Færslan var fyrst birt á Moggabloggi höfundar 7.10.2009.
Margrét Tryggvadóttir, þingmaður Hreyfingarinnar, bar upp þrjár spurningar til Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag. Spurningarnar eru okkur hjá Hagsmunasamtökum heimilanna vel kunnar, þar sem Margrét hafði samband við okkur og bauð okkur að aðstoða sig við gerð þeirra. Henni voru sendar nokkrar spurningar og valdi hún eftirfarandi þrjár:
1. Samkvæmt tillögum háttvirts félagsmálaráðherra, Árna Páls Árnasonar, um greiðslujöfnun heimilanna og leiðréttingu skulda á að taka upp greiðslujöfnunarvísitölu til að reikna út mánaðarlegar greiðslur af verðtryggðum lánum. Getur háttvirtur ráðherra upplýst hvenær talið er að greiðslur samkvæmt þeirri aðferð verða orðnar jafnháar og greiðslur samkvæmt núverandi aðferð? Á hverju byggir það álit, þ.e. spár um launaþróun og minnkun atvinnuleysis?
2. Nú gera tillögur háttvirts ráðherra ráð fyrir að lánstími verðtryggðra lána gæti að hámarki lengst um 3 ár. Hefur verið reiknað út hve stór hluti lána muni þurfa einhverja lengingu lánstíma og hve stór hluti lánanna verði ekki greiddur upp í lok þriggja ára lánalengingarinnar?
3. Nú hafnar háttvirkur ráðherra því alfarið í tillögum sínum, að þeir sem geta eingöngu nýtt sér almennar aðgerðir tillagnanna fái nokkra leiðréttingu á höfuðstóli lána sinna, nema hugsanlega í lok lánstímans, þrátt fyrir að fréttir berist af því að lánasöfn heimilanna verði flutt með miklum afslætti frá gömlu bönkunum til þeirra nýju. Getur háttvirtur ráðherra upplýst þingheim (og þar með mig) hvort það er rétt, að ætlunin sé að færa lánasöfnin á milli með umtalsverðum afslætti og þá hver sá afsláttur er?
Tvær fyrri spurningarnar eru lykilspurningar um virkni almenna hluta tillagna ráðherra, þ.e. um áhrif greiðslujöfnunarvísitölunnar á greiðslubyrði og lánstíma. Af svörum hans að dæma höfðu þessi áhrif ekki verið reiknuð út. Hann bablaði um leng dýfunnar og þess háttar, en engar tölur komu. Málið er að hann hafi ekki grænan grun. Hvernig er hægt að leggja fram tillögur þar sem menn hafa ekkert í höndunum um áhrif tillagnanna? Ef búið væri að reikna eitthvað, eins og áhugamannasamtökin Hagsmunasamtök heimilanna hafa gert, þá hefði ráðherra getað sagt:
Sem svari við spurningunni um hvenær greiðslur samkvæmt greiðslujöfnunarvísitölunni ná greiðslum samkvæmt vísistölu neysluverð, þá reiknum við með að þess tímasetning verði eftir 8 - 10 ár (eða hvað það annað sem menn höfðu reiknað). Varðandi hve margir munu þurfa á lengingu lána að halda, þá reiknum við með að fyrir lán með innan við 10 ár eftir af lánstíma, þá reiknum við með að 45% lántaka þurfi slíka lengingu og 20% þeirra fái afskriftir að þremur árum liðnum. (Þetta eru algjörlega tilbúnar tölur af minni hálfu.) Séu 10 - 20 ár eftir af lánstíma er reikna með að þessi hlutföll fari niður í 15 og 5%. Nú fyrir lán umfram 20 ár, þá er í besta falli reiknað með að 5% lána þurfi lengingu, en engar afskriftir verði.
Nú varðandi lánasöfnin sem flutt verða úr gömlu bönkunum yfir í þá nýju, þá eru staðfestar niðurstöður ekki komnar og því hef ég ekkert handbært um það.
En ráðherra hefur annað hvort ekki látið reikna þetta út eða að niðurstöðurnar eru svo jákvæðar fyrir fjármálafyrirtæki, að hann þorir ekki fyrir sitt litla líf að segja almenningi sannleikann. Hvort er að það, Árni Páll? Veistu ekki tölurnar eða sýna tölurnar, það sem okkur hjá HH grunar, að lítið verði um afskriftir?
Svo tek ég heilshugar undir með Lilju, að tillögur ráðherra ganga ekki nógu langt fyrir utan að vera ekki fullmótaðar.