningu? Er betra að skerða þegar of knöpp kjör aldraðra og öryrkja? Þessi aðgerð, sem Hagsmunasamtök heimilanna hafa lagt til er líklegast gjörsamlega sársaukalaus. Áhrif hennar er hægari uppsöfnun lífeyrisréttinda en annars, en við núverandi aðstæður, þá bendir hvort eð er allt til þess að hægja muni á þeirri uppsöfnun, auk þess sem búast má við að eftir því sem fleiri fyrirtæki og heimili komast í vanda mun ávöxtun lífeyrissjóðanna dragast saman. Þessi leið er því í öllu tilfellum betri en skattaleið stjórnvalda fyrir utan að hún kemur EKKERT niður á skuldum heimilanna. Hækkun höfuðstóls lána heimilanna vegna verðbóta mun ekki verða að veruleika og höfum í huga að heildargreiðslubyrði lána heimilanna mun aukast um nálægt 50 milljörðum vegna fyrirhugaðra skattahækkana. Já, 50 milljarða viðbótarreikningur er sendur til heimilanna á líftíma lánanna, vegna þess að embættismenn í fjármálaráðuneytinu geta ekki hugsað út fyrir boxið og forystumenn launþegahreyfingarinnar hugsa bara um að sitja á sjóðum sínum.
Annars fór ég á fund efnahags- og skattnefndar á fimmtudaginn. Það virðist gjörsamlega tilgangslaust að mæta á slíka fundi. Til hvers er verið að biðja hagsmunaaðila að leggja fram umsagnir, ef ekki er hugmyndin að skoða þær? Hroki stjórnarliða í garð almennings kemur líklega best fram í því. Mér er sagt, að umsagnir sendar nefndum séu nær aldrei ræddar í nefndunum. Í besta falli tekur meirihlutaklíkan afstöðu, en að það eigi sér stað málefnaleg umræða á nefndarfundi er víst mjög sjaldgæft. Formaður nefndarinnar nennti ekki einu sinni að hlusta á okkur sem vorum þarna, heldur var fjarverandi mest allan tímann. Enda vorum með mér fulltrúar annarra "grátkóra" býst ég við, þ.e. Öryrkjabandalagið og Landsamband eldri borgara. Þessir þrír hópar hafa jú ekkert að segja. Ríkisvaldið ætlar t.d. að gefa sjómönnum og útgerðum fjögur ár til að laga sig að niðurfellingu sjómannaafsláttar, en tekjur lífeyrisþega er hægt að skerða um þúsundir, ef ekki tugi þúsunda á mánuði með þriggja daga fyrirvara. Ég held að ríkisstjórnarflokkarnir ættu að fara að sýna fólkinu í landinu meiri virðingu og hlusta á vilja þess. Við viljum ekki meiri álögur á heimilin.