Erlendar skuldir og staða krónunnar

Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 4.12.2009.

Það er áhugavert að fylgjast með þessari umræðu um erlendar skuldir ríkisins og þjóðarbúsins.  Í sumarbyrjun höfðu menn litlar sem engar áhyggjur af þessu og þurfti tvo gesti á fund fjárlaganefndar í Icesave umræðunni til að vekja menn til umhugsunar.  Þar á ég við sjálfan mig og Harald Líndal Haraldsson, hagfræðing.  En það er óhætt að segja, að við Haraldur lyftum lokinu af kistli Pandóru, því síðustu mánuði hafa menn verið ákaflega meðvitaðir um þessa stöðu.

Við skoðun á skuldastöðu ríkissjóðs annars vegar og þjóðarbúsins hins vegar, þá verður að horfa til nokkurra þátta.  Samanburðurinn við verga landsframleiðslu er ákaflega ruglandi.  Um þessar mundir er verg landsframleiðsla mæld í evrum ákaflega lág og erlendar skuldir mældar í krónum ákaflega há.  Þannig að sé samanburðurinn gerður í evrum, þá fáum við mjög neikvæða stöðu og sama gerist ef staðan er skoðuð í krónum, þ.e. miðað við gengið í dag.  Það er nefnilega eitt stærsta vandamálið í þessum samanburði.  Ef krónan styrkist, þá mun draga saman með vergu landsframleiðslunni og skuldunum, en það mun samt ekki breyta neitt getu okkar til að greiða skuldirnar.  Þetta hlutfall skiptir nefnilega ekki megin máli.  Það sem skiptir megin máli eru erlendar tekjur þjóðarinnar og viðskiptajöfnuður.  Til þess að geta greitt vextina af skuldunum og síðan skuldirnar sjálfar þarf að vera verulegt innstreymi gjaldeyris umfram útstreymi.  Í því felst vandamálið, ekki hvort skuldirnar séu 200%, 400% eða 600% af vergri landsframleiðslu.

Seðlabankinn setti í sumar fram draumórakennda spá um viðskiptaafgang næstu ára.  Þennan viðskiptaafgang er, að mati Seðlabankans, hægt að nota til að greiða upp skuldirnar.  En málið er, að þessi afgangur er ekki nægur.  Með 3.000 milljarða, að ég tali ekki um 6 - 8 þús milljarða tikkandi á vöxtum, þá duga 150 milljarðar ekki einu sinni til að greiða vextina.  Í því felst vandi þjóðarinnar, ekki hvort skuldir séu þetta eða hitt hlutfall af vergri landsframleiðslu.

Við skulum líka vara okkur á, að styrking krónunnar mun ekki breyta þessu endilega.  Styrkist krónan, þá mun jú vissulega draga saman, eins og áður segir, en afgangurinn af viðskiptum við útlönd mun lækka í krónum talið í sama hlutfalli og vaxtagreiðslurnar.  Lausnin er því ekki styrking krónunnar og lausnin er heldur ekki veiking krónunnar.  Lausnin liggur í því að vera með gjaldmiðil sem er viðurkenndur á alþjóðavísu, en gjaldmiðilsskiptin (ég reikna ekki með að krónan verði nokkurn tímann tekinn í sátt utan landsteina) verða að eiga sér stað með mun sterkari krónu.  Það er algert lykilatriði, vegna þess að við verðum að fá sem mest fyrir krónuforðann okkar.  En þar liggur annar vandi.

Staðreyndin er sú, að allt of margar krónur eru í umferð.  Ástæðan er einföld.  Þær verða sjálfkrafa til í kerfinu með verðbótum og hækkun gengistryggðra lána.  Þessi tvö lánaform eru því það sem er að drepa hagkerfið.  Styrkist gengið um 30%, þá mun peningamagn í hagkerfinu minnka um 15 - 20%!  Verði 10% verðhjöðnun, þá minnkar peningamagnið um 5-7%.  Ástæðan er sú að þetta kerfi reynir alltaf að halda sama fjölda af "raunkrónum" í umferð.  Þetta er náttúrulega fáránleg staða.  Fáránleikinn er ennþá meiri, þegar við skoðum víxlverkun þessara þátta.  Undanfarin 2 ár hefur krónan veikst um nálægt 100%.  Sú veiking bjó til fleiri þúsund milljarða króna í hagkerfinu í formi hækkunar krafna fjármálafyrirtækja á heimili og fyrirtæki.  Þessar krónur koma á ójafnvægi milli framboð og eftirspurnar á krónum, sem valda frekari lækkun á gengi og fleiri krónur verða til.  Sama gerist með verðbæturnar.  Þær urðu til vegna verðbólgu og valda svo frekari verðbólgu þar sem peningamagn jókst (raunmagnið hélst óbreytt).  Krónan mun ekki styrkjast og verðbólga fara niður fyrir 3% fyrr en Seðlabankinn hefur náð að minnka verulega peningamagnið sem er í umferð.  Og jafnvægi kemst ekki á hagkerfið fyrr en við losum okkur við verðtryggingu lána eða setjum þak á verðbætur, þannig að raunmagnið aukist ekki nema í takmörkuðu mæli í takt við verðbólgu.


Skuldir ríkissjóðs örlítið lægri